Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Sjúkdómsgreiningar

FRÆÐSLA TIL FORVARNA - XIV

Þegar unnið er að sjúkdómsgreiningum er það gert í samræmi við alþjóðleg greiningakerfi. Við hverja nýja útgáfu verður uppfærsla skv. nýjustu fræðilegu þekkingu. Notkun þessara kerfa er flókin og það tekur langan tíma og mikla þjálfun til þess að beita þeim rétt. Þó löngunin sé að greiningakerfin séu fagleg og byggi á vísindalegum rannsóknum (evidence based) og læknisfræðilegri reynslu (best practice) þá endurspeglar hver útgáfa líka að einhverju leiti viðhorf hvers tíma.

Greiningar breytast, mörk færast til, það sem áður var talið sjúklegt er það ekki lengur og öfugt og greiningar hverfa og aðrar koma í staðinn. Til eru viðmið fyrir blóðþrýsting, blóðsykur- og blóðfitu um hvað er talið eðlilegt. Slíkar sjúkdómsgreiningar breytast vegna áhrifa frá rannsóknum sem gerðar eru á stórum hópum fólks, oft mörg þúsundum og sýna best mörkin á eðlilegum og óeðlilegum gildum.

Geðsjúkdómagreiningar byggjast á fjölda einkenna og hversu mikið þau trufla. Þetta er flóknara að mæla og háð skoðun sjúklingsins. Einkennamælingar við geðsjúkdóma hafa á síðustu árum verið gagnrýndar því þær hafa leitt til þess að fleiri fá greiningar en áður. Þetta á þó ekki við um alla sjúkdóma en kemur fyrir hjá þeim sem hafa einbeitingartruflanir, geðsveiflur og einhverfu en ekki við geðklofa, þráhyggju eða þunglyndi. Þegar mörk greininga víkka og fleiri fá þær en áður er sagt að þessi eða hinn sé á rófinu (spectrum). Einkennin er þá á mörkunum að mælast sjúkleg og ekki óyggjandi að röskun sé á starfssemi heilans.

Hafa verður í huga að greiningarnakerfin eru mannanna verk, útbúin til þess að gera flókna hluti skiljanlegri og auka öryggi og árangur meðferða. Með öðrum orðum: Ekki eru allir sem hafa athyglisbrest með ADHD og Geðhvarfaröskun (Bipolar) er ekki eina orsök geðsveiflna og maður getur verið innbundinn og félagslega klaufskur án þess að hafa Einhverfufötlun (autism). Til þess að sjúkdómsgreiningar geðsjúkdóma verði sem nákvæmastar þarf því ítarlegar og oft endurteknar læknisskoðanir og þetta nákvæma ferli tekur oft mun lengri tíma en fólk á von á. Það er því sjaldnast hægt að búast við fá snögga afgreiðslu og best að vanda til verka til þess að meðferð verði sem árangusríkust og öruggust og til að draga úr hættu á ofnotkun lyfja. Í dag liggur mörgum á, vilja fá greiningu strax og meðferð í kjölfarið og við geðlæknar sem höfum starfað lengi við sjúkdómsgreiningar finnum fyrir hugarfarsbreytingu. Áður vildu sem fæstir fá greiningu en nú er ekki óalgengt að fólk sækist eftir að fá greiningu um geðsjúkdóm, jafnvel þrýsti á um það.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00

Geðlæknirinn fer á barinn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
21. mars 2024 | kl. 09:45

Feimni

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
20. mars 2024 | kl. 10:10

Er betra að búa í 600 en 200?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. janúar 2024 | kl. 12:20

Jólapóstur

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
19. desember 2023 | kl. 17:30

Skimun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
25. nóvember 2023 | kl. 14:00