Fara í efni
Stefán Þór Sæmundsson

Ofvirkir unglingar að æpa á róandi?

„Þetta var hneyksli, reginhneyksli í sögu keppninnar og blaut tuska framan í unnendur tónlistar að þessi fyrirbæri skyldu komast áfram. Hér eru einhverjir sveimandi geitungar, ofvirkir unglingar sem æpa á róandi lyf og gera mann gjörsamlega taugaveiklaðan með þessum látum og æðibunugangi. Þetta er ekki einu sinni lag, bara einhver gervigreindartaktur og tölvuraddir enda hljómar þetta alltaf eins í þau 400 skipti sem búið er að blasta þessum ósköpum í útvarpi og sjónvarpi. Ég ráðlegg Íslendingum að slökkva á sjónvarpinu á laugardagskvöldið til að þurfa ekki að upplifa hneisu og endanlega glata geðheilsunni,“ sagði Aðalsteinn vinur minn Öfgar þungur á brún.

Við sátum úti á palli heima og drukkum sítrónuvatn í 23ja stiga hita. Ég skildi ekki hvernig það væri mögulegt að æsa sig í svona veðri.

„Jahérna, mér finnst þú býsna dómharður,“ sagði ég. „Mér kemur líka á óvart að þú skulir yfirhöfuð fylgjast með söngvakeppninni og tjá þig um hana.“

Aðalsteinn sötraði vatnið súr á svip enda hafði ég útskýrt að ég ætti engan vodka til að styrkja drykkinn og að það þyrfti ekki alltaf að vera vín, jafnvel þótt veðrið væri svona gott.

„Ég horfi aldrei á júróvisjón!“ hreytti hann út úr sér. „Ég man þegar Íslendingar voru fyrirfram búnir að vinna keppnina með Gleðibankanum, þá vissi ég betur og fór í góða kvöldgöngu og á heilum klukkutíma sá ég ekki eina einustu mannveru á ferli. Hugsaðu þér bara. Og svona hefur þetta gengið allar götur síðan, við höfum alltaf verið á barmi sigursins hvort sem við höfum boðið upp á minn hinsta dans, lostafullan gamlan mána eða engilinn Birtu.“

„Nú, mér heyrist þú vera ágætlega inni í þessu,“ skaut ég inn í.

Öfgar dæsti. „Því miður kemst ég ekki hjá því. Ég horfi á sjónvarp og hlusta á útvarp, manni er velt upp úr þessari keppni mánuðum saman á hverju ári og þótt ég horfi ekki á útsendingu frá keppninni síast alltaf einhver grautur inn. Nú er það þessi: „Róandi hér, róandi þar, róandi svo til alls staðar. Sí og æ, æ og sí, aldrei fæ ég nóg af því.“ En ég er búinn að fá nóg! Og þetta eru organdi krakkar sem hristast og skakast, örugglega búnir að fara á nammibarinn og uppfullir af sykri og ekki nema von að þeir biðji um að fá eitthvað róandi,“ sagði Alli og var langt frá því búinn að hella úr skálum reiði sinnar en velsæmisins vegna ætla ég ekki að birta allt sem hann sagði.

„Eigum við ekki að róa okkur aðeins,“ sagði ég. „Þú ert farinn að láta eins og þessir virku í athugasemdakerfunum. Ertu nokkuð einn af þeim?“ spurði ég sposkur.

Alli opnaði munninn en lokaði honum aftur og hristi höfuðið. „Þetta er ekki nöldur og neikvæðni, þú veist vel að ég unni góðri tónlist og myndi glaður styðja Stebba Jak eða Eyþór Inga með gott þungarokk í þessari keppni. En að við Íslendingar skulum bjóða upp á tölvugerða barnaskemmtun í alþjóðlegri söngvakeppni er fyrir neðan allar hellur. Þetta verður örugglega hrikaleg niðurlæging í úrslitunum.“

„En framlag okkar komst í úrslit og getur þá ekki allt gerst?“ spurði ég.

Aðalsteinn Öfgar fölnaði. „Úff, þú meinar. Hvað gerist ef við... vinnum?“

Jamm, stórt er spurt – en þessi spurning hefur brunnið á vörum þjóðarinnar allt frá dögum Gleðibankans og við bíðum enn eftir svari.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og rithöfundur

Njósnir í skólastofunni

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
03. maí 2025 | kl. 07:45

Bjóðum þjófa og slordóna velkomna

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
26. apríl 2025 | kl. 06:00

Hrossafóður í morgunmat

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. apríl 2025 | kl. 06:00

Skelfilegur er skorturinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. apríl 2025 | kl. 06:00

Hörmungar á hundavaði

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. apríl 2025 | kl. 06:00

Erum við kjánar?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
29. mars 2025 | kl. 06:00