Fara í efni
Fréttir

Framleiðsla Vélfags í mun stærra húsnæði

Höfuðstöðvar Vélfags fremst á myndinni. Framleiðslan flyst í stóra húsið fyrir aftan. Mynd af vef Vélfags.

Tæknifyrirtækið Vélfag opnar senn fimmtu starfsstöðina hér á landi, við Njarðarnes 3-7 á Akureyri, þar sem Trésmiðjan Börkur var áður til húsa. Húsnæðið er 2541,5 fm og þangað flyst framleiðsla, lager og samsetning, auk þess sem hluti starfsmanna á skrifstofu verður þar.

Nú standa yfir flutningar á framleiðsluvélum yfir í nýja húsnæðið. Ekki er langt að fara því höfuðstöðvar Vélfags við Baldursnes 2 eru í næsta húsi vestan við það nýja við Njarðarnes. Baldursnesið verður áfram notað fyrir þróun og skrifstofur.

Gengið hefur verið frá ráðningu Elvars Stefánssonar í stöðu framleiðslustjóra hjá Vélfagi en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2015. Elvar er vél- og orkutæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að vera með sveinspróf í rennismíði.

Elvar kvðst bjartsýnn á framhaldið: ,,Það eru mjög spennandi tímar framundan og að flytja framleiðsluna yfir í stærra húsnæði er í takt við aukinn vöxt Vélfags og velgengni á undanförnum árum," segir Elvar í tilkynningunni.

Vélfag hannar og framleiðir fiskvinnsluvélar til notkunar á sjó og landi.

Framleiðsla Vélfags flyst í stærsta húsið á myndinni, þar sem Trésmiðjan Börkur var áður með starfsemi. Vélfag er nú í „litla“ húsinu vinstra megin aftan við það stóra. Mynd af síðu Vélfags.