Fara í efni
Umræðan

Viljum bara að fundin verði sanngjörn lausn

Baldur Örn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Bifreiðastöðvar Oddeyrar, BSO. Mynd: SNÆ

Enn er engin lausn í sjónmáli varðandi framtíðarstaðsetningu leigubílastöðvar BSO. Eftir að tilboð bárust í lóðirnar Hofsbót 1 og 3 er bara tímaspursmál hvenær leigubílastöðin þarf að flytja höfuðstöðvar sínar.

„Við höfum í raun ekkert heyrt frá Akureyrarbæ ennþá. Ég bíð bara eftir símtali eða tölvupósti með dagsetningu um brottflutning en ég reikna með því að stöðin fái sex mánaða frest frá formlegri tilkynningu til rýmingar líkt og bærinn hefur áður gefið til kynna,“ segir segir Baldur Örn Jóhannesson, framkvæmdastjóri BSO. Hann bætir við að hann reikni með því að bærinn sé að ganga frá ákveðnum atriðum við tilboðshafa áður en haft verður samband við bifreiðastöðina, en nýlega var tilkynnt að SS byggir hefði verið með hærra tilboð af tveimur í lóðirnar Hofsbót 1 og 3.

Bílsstjórar BSO keyra ekki bara fólk út á flugvöll og heim eftir djamm. Þeir keyra líka út mat til aldraðra í hádeginu og skutla börnum í endurhæfingu, svo fátt eitt sé nefnt. Akureyrarbær er stór viðskiptavinur stöðvarinnar. Mynd: SNÆ

Erfitt mál

Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá eru leigubílstjórar BSO ekki sáttir með að þurfa að rýma húsið sem hýst hefur stöðina óslitið frá árinu 1955. BSO stefndi bænum vegna þess sem bifreiðastöðin telur vera óréttmæt yfirráð yfir lóð sem BSO hefur haft ótímabundin réttindi til þess að nýta. Nýjustu vendingar í málaferlunum eru þær að eftir að BSO kærði frávísun Héraðsdóms til Landsréttar þarf Héraðsdómur nú að fjalla um málið efnislega. Baldur segir að hann hafi fulla trú á málstað BSO en staðan sé óþægileg. „Þetta er búið að vera erfitt mál á svo marga vegu,“ segir Baldur og bætir við að hann hefði viljað að bærinn myndi sýna meiri vilja til að leysa málið, ekki síst þar sem bærinn nýtir sér mikið þjónustu BSO og málið snýst um framtíð leigubílastöðvarinnar.

Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir hversu víðtæk þjónusta okkar er. Við erum hreinlega hluti af innviðum bæjarins.

Fjölbreytt hlutverk BSO

Hann útskýrir að BSO sinni ekki eingöngu hefðbundinni leigubílaþjónustu fyrir almenning og ferðamenn, heldur einnig margvíslegri grunnþjónustu fyrir Akureyrarbæ. Þannig keyri bílstjórar BSO daglega út hádegismat til eldri borgara, sinni ferliþjónustu fyrir bæinn, sæki og skutli börnum í leik- og grunnskólum bæjarins í endurhæfingu og ýmsa aðra þjónustu. Þeir sjá einnig um að flytja lyf frá apótekum, matvæli til skóla og að skutla fólki í dagþjálfun á Hlíð og í aðra heilbrigðisþjónustu. „Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir hversu víðtæk þjónusta okkar er. Við erum hreinlega hluti af innviðum bæjarins,“ segir Baldur.

Þrátt fyrir málaferlin við Akureyrarbæ segir Baldur að BSO hafi ekki áhuga á átökum heldur sanngirni. Ef niðurstaðan verður sú að BSO verði að fara af lóðinni, þá vonar hann að góð lausn finnist varðandi framtíð starfseminnar. „Við hefðum auðvitað helst viljað halda áfram þarna, en ef við þurfum að fara þá er bara næsta mál að finna okkur nýjan stað. Við viljum bara að sanngjörn lausn finnist og að allir geti gengið sáttir frá borði.“

Meira fyrir minna

Sigurjón Þórðarson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 14:00

Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Rúnar Sigþórsson skrifar
07. ágúst 2025 | kl. 11:00

Væri ekki hlaupið út aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. ágúst 2025 | kl. 19:00

Aðflugsljós við Leiruveg

Víðir Gíslason skrifar
30. júlí 2025 | kl. 15:30

Mikilvægara en veiðigjöldin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 15:00

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Jón Stefán Jónsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 08:50