Fara í efni
Fréttir

„Skeytingarleysi og vanþekking“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair á Akureyri, gagnrýnir harðlega ummæli Orra Haukssonar, fráfarandi stjórnarformanns Isavia á aðalfundi félagsins í vikunni. Þar varaði Orri við því að starfsemin í Keflavík yrði látin fjármagna taprekstur á innanlandsflugi, en hlutverk Isavia er m.a. að reka flugvelli hérlendis. Meðfylgjandi úrklippa er af Innherja á Vísi.

„Í ávarpi fráfarandi stjórnarformanns ISAVIA var margt upplýsandi og fátt jákvætt. Eiginlega það eina jákvæða að hann sé fráfarandi,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

„Efnisinntak kveðjuræðunnar afhjúpaði heimóttarlegan hugsanagang borgríkisins sem augljóslega hefur viðgengist innan stofnunarinnar, en ekki síst ævintýralegt skeytingarleysi og vanþekkingu á því stóra verkefni sem felst í því að byggja heilt land.

Þjónusta landið allt, enda situr viðkomandi í umboði landsmanna. Beint og óbeint.

Um land allt liggja vannýttir innviðir sem beinlínis hrópa á betri hagnýtingu og arðsemi, en eru vegna þessarar heimóttarlegu nálgunar erfitt að uppskera þar sem aðgengið er stórkostlega skert með þeirri (sturluðu) staðreynd að innviðir þjóðarinnar allrar í millilandaflugi hafa verið byggðir upp á einum stað á landinu, lengst af með skattfé landsmanna, nú síðast með 15 milljarða framlagi úr okkar vösum í fyrra. Sú fjárhæð jafngildir um 8-földu framlagi ríkisins til árlegs rekstrar allra annarra flugvalla landsins.“

Heiðarleg staðfesting

Þorvaldur segir: „Það er frískandi að fá svona heiðarlega staðfestingu á and-byggðarlegri uppbyggingu ríkisinnviða, en téður fráfarandi mandarín, hefur skákað í skjóli pólutískra embættisveitinga á kostnað okkar landsmanna frá því hann komst til vits og ára og undir hlýjan pilsfald flokksins.

Það er sem betur fer á enda í þessu embætti og ljóst við hvaða vindmyllur hefur verið barist undangengin ár.“

Þorvaldur Lúðvík segir réttmæta kröfu dreifbýlinga fyrir eðlilegri innviðauppbyggingu millilandasamgangna og jafnræði til atvinnuuppbygginar líta hjákátlega út í ljósi þessarar ræðu, en gott að hindranirnar séu loks orðnar sýnilegar og að vonandi verði bragabót á með skipan nýs stjórnarformanns, sem treysta megi að viti betur og skilji um hvað ábyrg hagnýting heils lands snýst um.

Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi ráðherra og bæjarstjóri á Akureyri, tók við formennsku á aðalfundinum í vikunni.

„Tækifærin til framtíðar liggja í stærri köku, fyrir fleiri, en ekki aukinni samþjöppun á sama bletti,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

_ _ _

  • Isavia ohf. er þjónustufyrirtæki í rekstri flugvalla og flugleiðsögu „og leggur grunn að öflugum flugsamgöngum á Íslandi. Framtíðarsýn okkar er að Ísland verði miðstöð flugs á Norður Atlantshafi,“ segir á vef félagsins.
  • Þar segir: „Isavia ohf. annast uppbyggingu og rekstur Keflavíkurflugvallar. Dótturfélög þess Isavia ANS og Isavia Innalands reka annars vegar flugleiðsöguþjónustu á einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og hins vegar öflugt net innanlandsflugvalla á Íslandi. Þessu til viðbótar rekur dótturfélagið Fríhöfnin ehf. fimm verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Hjá Isavia og dótturfélögum vinnur samhentur hópur sem telur um 1.000 manns, sem hefur það að markmiði að vera hluti af góðu ferðalagi hjá öllum þeim sem fara um flugvelli okkar og flugstjórnarsvæði.“