Fara í efni
Fréttir

Manchesterflug fært til kvölds á laugardögum

Mynd: Þorgeir Baldursson

Frá og með morgundeginum, laugardegi 31. janúar breytist komu-og brottfarartími flugvéla easyJet milli Manchester og Akureyrar og verður vél félagsins um 10 klst. seinna á ferðinni en verið hefur á laugardögum fram að þessu. Farþegar á leið til Manchester á laugardögum verða þá ekki komnir þangað fyrr en um miðnætti og gerir það stuttar helgarferðir frá laugardegi til þriðjudags talsvert minna fýsilegar.

EasyJet fékk ekki að halda sínum hefðbundna flugtíma vegna leiguflugs hollenska flugfélagsins Transavia milli Amsterdam og Akureyrar, sem einnig er á laugardögum. Þessi breytta tímasetning flugsins milli Manchester og Akureyrar á laugardögum gildir út marsmánuð en þá fer Manchesterflugið í „sumarfrí“ fram í miðjan nóvember. 

Breytingin í hnotskurn:

  • Flogið verður frá Manchester kl. 17:20 á laugardögum – áður kl. 7:15 – og lent á Akureyri kl. 20:20 – áður kl. 10:15.
  • Flogið verður frá Akureyri kl. 21:25 á laugardögum – áður kl. 11:20 - og lent í Manchester kl. 23:55 – áður kl. 13:50.

Breytt gegn vilja easyJet

Að sögn Hjalta Páls Þórarinssonar hjá Markaðsstofu Norðurlands, verkefnastjóra Flugklasans Air 66N, var þessi breyting á flugtíma gerð gegn vilja easyJet. „Ég veit að easyJet vildi hafa sama brottfarartíma á öllum sínum flugum til og frá Manchester í vetur, en gat það ekki vegna annarrar umferðar um flugvöllinn. EasyJet fékk sem sagt ekki sömu brottfarartíma (slot) á Akureyrarflugvelli í febrúar og mars eins og félagið hafði frá nóvember til janúar,“ segir Hjalti Páll.

Frá 31. janúar til 7. mars mun hollenska flugfélagið Transavia fljúga milli Akureyrar og Amsterdam á laugardögum og þriðjudögum og verður laugardagsflugið á sama tíma og Manchesterflug easyJet var – kl. 11:20. Hjalti Páll segir að sér sé ekki kunnugt um hvers vegna hollenska flugfélagið gekk fyrir þegar „slotum“ var úthlutað og vísaði á Isavia í því sambandi. „En það er rétt að ítreka að þessi hollensku flug eru mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og þannig mikilvæg fyrir okkur – eins og flug easyJet,“ áréttar Hjalti Páll.

Erlent fyrirtæki stjórnar lendingartímum

Hermann Jóhannesson er flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli en hann segist aðspurður ekki getað svarað því hvernig ákvarðanir um úthlutanir lendingartíma á vellinum eru teknar. „Slot-mál á Íslandi eru alfarið í höndum erlends aðila,“ segir Hermann og vísar þar til danska fyrirtækisins Nordic Airport Coordination, sem stjórnar og úthlutar lendingartímum á fjölmörgum flugvöllum í norðanverðri Evrópu, auk Íslands.

Það verður því mikið umleikis á Akureyrarflugvelli á laugardögum á næstunni, því auk Manchester og Amsterdam er easyJet með flug milli Lundúna og Akureyrar á laugardögum. Við þessi þrjú millilandaflug bætist svo innanlandsflugið og því er óhjákvæmlegt að spurningar vakni um afkastagetu vallarins og hvaða þættir séu mest takmarkandi þegar kemur að millilandaflugi.

Nýja flugstöðin rúmar 450 manns

Hermann svarar því til að tvö atriði vegi þar þyngst. „Það er pláss fyrir þrjár millilandaflugvélar af stærri gerðinni, tvær á nýja flughlaðinu og eina á gamla flughlaðinu – en þá væri ekkert innanlandsflug á sama tíma því sú vél myndi blokka það. Hinn þátturinn er að það má einungis hafa að hámarki 450 manneskjur inni í nýju flugstöðinni hverju sinni, að meðtöldu starfsfólki. Flestar farþegavélar eru í kringum 180 manns,“ segir Hermann.

Ef það lúxusvandamál myndi skapast að eftirspurn flugfélaga eftir lendingartímum á vellinum færi umfram núverandi afkastagetu, þá þyrfti að sögn Hermanns að ráðast í uppbyggingu á innviðum vallarins og þar myndu framangreind atriði vega þyngst.