Fara í efni
Stefán Þór Sæmundsson

Lausnin 4/7

Hér er miðkaflinn, þrír hlutar að baki og þrír eftir. Nú getur brugðið til beggja vona. Ljóðmælandinn er orðinn tvístígandi. Hann er farinn að vísa í óminni og sektarkennd sem fylgir gjarnan mikilli drykkju. Hann vísar í speki Hávamála um óminnishegrann, gleymskufuglinn, sem rænir þá vitinu sem sitja of lengi að sumbli. Merkilegt hvernig þetta var ort inn í anda víkingaaldar fyrir meira en þúsund árum. Þessi óþekkti og framsýni höfundur Hávamála hefur varla slegið í gegn með slíkan boðskap í hófi þar sem mjöðurinn var kneyfaður ótæpilega.

Segja má að ljóðmælandinn reyni að halda í þá mynd að oft hafi verið kátt á hjalla og mikil keyrsla en stundum hafi hann farið yfir strikið og endað í blakkáti. Daginn eftir slíkt kviknar oft nagandi sektarkennd yfir einhverju sem gerðist eða einfaldlega yfir því að muna ekki hvort eitthvað óþægilegt henti.

Það vildi henda að villtist ég af braut,
vaknaði seint við gleymskufulla drauma.
Þá reyndist erfitt sálartetrið að sauma
og sektarkenndin þung í myrkri flaut.

Hvað gerðist þá er gáta býsna stór.
Gleymskufuglinn sogaði úr mér vitið.
Stundum verður ekki aftur litið
því eilífðarmyrkið bæði kom og fór.

Þeir sem ekki þekkja svona hark
og þykjast gjarnan vita öðrum betur,
ættu að muna að breytt ei gjörla getur
gangi djöfla sem fundið hafa mark.

Ég kvarta ekki því kátt var oft í lund
og keyrslan brjáluð út í ystu myrkur.
Er allt var búið, staðfesta og styrkur,
var stundum ráð að fá sér góðan blund.

Í svefni getur sektin varla meitt,
og syndum rúinn er þá tómur hugur.
Einskis var í dvala liggur dugur,
sem dáinn væri og ekki fær um neitt.

Í óminni er afar þakklát fró
og alsæla í hugans mikla tómi.
Þó ber við að endurminning ómi
þá enga færðu í beinum þínum ró.

En ástin, hún er allra meina bót
og yfirstígur mannsins fúnu bresti,
þótt strembið sé að lifa með þá lesti
sem lengi hafa nagað sálar rót.

Kannski bjargar það geðheilsu alkóhólistans fyrir horn um sinn að blakkátið skuli vernda sálu hans gagnvart óþyrmilegum minningum. Óminnið eða áfengisdauðinn veitir stundargrið en leiftur af leiðinlegum uppákomum ná stundum í gegn og bíta fast. Í örvæntingu reynir ljóðmælandinn hér að hengja sig á ástina, að hún sé allra meina bót og yfirstígi bresti hans. Eins og áður hefur komið fram er það því miður sjaldnast svo.

Stefán Þór Sæmundsson er framhaldsskólakennari og rithöfundur.

Lausnin 5/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
09. janúar 2026 | kl. 06:00

Lausnin 3/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. janúar 2026 | kl. 09:00

Lausnin 2/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
06. janúar 2026 | kl. 09:00

Lausnin 1/7

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
05. janúar 2026 | kl. 09:00

Við nennum ekki þessu uppeldi

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
11. október 2025 | kl. 06:00

Þegar maður flýgur of hátt

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
04. október 2025 | kl. 06:00