Fara í efni
Fréttir

Fyrsta flugið milli Zürich og Akureyrar

Veðrið skartaði sínu fegursta þegar vél Edelweiss lenti á Akureyri laust fyrir miðnætti. Fjöldi ferðamanna er á þessari mynd, þó enginn þeirra sjáist! Skemmtiferðaskipin Norwegian Prima, það stóra, og National Geographic Resolution voru við bryggju í nótt en fara í dag. Ljósmyndir: Pedromyndir

Svissneska flugfélagið, Edelweiss Air, hóf í gær áætlunarflug milli Zürich og Akureyrar. Vélin lenti á Akureyrarflugvelli laust fyrir miðnætti og hélt utan á ný klukkan liðlega hálf tvö í nótt. Flogið verður vikulega, á þessum tíma sólarhrings, til 18. ágúst en félagið hyggst bjóða upp á flug þessa sömu leið í fjóra mánuði á næsta ári.

Vel var tekið á móti Svisslendingunum í gærkvöldi; veðrið var eins fallegt um hugsast getur, Slökkvilið Akureyrarflugvallar stóð heiðursvörð og sprautaði yfir vélina eins og tíðkast á hátíðarstundum sem þessari, og þegar inn í flugstöðina var komið bauð veitingamaðurinn í Flugkaffi, Raffaele Marino, öllum farþegum upp á pönnukökur og kaffi.

Edelweiss hefur lengi boðið upp á ferðir til Keflavíkur að vetrarlagi en flýgur nú í fyrsta skipti til Akureyrar. Þegar tilkynnt var um flugið í lok síðasta árs sagði í tilkynningu að Edelweiss hefði mikla trú á Íslandi sem áfangastað og sæi góð tækifæri til þess að koma með enn fleiri farþega til landsins í gegnum Akureyrarflugvöll, þá sérstaklega farþega sem hafi áður komið til Íslands og vilji ferðast víðar um landið.