Nýr samningur um samstarf SAk og RHA
Nýlega var undirritaður samstarfssamningur milli Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA). Eftir því sem fram kemur í frétt á vef SAk er markmiðið með samningnum að starfsfólk SAk fái stuðning í vísindavinnu sinni og að tryggja því aðgang að faglegri ráðgjöf og sérfræðiþekkingu RHA. Með samningnum staðfesti SAk og RHA sameiginlegan vilja til að efla samstarf á sviði rannsókna og fræðastarfs.
Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk segir í fréttinni að með þessu samstarfi sé stigið mikilvægt skref í átt að öflugri rannsóknarinnviðum. „Við viljum að starfsfólk SAk sem hefur áhuga á því að framkvæma vísindarannsókn og vinna að nýsköpun í heilbrigðiskerfinu fái góðan stuðning til að útfæra hugmyndir sínar,“ segir Laufey.
Arnar Þór Jóhannesson, forstöðumaður RHA, segir að starfsfólk RHA hlakki til samstarfsins. „RHA hefur stundað rannsóknir og stutt við rannsóknir annarra í yfir 30 ár og við sjáum mikil tækifæri í því að tengjast enn betur því ört vaxandi vísindastarfi sem fer fram innan SAk,“ segir Arnar Þór en auk hans starfa 9 sérfræðingar á ýmsum sviðum hjá miðstöðinni.