Nýir aðflugsferlar úr suðri kynntir í dag
Nýir aðflugsferlar úr suðri að Akureyrarflugvelli voru kynntir í dag, í fréttabréfi Isavia ANS, dótturfélags Isavia. Þeir taka gildi 19. mars en flugfélög byrja ekki að notast við þá fyrr en í fyrsta lagi einhvern tíma í sumar eða haust. Lengi hefur verið eftir þessum tímamótum enda er búnaðurinn sagður breyta mjög miklu.
Með staðfestri útgáfu ferlanna geta flugfélög hafið innleiðingu og þjálfun, sem mun taka einhvern tíma. Vitað er að þotur easyJet og Icelandair hafa útbúnað fyrir tæknina og til stendur að Dash 8-400 vélar Icelandair verði uppfærðar til þess að nota umrædda tækni.
Um er að ræða þrívíða aðflugsferla samkvæmt nýjustu kröfum um nákvæmni og öryggi, sem munu stórbæta aðgengi að Akureyrarflugvelli. Þeir geta til dæmis skipt sköpum í slæmu skyggni: eftir að nýju ferlarnir verða teknir í notkun geta flugstjórar beðið mun lengur en nú með að ákveða hvort þeir hyggist lenda eða snúa frá.
- Í dag verða flugstjórar að gera upp hug sinn, hvort þeir lendi eða snúi frá, í 1250 feta hæð og rúmlega 8 kílómetra fjarlægð frá brautarenda.
- Með því að nota nýju aðflugsferlana geta flugstjórar beðið með ákvörðunina þar til vélin er í 320 feta hæð, og 1,4 km frá brautarenda.
Búnaðurinn er sagður henta aðstæðum við Akureyri afar vel; hann býður upp á stefnu og hæðarleiðsögu sem hefðbundin tækni hefur ekki ráðið við í aðflugi niður Eyjafjarðardalinn, einkum vegna beygju á flugferlinum við Kristnes.