Fara í efni
Orri Páll

Þegar Þorpið kom suður

ORRABLÓT - 49

„Velkominn í Þorpið,“ syngja þeir einum rómi, þegar ég kem mér fyrir beint fyrir aftan þá á Þróttarvellinum í Laugardalnum. Magnaðir þessir Mjölnismenn; lagvissir, lífsglaðir og Þórsarar inn að beini. Týpurnar sem deyja fyrir klúbbinn. Og kann ég þeim alúðarþakkir fyrir að taka mitt gamla hverfi með sér suður yfir heiðar. Hverfið sem ég ólst upp í, mótaði mig og gerði mig þeim manni sem ég er í dag. Svo við gerumst nú bara svolítið dramatísk. Þetta er þannig staður, þannig stund.

„Heyrðu, lagsi minn. Við erum bara hérna með unga fólkinu,“ segi ég við minn gamla vin og vopnabróður, Arnald Skúla Baldursson, sem tekið hefur frá fyrir mig sæti. Sæti og ekki sæti, við komum auðvitað ekki til með að setjast eitt augnablik meðan á leiknum stendur. Til þess er spennan alltof mikil og Mjölnismenn alltof hressir. Áður en Skúli nær að svara rennur hins vegar upp fyrir mér ljós; hann hefur alla tíð verið alveg ofboðslega unglegur, að ég tali nú ekki um lagviss og því fullkomlega lógískt að honum hafi verið vísað til sætis þarna með Mjölnismönnunum.

„Það heyrist ekki ...“

Til að undirstrika þetta er kappinn undir jakkanum í Þórstreyjunni sem við fengum að gjöf þegar við gengum upp úr 2. flokki haustið 1990. Hann passar sumsé enn í sömu fötin og fyrir 35 árum! Ég á líka mína treyju ennþá, númer 14, en það hvarflar ekki að mér að reyna að troða mér í hana.

Þó það yrði ábyggilega sjón að sjá.

Með í för er okkar gamli vinur Magnús Ingi Magnússon og félagi hans, Bergsteinn Eyfjörð Gunnarsson, nágranni okkar Massa á Kjalarnesi, eldheitir Þórsarar, báðir tveir. Þegar ég hugsa um það þá man ég ekki eftir að hafa hitt Kjalnesing sem heldur með KA. Frægasti sonur Akureyrar til að búa á Kjalarnesi var séra Matthías Jochumsson, sem bjó um tíma í Móum. Hann hefur pottþétt verið Þórsari enda ekki búið að stofna KA þegar hann féll frá, 1920.

Sigfús Fannar Gunnarsson skorar fyrra mark Þórs og fagnar (37) með Mjölnismönnum.

En jæja, ég hrekk upp úr þessum vangaveltum þegar Mjölnismenn byrja skyndilega að kyrja: „Það heyrist ekki rassgat! Það heyrist ekki rassgat!“ Beina þeir orðum sínum að áhangendum heimaliðsins, Kötturunum, sem ég var búinn að steingleyma að væru líka staddir í „Þorpinu“.

Við félagar söknum okkar gamla vinar Hjalta S. Hjaltasonar á pöllunum. Ég reyndi að fá kappann með en hann harðneitaði. Kvaðst vera óheillakráka og vildi ekki „jinxa þetta“. Það kallar maður að fórna sér fyrir klúbbinn.

Stuð er í stúkunni og ekki dregur úr gleðinni þegar Sigfús Fannar Gunnarsson kemur okkur yfir. Eins og það hafi átt að koma á óvart. Ég meina, Fúsi skorar alltaf mörk, alltaf mörk, eins og segir í kvæðinu. Einhver eldhress náungi fyrir aftan okkur missir gjörsamlega stjórn á sér og skvettir úr fullu bjórglasi yfir okkur Skúla og (hin) ungmenninn í námunda við okkur. Okkur bregður aðeins en alsælan bægir öllum ljótum hugsunum frá. Við bara hristum okkur og höldum áfram að fagna og syngja. Öfugt við Mælsku-Pétur á Ráðhústorginu forðum tíð, þegar hann hlaut þessi sömu örlög. Allt um það.

1:0 í leikhléi og útlitið gott. Ég rekst á Einar Björnsson lækni og hann varar mig við að fagna of snemma, auk þess sem hann spjaldar mig fyrir dræma ástundun að undanförnu. Ég tek það á kassann, enda hárrétt hjá lækninum. Ég hef alls ekki verið nægilega duglegur að mæta á Þórsleiki síðustu árin, þó ég fylgist alltaf grannt með úrslitum.

Einar Björnsson læknir og Ragnheiður Valdimarsdóttir, annar grjótharður Þórsari sem lengi hefur búið suðvesturhorninu.

Eins og það er nú gaman. Við félagarnir vorum þræliðnir við þetta árum saman. Þá er ég aðallega að tala um þá menn sem nefndir voru hér að framan, auk þess sem Daníel Snorri Jónsson var oftast með okkur. Hálfbróðir Ármanns Péturs Ævarssonar, sem áratugum saman, leyfi ég mér að segja, lék með Þór. Við sáum ekki bara leiki á höfuðborgarsvæðinu, heldur hentum okkur annað veifið í „road trip“ líka. Það frægasta og eftirminnilegasta til Ólafsvíkur, þar sem sjálfur sóknarpresturinn á staðnum, séra Óskar Ingi Ingason, tók á móti okkur. Höfðum við trakteringar áður en haldið var á völlinn. Brauð með sultu og sitthvað fleira hnossgæti.

Taugarnar eru áfram þandar í seinni hálfleik, enda þótt Þórsarar hafi góð tök á leiknum. Svo skora þeir aftur en helvítis línuvörðurinn gerist boðflenna í veislunni og flaggar rangstöðu. Mjölnismenn veina á innsoginu, eins og verið sé að slíta af þeim táneglurnar. Eina af annarri.

„Við elskum allir Orra ... Enda sonur Sigga Magg!“

Þeir ná þó fljótt vopnum sínum á ný og nú syngja þeir hástöfum: „Við elskum allir Orra, við elskum allir Orra!“ Ég gerist að vonum auðmjúkur og upp með mér, alveg þangað til að þeir bæta við: „Enda sonur Sigga Magg!“

Nú, hvur röndóttur, ég er ekki sonur Sigga Magg. Þekki hann ekki einu sinni. Bróðir hans er mér á hinn bóginn kunnur, Guðbrandur Magg, framkvæmdastjóri Landsprents og vinnufélagi minn hjá Árvakri. Fínn gaur. Þeir liggja víða þræðirnir í þessu lífi.

Annað markið er þó ekki nema rétt handan við hornið. Það gerir Ingimar Arnar Kristjánsson á 71. mínútu. Allt sturlast í stúkunni og mér líður eins og að ég sé kominn í pyttinn á Slayer-tónleikum. Sú tilfinning er engu lík. Og nú safna ég loks kjarki til að koma skilaboðum áleiðis til pabba gamla heima í leisíbojnum. 2:0 og 20 mínútur eftir. „Pabbi þinn er ánægður,“ svarar mamma um hæl. Gamli hefur aldrei komist upp á lagið með sms-tæknina. Mér er létt, enda verð ég án efa strikaður út úr erfðaskránni komi ég ekki heim með þrjú stig.

Ingimar Arnar Kristjánson, fyrir miðri mynd, hleypur í átt að stuðningsmönnum Þórs eftir að hann gerði seinna mark í leiknum gegn Þróttir. Hinir Þórsararnir eru Christian „Greko“ Jakobsen og Ibrahima Balde.

Ég komst ekki á Selfoss-leikinn tveimur vikum áður en Massi og Beggi skelltu sér. Pabbi var áhyggjufullur en ég fullvissaði hann um að allt væri „under control“, Massi sem hann kenndi í gamla daga og hefur mikið dálæti á væri á staðnum. Það var því erfitt símtal, að tilkynna pabba að allt hefði farið úrskeiðis á Selfossi undir lokin og Þór ekki bara tapað leiknum, heldur einnig toppsætinu. „Hvern andskotann er hann Magnús að þvælast þarna og trufla þá?!!“ drundi í honum. Símtalið varð ekki lengra.

Ég hef ekki þorað að segja Massa frá þessu og bið ykkur um að vera ekkert að því heldur. Þó það ætti svo sem að vera óhætt núna, úr því að svona vel spilaðist úr tveimur síðustu umferðunum.

Já, Þórsarar unnu Þrótt, 2:1. Eins og að segja þurfi ykkur það. Sárabótarmark heimamanna kom í uppbótartíma – sem var helvíti óþægilegt, svo ég segi það bara eins og er. En Þórsarar héngu vel á boltanum síðustu andartök leiksins og út braust ósvikinn fögnuður. Enda dásamleg tilfinning að fara upp.

Hin hliðin á peningnum, sumsé að falla, er alltaf þungbær og síðast þegar Þór féll úr efstu deild kostaði það mig, fyrir utan tilfinningalegan löðrung, heilan bjórkassa.

Forsaga málsins er sú að ég var að spila á Fjölmiðlamótinu í knattspyrnu og þar fór Hjörvar Hafliðason, Dr. Football sjálfur, að rýna í Íslandsmótið sumarið eftir og fullyrti í vitna viðurvist að Þór ætti enga möguleika á því að halda sæti sínu í efstu deild. Enga!

Ég heyrði þessa hrakspá ekki sjálfur en það gerði Pétur Blöndal vinur minn, harður KA-maður, og hnippti í mig. „Ætlarðu ekki að svara þessu? Þú getur ekki látið manninn komast upp með þetta!“

Ég lét ekki segja mér það tvisvar. Stillti mér sperrtur upp fyrir framan Hjörvar og mælti: „Heyrðu, doksi minn. Hvaða bull er þetta í þér? Það er útilokað mál að Þór falli úr efstu deild næsta sumar!“

„Nú, jæja,“ svaraði Hjörvar og mældi mig út með augunum. Þið þekkið það augnaráð! „Ertu tilbúinn að leggja bjórkassa undir?“

Ha? svaraði ég. Bjóst ekki alveg við að þetta myndi ganga svo langt. Var satt best að segja ekki með neitt leikplan.

Já, að sjálfsögðu!

Hvað átti ég svo sem að segja? Frammi fyrir heilum hópi blaða- og fréttamanna – sem biðu óþreyjufullir eftir svarinu.

Veðmálið var handsalað.

Um vorið fór Íslandsmótið af stað og Þórsarar stóðu sig bara ljómandi vel framan af. Gott ef þeir voru ekki í efri hlutanum eftir fyrri umferðina. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar og hlakkaði mikið til að kneyfa ölið frá doktornum.

Síðan seig smám saman á ógæfuhliðna og allt fór í skrúfuna í lokaumferðunum með þeim afleiðingum að Þórsarar féllu á lokadegi mótsins.

Þau voru þung, skrefin út í Vínbúð á mánudeginum, en nauðsynleg. Hjörvar tók svo sposkur á svip við kassanum á skrifstofu Íslenskrar getspár í Laugardalnum, þar sem hann starfaði á þeim tíma.

Síðan er liðinn rúmur áratugur; þetta var haustið 2014. Upp er sprottin heil kynslóð aðdáenda sem aldrei hefur séð Þórsliðið spila meðal þeirra bestu. Af sem áður var. Þegar ég var að vaxa úr grasi var eins sjálfsagt að Þór léki í efstu deild og að nótt tæki við af degi. Vonandi kemst liðið aftur á þá braut.

Þetta er hörkulið sem við búum að núna; það hefur það sýnt í sumar, sérstaklega á endasprettinum. Skemmtileg blanda af uppöldum leikmönnum og aðkomumönnum. Ekki var á fagnaðarlátunum í Laugardalnum að sjá að þeir síðarnefndu væru eitthvað minni Þórsarar en hinir. Það er góðs viti. En auðvitað þarf að styrkja liðið fyrir komandi átök í Bestu deildinni.

Já, Aron minn Einar, þetta er ekkert val, skyldan kallar!

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Stirðastur í mannkynssögunni?

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. október 2025 | kl. 15:30

Stál og hnífur stöðvuðu svefninn

Orri Páll Ormarsson skrifar
05. september 2025 | kl. 11:30

Og Ian Rush verður að skora!

Orri Páll Ormarsson skrifar
22. ágúst 2025 | kl. 09:00

Þegar ég var hugguleg stúlka

Orri Páll Ormarsson skrifar
08. ágúst 2025 | kl. 22:00

Reikningur vegna látins manns

Orri Páll Ormarsson skrifar
25. júlí 2025 | kl. 09:00

Pabbi minn, hvers vegna keyptirðu leigubíl?

Orri Páll Ormarsson skrifar
11. júlí 2025 | kl. 13:00