Varaflugvallagjaldið og flugöryggi
Í dag, 1. nóvember, eru liðin tvö ár síðan byrjað var að rukka varaflugvallagjald á nýjan leik. Gamla varaflugvallagjaldið var lagt af í maí 2011 og hafði það slæmar afleiðingar á flugvallakerfi landsins. Niðurlagning þess var mikið óheillaskref og varúðarorð þeirra sem best þekktu til voru að engu höfð. Tekjustofn til nýframkvæmda og viðhalds á flugvöllum landsins hrundi á sama tíma og millilandaflug til og frá Íslandi margfaldaðist.
Alþjóðaflugvallakerfið
Á Íslandi eru fjórir alþjóðaflugvellir. Keflavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur. Þessir fjórir flugvellir mynda alþjóðaflugvallakerfi landsins og gegna allir mikilvægu hlutverki innan þess. Hér er rétt að hafa í huga að leiðin er löng frá Íslandi til annarra alþjóðaflugvalla við N-Atlantshafið.
Keflavíkurflugvöllur er rekinn af Isavia ohf og allar nýframkvæmdir, viðhald og rekstur þess flugvallar er fjármagnaður í gegnum efnahagsreikning félagsins. Flugvallakerfi landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll er rekið í gegnum þjónustusamning sem íslenska ríkið hefur gert við Isavia Innanlandsflugvelli ehf. sem er dótturfyrirtæki Isavia ohf. Í þeim samningi hefur á undanförnum árum einungis verið gert ráð fyrir 350-500 milljónum í nýframkvæmdir og viðhald við flugvallakerfið allt, að Keflavíkurflugvelli undanskildum.

Nýtt varaflugvallagjald
Eftir að gamla varaflugvallagjaldið var lagt af fyrir að verða 15 árum varð til mikil innviðaskuld í kerfinu, flugbrautir og fasteignir á flugvöllunum byrjuðu að grotna niður. Markmið nýs varaflugvallagjalds var að bæta úr þessari slæmu stöðu. Greinarhöfundur stýrði á sínum tíma vinnu hóps sem skilaði skýrslu hvernig best væri að standa að málum til þess að styrkja fjármögnum alþjóðaflugvallakerfis landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Nýtt varaflugvallagjald skyldi fjármagna nýframkvæmdir á Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Reykjavíkurflugvelli þannig að vellirnir gætu betur sinnt skyldum sínum sem alþjóðaflugvellir og því mikilvæga hlutverki að vera varaflugvellir í millilandafluginu fyrir hvern annan. Hér er rétt að benda á að það varaflugvallagjald sem nú er rukkað er margfalt lægra en gamla varaflugvallagjaldið á hvern flugfarþega. Miðað við gefnar forsendur má reikna með að varaflugvallagjaldið skili um 1,5 milljörðum króna á ári.
Það fór að sjá til sólar fyrir tveimur árum þegar nýja varaflugvallagjaldið var tekið upp. Því er það geysilega mikilvægt að innviðaráðherra haldi því til haga í nýrri samgönguáætlun sem er boðuð á næstu vikum að nýja varaflugvallagjaldið renni áram til alþjóðaflugvallanna þriggja á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík og þá einnig að það fjármagn til nýframkvæmda og viðhalds í innanlandsflugvallakerfinu og til lendingarstaða haldi sér í gegnum þjónustusamninginn.
Egilsstaðaflugvöllur
Í þingræðum og fyrri greinum um málaflokkinn hef ég lengi bent á að næsta framkvæmd sem eðlilegt er að fjármagna með varaflugvallagjaldinu er að hefja framkvæmdir við fyrsta áfangann við gerð akstursbrautar við norðurenda flugbrautarinnar á Egilsstaðarflugvelli sem er mikilvægt flugöryggismál. Svokallaða „lúppu“ þar sem hægt væri að koma fyrir 4-6 farþegaþotum í neyð. Framkvæmdakostnaður við slíka framkvæmd er áætlaður 3 til 3,5 milljarðar. Hér er um algjört forgangsmál að ræða og mikilvægt að þessi framkvæmd sé í forgangi í framkvæmdarhluta nýrrar samgönguáætlunar.
Flugöryggismál
Þegar frumvarpið um varaflugvallagjald var lagt fram fyrri hluta árs 2023 var lagt til að sérstakt gjald skyldi innheimt til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu varaflugvalla. Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins að nauðsynlegt sé með tilliti til flugöryggis að starfræktir séu fleiri flugvellir sem hafa burði til að taka á móti nokkrum fjölda loftfara þegar ekki er hægt að lenda í Keflavík.
Varaflugvallagjaldið snýst fyrst og fremst um að tryggja flugöryggi.
Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Er ofbeldi gagnvart eldri borgurum vandamál á Íslandi?
Sýnum samstöðu, látum rödd okkar heyrast
„Í augsýn er nú frelsi …
Krónan býr sig ekki til sjálf