Fara í efni
Tré vikunnar

Elri. Hjálplegt, gagnlegt og fallegt

TRÉ VIKUNNAR - 128

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Elri eða Alnus Mill. er fagurt tré í skógum og görðum landsmanna sem heldur grænum laufum sínum langt fram á haust. Elriættkvíslin er einnig ein af þeim ættkvíslum sem til greina koma til varanlegra landbóta á Íslandi. Þegar það er ræktað í skógum eða til landgræðslu bætir það jarðveginn fyrir annan gróður. Það tilheyrði flóru landsins stærstan hluta síðustu ísaldar en dó að lokum út og sást ekki aftur fyrr en menn fóru að planta því aftur í litlum í byrjun 20. aldar (Sigurður og Skúli Björn 1999).
 

Þessi ættkvísl hefur lengi verið kölluð elri en um tíma vildu menn breyta því í öl. Það kann að stafa af því að margir vilja gjarnan fara með öl í skógarreiti við sumarbústaði sína. Bæði heitin teljast jafnrétthá en elri er meira notað um þessar mundir.

 
Ungur og efnilegur ryðölur, A. rubra, sem gróðursettur var í Lystigarðinn árið 2015. Margir binda miklar vonir við þessa tegund eftir að hlýna tók á landinu. Mynd 27. maí 2025: Sig.A.
 
Ungur og efnilegur ryðölur, A. rubra, sem gróðursettur var í Lystigarðinn árið 2015. Margir binda miklar vonir við þessa tegund eftir að hlýna tók á landinu. Mynd 27. maí 2025: Sig.A.

Það sem gerir ættkvíslina eftirsóknarverða til landbóta og sem hjálparplöntu í skógrækt er að hún hefur tekið upp sambýli við gerla sem vinna nitur úr andrúmsloftinu og koma því í form sem plöntur geta nýtt sér til vaxtar. Því á allt elri það sameiginlegt að auðga jarðveginn og gera hann frjórri. Þetta er einnig ástæða þess að elri getur vaxið þar sem fáar aðrar trjátegundir ná ásættanlegum þroska. Það býr við þvílíka gnótt niturs að það hefur ekki fyrir því að draga það úr blöðunum á haustin til að geyma það til betri tíma. Því helst elri að jafnaði grænt langt fram á haust þar til frost skemma laufin eða þau falla græn af trjánum.

 
Lauf á hæruelri, Alnus hirsuta, í Lystigarðinum á Akureyri. Margar aðrar elritegundir hafa staðið sig betur á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Lauf á hæruelri, Alnus hirsuta, í Lystigarðinum á Akureyri. Margar aðrar elritegundir hafa staðið sig betur á Íslandi. Mynd: Sig.A.

Innan ættkvíslarinnar eru margar tegundir sem til greina koma í skógrækt, garðyrkju, landgræðslu og sem götutré á Íslandi. Margar tegundir hafa verið reyndar og sumar lofa mjög góðu. Að auki má finna nokkrar fágætar tegundir sem leynast hér og hvar um landið án þess að vera í almennri ræktun. Þess vegna er löngu tímabært að fjalla um þessa merku ættkvísl sem er af sömu ætt og fjalldrapinn og birkið okkar og líkist því fljótt á litið. Í þessum fyrsta pistli um ættkvíslina fjöllum við aðeins um nöfnin sem notuð hafa verið á hana. Við fjöllum líka um það sem gerir elriættkvíslina svona mikilvæga en það eru gerlarnir sem trén hafa tekið í sína þjónustu. Seinna munum við birta pistla um ættina og náttúrusögu hennar. Í þeim pistli verða einnig sagnir sem tengjast elrinu og umfjöllun um mismunandi erfðahópa innan ættkvíslarinnar. Í vinnslu eru nokkrir pistlar um helstu tegundir og tegundahópa. Þeir pistlar munu birtast í fyllingu tímans.

 
Eitt af einkennum allra elritegunda er að fræreklarnir tréna svo þeir minna á litla köngla sem hanga á trénu allan veturinn. Tæknilega séð eru þetta samt ekki könglar en þeir líta út eins og könglar og gegna sama hlutverki. Þess vegna köllum við þá köngla. Mynd: Sig.A.
 
Eitt af einkennum allra elritegunda er að fræreklarnir tréna svo þeir minna á litla köngla sem hanga á trénu allan veturinn. Tæknilega séð eru þetta samt ekki könglar en þeir líta út eins og könglar og gegna sama hlutverki. Þess vegna köllum við þá köngla. Mynd: Sig.A.

Fræðiheiti

Árið 1754 fékk elrið fræðiheitið sem enn er notað. Ættkvíslin heitir Alnus Mill. (1754). Oftast er látið duga að skrifa bara Alnus og upplýsingunum sem þar eru á eftir er sleppt. Ártalið í sviganum minnir okkur á hvenær ættkvíslin fékk nafnið og Mill. er skammstöfun fyrir Miller. Hann var enskur grasafræðingur að nafni Philip Miller (1691-1771) sem gaf ættkvíslinni nafn. Orðið fékk hann úr latínu þar sem heitið hafði lengi verið notað um ættkvíslina og einstök tré innan hennar (Árni 2017). Mikil uppstokkun hefur átt sér stað í notkun nafna innan ættkvíslarinnar og margar eldri heimildir eru orðnar úreltar hvað það varðar. Um það fjöllum við betur í næsta pistli.

 
Tveir runnar frá Alaska. Til vinstri er sitkaelri, sem eitt sinn hét Alnus sinuata, en til hægri er grænelri, sem áður hét Alnus crispa. Nú hafa tegundirnar verið sameinaðar í eina tegund og skipt upp í undirtegundir. Til vinstri er Alnus alnobetula ssp. sinuata, en til hægri er A. alnobetula ssp. fruticosa. Við teljum samt enga ástæðu til að breyta íslensku heitunum. Mynd: Sig.A.
Tveir runnar frá Alaska. Til vinstri er sitkaelri, sem eitt sinn hét Alnus sinuata, en til hægri er grænelri, sem áður hét Alnus crispa. Nú hafa tegundirnar verið sameinaðar í eina tegund og skipt upp í undirtegundir. Til vinstri er Alnus alnobetula ssp. sinuata, en til hægri er A. alnobetula ssp. fruticosa. Við teljum samt enga ástæðu til að breyta íslensku heitunum. Mynd: Sig.A.

Íslensk heiti

Á íslensku er algengast að þessi ættkvísl sé kölluð ölur eða elri. Seinna heitið er stundum skrifað sem elrir, en það orð þekkist í fornum, germönskum málum. Hér fyrir neðan má sjá hvernig það orð beygist.

 
Hér má sjá hvernig beygja skal karlkynsorðið elrir samkvæmt bestu manna yfirsýn. Orðið er sjaldgæfara í máli manna en ölur (kk) og elri (hk).
Hér má sjá hvernig beygja skal karlkynsorðið elrir samkvæmt bestu manna yfirsýn. Orðið er sjaldgæfara í máli manna en ölur (kk) og elri (hk).

Elri og ölur eru talin jafnrétthá en í íðorðabanka Árnastofnunar er ölur algengara, en elri og elrir notað sem samheiti. Sú var tíð að starfrækt var nefnd áhugamanna um íslensk háplöntuheiti. Hún komst að þeirri niðurstöðu að orðið ölur væri heppilegast. Aftur á móti hefur beyging orðsins vafist mjög fyrir mörgum og því er elri sennilega algengara heiti í dag meðal almennings.

Í fornu máli virðist sem ýmis tré hafi haft tvö heiti. Annað yfir ættkvísl eða tegund en hitt fyrir einstök tré innan tegundarinnar. Þetta er að mestu horfið úr málinu nema hvað leifar þess sjást hjá algengustu trjátegund landsins. Stór og stæðileg tré eru gjarnan nefndar bjarkir (björk í eintölu) en það heiti er aldrei notað sem heiti yfir tegundina. Hún kallast birki. Svipaða sögum má segja um birkikjarr. Heitið björk er ekki notað yfir það enda ekki auðvelt að sjá hvar eitt tré tekur við af öðru. Lík dæmi sjást stundum í þýðingum. Einstök tré af víðiættkvíslinni, Salix spp. eru gjarnan nefnd pílviðir en kjarrið er alltaf kallað víðir.

 
Runnakennt elri í brattri fjallshlíð í Alaska. Mynd: Tumi Traustason.
Runnakennt elri í brattri fjallshlíð í Alaska. Mynd: Tumi Traustason. 

Meira á vef Skógræktarfélagsins. 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Bergfuran við Aðalstræti 44

Sigurður Arnarson skrifar
20. ágúst 2025 | kl. 23:00

Bláminn á barrinu

Sigurður Arnarson skrifar
13. ágúst 2025 | kl. 09:00

Birkismugur

Brynja Hrafnkelsdóttir og Sigurður Arnarson skrifa
06. ágúst 2025 | kl. 10:30

Einkennisbarrtré suðurhvelsins

Sigurður Arnarson skrifar
30. júlí 2025 | kl. 09:00

Sýprus

Sigurður Arnarson skrifar
23. júlí 2025 | kl. 09:00

Trjávernd

Sigurður Arnarson skrifar
16. júlí 2025 | kl. 10:30