Blágreni

TRÉ VIKUNNAR - 111
Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _
Í eina tólf áratugi hefur blágreni, Picea engelmannii Parry ex Engelm., verið ræktað á Íslandi. Það hentar vel í blandaða útivistarskóga, getur verið ljómandi gott jólatré og sómir sér einstaklega vel í stórum görðum. Það vex fremur hægt en er þétt og fallegt. Flutt hafa verið inn fjölmörg kvæmi og er töluverður munur á sumum þeirra hvað vöxt, þrif og barrlit áhrærir. Tréð er mun minna ræktað til viðarframleiðslu en stórvaxnari grenitegundir en þó þekkjast þess dæmi, enda myndar það þéttan og góðan við.

Það sem helst einkennir blágreni eru hinir bláu tónar á barrinu. Mest eru þeir áberandi á ungum sprotum þegar vöxtur er í fullum gangi fyrri part sumars. Svo dregur úr honum en hann er þó til staðar yfir allt árið á sumum kvæmum en er miklu minna áberandi á vetrum. Blái liturinn stafar af vaxhúð sem myndast á nýjum sprotum þegar þeir eru hvað viðkvæmastir. Smám saman veðrast hún af trénu og því eru eldri nálar mun grænni en ungar nálar. Það er eðli blágrenis, eins og annarra grenitrjáa, að vaxa upp sem einstofna, beinvaxin tré. Krónan á blágreni er að jafnaði fremur mjó og keilulaga (Pétur 2003) en á því eru undantekningar.
Við skiptum frekari lýsingu í nokkra kafla.

Hæð
Blágreni telst ekki meðal stórvöxnustu grenitegunda en getur orðið stórt engu að síður. Það myndar tré sem getur orðið nálægt 50 m á hæð í heimkynnum sínum, en við og ofan skógarmarka myndar það lágvaxna runna. Hæsta mælda tré er 47,6 m hátt ef marka má Eckenwalder (2009) en aðrar heimildir segja frá því að á bestu stöðum geti trén náð allt að 60 m hæð. Sá sem þetta ritar dregur það í efa. Miklu líklegra er að Eckenwalder, sem gárungarnir nefna herra Eikarskóg, hafi rétt fyrir sér en auðvitað getur verið að til séu hærri tré en þau sem mæld hafa verið.
Blágreni er stórvaxnasta fjallatréð í Norður-Ameríku segir Sigurður Blöndal í grein frá árinu 2006. Vissulega eru til hærri tré í Norður-Ameríku en þau vaxa nær ströndinni þar sem úrkoma er meiri. Algeng yfirhæð, samkvæmt Sigurði (2006) er 14-40 m. Það er í samræmi við flestar aðrar heimildir. Rétt er að nefna að yfirhæð er hæð ríkjandi trjáa. Hún á að tákna meðalhæð 100 sverustu trjánna (mælt í brjósthæð) á hverjum hektara lands en oftast er látið duga að mæla hæðina á sverasta trénu á 100 m2 mælifleti. Hér á landi má búast við að blágreni geti náð um 25 metra hæð, samkvæmt vef Skógræktarinnar, sem nú er hluti af nýrri stofnun sem ber heitið Land og skógur. Sama segir Pétur Halldórsson (2003) í vandaðri grein á netinu. Nú þegar hafa að minnsta kosti tvö tré á Hallormsstað náð þeirri hæð en að vísu brotnaði ofan af öðru þeirra svo nú vitum við bara um eitt tré sem er 25 metra hátt á Íslandi. Við segjum nánar frá því í næsta blágrenipistli okkar, en hæsta, þekkta blágrenið er núna 25,4 m á hæð. Mælinguna gerði Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, þann 9. janúar 2025 (Þór 2025).

Meira á vef Skógræktarfélagsins.
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Smellið hér til að sjá allan pistilinn


Snípur í skógi

Eplabóndi í aldarfjórðung

Nokkur grunnhugtök um vatn í jarðvegsauðlindinni

Hirðingjareynir
