Fara í efni
Tré vikunnar

Blásitkagreni

TRÉ VIKUNNAR - 131

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Í nokkrum pistlum okkar um grenitegundir, sem ræktaðar eru á Íslandi, höfum við fjallað um tegundir sem ættaðar eru frá Ameríku. Margar þeirra eru svo skyldar hver annarri að þær geta auðveldlega myndað saman frjó afkvæmi. Ein af þeim tegundum sem við höfum fjallað um er blágreni, Picea engelmannii. Það er skylt bæði sitkagreni, P. sitchensis og hvítgreni, P. glauca. Í náttúrulegum heimkynnum skarast útbreiðsla blágrenis og hvítgrenis og þar flæðir erfðaefni á milli tegundanna án vandræða. Hvítgreni og sitkagreni vaxa líka saman og hafa blendingar þeirra lengi verið ræktaðir á Íslandi. Í Kanada eru þeir mjög vinsælir í ræktun.
 

Lengst af var talið að blágreni og sitkagreni gætu ekki myndað náttúrulega blendinga vegna þess að tegundirnar voru ekki taldar vaxa saman. Aftur á móti höfðu menn af öllum kynjum áttað sig á því fyrir löngu að tegundirnar gátu sem best myndað frjóa blendinga þar sem þær báðar voru ræktaðar saman. Í þessum pistli fjöllum við um þessa blendinga milli blágrenis og sitkagrenis. Annars vegar segjum við frá því að þeir hafi meðal annars orðið til á Íslandi. Hins vegar segjum við frá því að tiltölulega nýlega kom í ljós að við sérstök skilyrði geta blágreni og sitkagreni sem best vaxið svo nærri hvert öðru að erfðaefnið getur flætt á milli þeirra, rétt eins og hjá blágreni og hvítgreni.

Blendingur af annarri kynslóð blágrenis og sitkagrenis. Nánar verður fjallað um þessa blendinga hér aðeins neðar en þessi planta er í Ölfusdal innan við Hveragerði. Mynd: Úlfur Óskarsson.

Blendingur af annarri kynslóð blágrenis og sitkagrenis. Nánar verður fjallað um þessa blendinga hér aðeins neðar en þessi planta er í Ölfusdal innan við Hveragerði. Mynd: Úlfur Óskarsson.

 

Skyldleikinn

Lengi vel var vaninn sá að telja að í náttúrulegum heimkynnum sínum væri blágreni mjög skylt öðrum grenitrjám í vesturhluta Norður-Ameríku. Í fræðigrein um skyldleika grenitegunda eftir fimm kínverska vísindamenn sem birtist í tímaritinu New Phytologist árið 2019 (Feng o.fl. 2019) var þróunarfræðilegur skyldleiki 27 grenitegunda skoðaður út frá erfðafræði. Þar voru sumar hugmyndir manna um skyldleikann staðfestar. Þar segir meðal annars frá því að blágreni og hvítgreni séu náskyldar tegundir.. Næst í skyldleikaröðinni við blágrenið er sitkagreni. Þessi hópur grenitrjáa er talinn vera af sama meiði og evrópska rauðgrenið, P. abies og nokkrar asískar grenitegundir. Frá þessu greindum við í þessum pistli okkar um blágreni en okkur þykir rétt að rifja þetta upp.

Blágreni blandast auðveldlega við hvítgreni eins og áður segir enda eru tegundirnar náskyldar. Blendingurinn er svo algengur að hann hefur hlotið sérstakt fræðiheiti, P. x albertiana.

Færri vita að blágreni getur einnig blandast sitkagreni. Um það höfum við ágæt dæmi á Íslandi. Þessi blendingur á ekkert sérstakt fræðiheiti en skrá má það sem Picea sitchensis x engelmannii.

Blendingur blágrenis og sitkagrenis á Tumastöðum í Fljótshlíð. Mynd: Hrafn Óskarsson.
Blendingur blágrenis og sitkagrenis á Tumastöðum í Fljótshlíð. Mynd: Hrafn Óskarsson.

Blendingar á Íslandi

Þar sem blágreni og sitkagreni vaxa víða nálægt hvort öðru á Íslandi er ekkert undarlegt þótt tegundirnar hafi myndað blendinga. Það sem helst kemur í veg fyrir þá er sú staðreynd að blágreni myndar miklu sjaldnar kynhirlsur á Íslandi en sitkagreni. Til að blendingar verði til þurfa báðar tegundir að blómstra(ef nota má það orð um tegundir sem ekki mynda eiginleg blóm) á sama tíma. Sennilega er réttara, svona út frá grasafræðinni, að segja að tegundirnar þurfi að mynda karl- og kvenkynhirslur á sama tíma og frjó að berast þar á milli. Það getur vel gerst og ef vel er leitað má efalítið finna svona blendinga í íslenskum skógum. Víkur nú sögunni til Suðurlands.

Á Tumastöðum í Fljótshlíð er frægur skógarreitur. Þar hafði Skógrækt ríkisins, sem seinna varð Skógræktin, starfsaðstöðu á Suðurlandi. Eftir að Landgræðslan og Skógræktin sameinuðust heitir þessi stofnun Land og skógur. Við Skógarvarðarbústaðinn á Tumastöðum stendur voldugt blágreni. Fyrir um aldarfjórðungi tóku starfsmenn á Tumastöðum eftir nokkrum könglum á trénu. Þótt blágreni sé almennt talið frjósamt tré í Ameríku myndar það ekki köngla árlega á Íslandi. Því þótti þetta góður fengur. Könglunum var safnað og fræinu úr þeim var sáð. Upp uxu álitlegar plöntur. Plönturnar voru ræktaðar í 40 hólfa bökkum og voru tvö ár liðin frá sáningu þegar Hafn Óskarsson plantaði þeim nálægt síðustu aldamótum. Gróðursett var á besta stað í gamalt tún sem gert hafði verið eftir að Kollabæjarmýrin var ræst fram á sínum tíma. Grasinu þurfti að halda niðri með sérstökum ráðum framan af æfi trjánna svo þau kæmust á legg. Þessum trjám var plantað á nokkuð stóru svæði á hægri hönd þegar ekið er í átt að gróðrarstöðinni frá þjóðveginum og komið er inn fyrir hliðið á Tumastöðum. Fljótlega kom í ljós að þessi tré höfðu einkenni þess að vera blendingar blágrenis og sitkagrenis. Trén hafa vaxið afar vel og eru nú hin stæðilegustu. Nokkrum sinnum hafa árssprotar mælst yfir 1m á lengd og hæstu trén eru komin yfir 15 metra hæð. Því miður hefur greniryðsveppur verið áberandi í trjánum síðastliðin fjögur ár, rétt eins og í öðru blágreni sums staðar á Suðurlandi (Aðalsteinn 2025 og Hrafn 2025).

Drónamynd frá 4. febrúar 2025 af blendingi blágrenis og sitkagrenis á Tumastöðum í Fljótshlíð. Hæstu trén eru yfir 15 m á hæð. Mynd og upplýsingar: Hrafn Óskarsson.
Drónamynd frá 4. febrúar 2025 af blendingi blágrenis og sitkagrenis á Tumastöðum í Fljótshlíð. Hæstu trén eru yfir 15 m á hæð. Mynd og upplýsingar: Hrafn Óskarsson.

Meira á vef Skógræktarfélagsins. 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Svartþröstur

Sigurður Arnarson skrifar
10. september 2025 | kl. 09:15

Arnold Arboretum

Sigurður Arnarson skrifar
03. september 2025 | kl. 09:00

Elri. Hjálplegt, gagnlegt og fallegt

Sigurður Arnarson skrifar
27. ágúst 2025 | kl. 08:00

Bergfuran við Aðalstræti 44

Sigurður Arnarson skrifar
20. ágúst 2025 | kl. 23:00

Bláminn á barrinu

Sigurður Arnarson skrifar
13. ágúst 2025 | kl. 09:00

Birkismugur

Brynja Hrafnkelsdóttir og Sigurður Arnarson skrifa
06. ágúst 2025 | kl. 10:30