Fara í efni
Fréttir

Beint flug til London á innan við 5.000 krónur

© visitlondon.com/Antoine Buchet

Það styttist í það að Easy Jet hefji áætlunarflug sitt milli Akureyrar og London Gatwick. Flogið verður tvisvar í viku frá og með 31.október á þriðjudögum og laugardögum.

  • Smellið hér til að sjá fyrri umfjöllun Akureyri.net hér 

Búið er að setja upp áætlun út mars og samkvæmt lauslegri könnun Akureyri.net á verði á farmiðum þá er hægt að fá flugmiða frá Akureyri til London á allt niður í 24,99 pund með handfarangri (45 x 36 x 20 cm taska) eða á um 4217 krónur. Verð er mjög misjafnt eftir dögum en virðist spanna frá 24,99 pund og upp í 93 pund á hverjum fluglegg, þ.e.a.s. er frá rúmum 4000 krónum og upp í 16 þúsund krónur.

Hvetur fólk til að nýta sér flugið

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við Háskólann á Akureyri, sem er nýbúinn að bóka flug flug fyrir sig og konuna á 30 þúsund krónur báðar leiðir með Easy Jet með auka 15 kg tösku, skrifaði áskorun til Akureyringa í hópinn Akureyrarborg á Facebook, sem er vettvangur fyrir umræður og skoðanaskipti um Akureyri nútíðar og framtíðar, ímynd Akureyrar, fjölmiðlaumfjöllun sem tengist Akureyri og annað af því tagi. Akureyri.net fékk góðfúslegt leyfi hjá Jóni Þorvaldi til að vitna í orð hans á síðunni en þar en þar skorar hann á Akureyringa að nýta sér flugið.

Jón Þorvaldur segir m.a.: „Af hverju er mikilvægt að þið grípið þetta einstaka tækifæri? Flug Niceair var mesta lífsgæðaaukning sem Akureyringar og nærsveitamenn höfðu séð á öldinni. Flug Easy Jet kann að verða enn meiri lífsgæðaaukning ef það gengur vel. Ef Easy Jet flýgur hér inn tvisvar í viku allan veturinn þá er það stórkostleg lyftistöng fyrir vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. Það er nægur túrismi hér á sumrin, við þurfum í sjálfu sér ekki auka innspýtingu þar en við þurfum sárlega innspýtingu yfir veturinn. Við þurfum heilsársferðaþjónsutu, þá munu margir vilja reisa hér hótel og allt fer af stað. Á sama hátt er stórkostlegt að geta komist beint til útlanda. Haust og vor eru tímarnir sem maður á að nota þeim efnum en maður nýtur íslenska sumarsins hér heima á meðan það er. Þannig hugsa ég amk. En til þess að þetta flug geti fest sig í sessi þurfum við að gefa því fljúgandi start. Það gæti tekið tíma fyrir ferðaþjónustuna í Bretlandi að átta sig á þessum möguleika og á meðan þurfum við að halda eftirspurninni uppi enda fáum við hér ótrúlegt tækifæri til utanferða fyrir skít og kanil. Ef við gerum það ekki þá gæti snögglega verið tekin ákvörðun að hætta þessu flugi. Þannig eru lággjaldaflugfélög. Þannig að... koma svo!!!! Eða öllu heldur... fara svo... til London!“