Fara í efni
Orri Páll

Niðurlægðir af reykingamönnum

ORRABLÓT - XXIV

„Hvað er eiginlega í hafragrautnum þarna í Garðabænum?“ spurðum við okkur, 16 dauðlegir drengir að norðan, meðan við mændum upp eftir tröllunum sem við stóðum andspænis. Samkvæmt kirkjubókum áttu þessir menn að vera 15 og 16 ára en litu miklu frekar út fyrir að vera þrítugir, jafnvel fertugir.

Sumarið var 1986 og framundan fyrsti leikur 3. flokks Þórs á alþjóðlegu knattspyrnumóti fyrir sunnan, Iceland Cup, sem ég held alveg ábyggilega að hafi verið móðir Rey Cup sem síðar festi sig í sessi. Andstæðingurinn var Stjarnan og við erum að tala um menn á borð við Bjarna Benediktsson, nú forsætisráðherra, Sigurð Bjarnason, síðar landsliðsmann í handbolta, Valdimar Kristófersson, sem um árabil lék með Stjörnunni og fleiri liðum í efstu deild og Jörund Áka Sveinsson, sparkfrömuð hjá KSÍ. Allir losuðu þeir einn og níutíu og nudduðu sér sumir hverjir utan í tvo metrana. Og það var ekki bara hæðin, heldur voru kapparnir hver öðrum herðabreiðari. En kannski var það bara búningurinn? Á þessum árum fór ekki nokkur maður úr húsi nema að vera búinn herðapúðum.

Lárus Loftsson landsliðsþjálfari, Árni Þór Árnason, sprettharðasti Þórsarinn, Kjartan Guðmundsson markvörður og Stjörnumaðurinn ungi Bjarni Benediktsson. Valsvöllurinn að Hlíðarenda var búinn til úr lifandi grasi þegar drengirnir í 3. flokki Þórs hrifust mjög af Öskjuhlíðinni sem þarna má sjá í fjarska.

Börkur Gunnarsson, síðar rithöfundur, kvikmyndagerðarmaður og majór, var þarna líka en hann hafði greinilega fengið aðeins minna af hafragrautnum.

Leikið var á Valsgrasinu á Hlíðarenda og Stjarnan þjarmaði strax duglega að okkur og útlit fyrir langt síðdegi. Snemma sluppum við þó í skyndisókn og komumst yfir. Ég man ekki betur en að Árni Þór Árnason hafi gert markið. Hann var alltént okkar sprettharðastur og marksæknastur. Eftir það var pakkað í vörn og þá sjaldan við komumst í tæri við tuðruna var henni lúðrað beinustu leið upp í Öskjuhlíð. Sigurður Örn Ágústsson vinur minn og flugrekstrarfrömuður, Siggi Geit, gæfi ekki mikið fyrir þá gerð knattspyrnu. Jesús, María og Jósep! En okkur gat ekki staðið meira á sama, ekkert frekar en Davíð forðum þegar hann atti kappi við Golíat. Menn þurfa, eins og þið þekkið, að sníða sér stakk eftir vexti.

Á engum mæddi meira en markverði okkar, Kjartani Guðmundssyni, Kettinum sjálfum, sem fullyrða má að hafi þarna átt leik lífs síns. Gott ef honum var ekki kippt beint inn í drengjalandsliðið, Lárus Loftsson landsliðseinvaldur var þarna á sveimi. Langt síðan ég hef hitt Katta, dásamlegt eintak af manni.

Hluti frönsku drengjanna sem tók þátt í Iceland Cup sumarið 1986, en ekkert skal fullyrt um hvort það eru reykingamennirnir. Myndin birtist í DV með umfjöllun um mótið.

Og já, við héldum út og fórum með sigur af hólmi, 1:0. Gríðarlegt afrek enda Stjörnuliðið firnasterkt og hampaði Íslandsmeistaratitlinum í þessum aldursflokki síðar um sumarið. Þeirri staðreynd verð ég aldrei látinn gleyma en téður Börkur Gunnarsson minnir mig reglulega á þetta á æfingum hjá Knattspyrnufélagi Magnúsar Finnssonar, sem starfrækt hefur verið á Morgunblaðinu frá árinu 1976. Nú síðast fyrr í þessari viku. Börkur kveðst enn eiga markmannshanskana sem hann klæddist á Íslandsmótinu.

Ætli fengist eitthvað fyrir þá á eBay?

Næsti leikur okkar Þórsara á Iceland Cup var ekki síður strembinn. Mótherjar okkar, franska liðið Palaiseau, voru að vísu ekki eins tröllvaxnir og Garðbæingarnir en þeim mun kvikari og teknískari. Þetta var eins og að elta vofur og þungt var yfir Aðalsteini Sigurgeirssyni þjálfara í leikhléi. Ég man ekki fyrir mitt litla líf hversu mörgum mörkum við vorum undir. Steini beindi orðum sínum sérstaklega að Eiríki Árna Oddssyni vini mínum sem var í stöðu vinstri-bakvarðar. „Hvernig er það, ætlarðu að láta þennan útherja fara svona illa með þig í allan dag?“

Aumingja Eiki andvarpaði eins og honum einum var lagið og mælti svo: „Hvað á ég eiginlega að gera? Maðurinn er einhentur!“

Það var hverju orði sannara, það vantaði alveg annan handlegginn á franska útherjann. Samt dansaði hann eins og Patrick Swayze í kringum Eika – sem fékk ekki rönd við reist.

Nú eru glöggir lesendur þegar búnir að átta sig á því að þetta er ekki einsdæmi í sparksögu Íslands en Jóhannes Tryggvason, Dengsi, sem einnig var einhentur, lék um árabil með Víkingi, mest á áttunda áratugnum. Ég varð aldrei svo frægur að sjá Dengsa spila en vinir mínir á Morgunblaðinu, Sigtryggur Sigtryggsson og Steinþór Guðbjartsson og Ágúst Ingi Jónsson og Sigmundur Ó. Steinarsson, sem unnu þar lengi, hafa verið duglegir að segja mér sögur af honum.

Víkingurinn Jóhannes Tryggvason, Dengsi, í leiknum þegar hið fádæma atvik átti sér stað árið 1972, þegar víti var dæmt „á hönd, sem engin var til,“ eins og sagði í fyrirsögn eins blaðanna eftir leikinn.

Frægust er sagan af því þegar dæmd var hendi og í framhaldinu víti á Dengsa í úrslitaleik Víkings og Fram á Reykjavíkurmótinu 1972. Boltinn fór þá í síðuna á honum þar sem engin var höndin. Okkar maður reyndi að vonum að hreyfa andmælum. Þá á dómarinn að hafa sagt: „Gildir einu, Dengsi minn. Hefðirðu verið með hendi þá hefði boltinn farið í hana!“

Þar við sat og dómurinn stóð.

Helgi Númason, sem gerði helming marka Íslands í 14:2-leiknum fræga í Kaupmannahöfn, fór á punktinn og skoraði, 1:0. Urðu það lyktir leiksins.

En aftur að Palaiseau. Eins og þið eruð ábyggilega búin að geta ykkur til um þá steinlágum við Þórsarar gegn þeim ágætu piltum. Seinni hálfleikurinn var litlu skárri en sá fyrri.

Frakkarnir voru drenglyndið uppmálað og reyndu að hughreysta okkur á eftir, eins og hægt var vegna tungumálaörðugleika. Okkur krossbrá hins vegar þegar sumir þeirra drógu sígarettur úr pússi sínu og báðu okkur um eld. „Feu? Feu?“

Þar gátum við ekki hjálpað þeim enda höfðu Þorgrímar Þráinssynir þess tíma löngu komist inn í kvörnina á okkur; það reykti ekki nokkur maður í Glerárskóla, nema Stjáni smókur og Göndli. Fínir gaurar en engum hefði dottið í hug að stilla þeim upp í kappleik.

En þeir reyktu þá eins og strompar, mennirnir sem höfðu niðurlægt okkur á vellinum. Það gerði skellinn auðvitað ennþá stærri.

Því skal hér til haga haldið að ég sá aldrei þann einhenta með rettu.

Annars voru Frakkarnir bara fínir og við horfðum á úrslitaleik HM í Mexíkó með þeim í skólanum sem við gistum í, sem var annað hvort Réttó eða Hagaskóli, man það ekki alveg. Þeir stífhéldu með Argentínu enda höfðu Vestur-Þjóðverjar hent þeirra mönnum út úr mótinu nokkrum dögum áður, eins og þeir höfðu gert á HM á Spáni fjórum árum fyrr. Það var því ekkert lítið fagnað þegar Jorge Burruchaga skoraði sigurmarkið fyrir Argentínu seint í leiknum.

Aðrir leikir á Iceland Cup eru síður eftirminnilegir. Mig rámar í að hafa glímt við Völsung í einhverjum lundi í Kópavogi og gott ef Valsmenn urðu ekki á vegi okkar líka. Harðsnúið lið með menn eins og Gunnlaug Einarsson, Steinar Adolfsson og Gunnar Má Másson innanborðs, en sá síðastnefndi er vitaskuld pabbi Más sundkappa og tónlistarmanns. Gott ef Einar Þór Daníelsson var ekki Valsari á þessum tíma líka. Við höfum líklega tapað fyrir þeim.

Lið Víkings er líka minnisstætt, einkum einn leikmanna þess, Ívar að nafni, fyrir þær sakir að hann var fúlskeggjaður. Þið munið að við vorum 15 og 16 ára. Ári síðar kom Ívar norður til að etja kappi við okkur og hafði þá síst dregið úr skeggvextinum. Ég man að Sammi baðvörður í íþróttahúsi Glerárskóla hafði ákaflega gaman af þessu og ég var viðstaddur þegar hann leit á liðsfélaga minn, Sverri Ragnarsson, úr JMJ-fjölskyldunni, en hann tók líkamlegan þroska seint út, var eiginlega bara eins og barnsrass í framan á þessum tíma, svo við tölum nú bara íslensku. „Sverrir minn,“ sagði Sammi sposkur á svip, „þú ert ekki með skegg, eins og Víkingurinn!“

Að Iceland Cup loknu var öllum iðkendum smalað á ball í Hollywood, það er skemmtistaðnum sáluga í Ármúla, ekki varnarþingi fræga fólksins. Fengu menn þar ennfrekari útrás fyrir fótafimi sína, ekki síst sá einhenti. Eiki sat hjá. Vildi ekki brenna sig aftur. Sjálfur mætti ég, að mig minnir, til leiks í appelsínugulum buxum sem ég hafði þá nýlega eignast. Man illa hvort ég púllaði þær en athugasemdir voru á bilinu fáar til engar. Við erum jú að tala um tískusumarið 1986. Þegar allt mátti.

Ha, hverjir unnu mótið? Góð spurning. Ég vildi að ég hefði svarið.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Glæsilegri en Glæsibær

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. október 2024 | kl. 13:30

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30

„Ertu ennþá að redda stráknum?“

Orri Páll Ormarsson skrifar
23. ágúst 2024 | kl. 11:30

„Heimurinn er að farast, sjáið þið það virkilega ekki!?“

Orri Páll Ormarsson skrifar
09. ágúst 2024 | kl. 08:45