Fara í efni
Umræðan

Var bara að pæla

Áður en lengra er haldið er gott að það komi fram að ég er hlynntur listamannalaunum/styrkjum. Kannski ekki alveg sammála útfærslunni.

Ég var mjög hugsi eftir lestur fjölmiðils eins fyrir stuttu. Þar er ritað um mann sem segist m.a. fyrrverandi blaðamaður og sjómaður en sé nú rithöfundur, hafi gefið út fjórar bækur að mér skilst og sú nýjasta hafi verið metsölubók á síðasta ári. Það segir mér að hann sé nokkuð sleipur í sinni list.

Maðurinn segist hafa skrifað þessa metsölubók því hann hafi verið á ritlaunum í sex mánuði árið 2021 og árið þar á undan í þrjá mánuði. Fyrir árið 2022 fær hann ekkert og lætur í sér heyra. Hann er ekki sáttur. Ég las fréttina og skoðaði ummælin í „kommentakerfinu“ sem voru af ýmsum toga. Flest voru á þessa leið: Fáðu þér vinnu eins og annað fólk. Ef þú getur ekki lifað af listinni áttu að gera eitthvað annað. Ég ætla ekki að ráðleggja manninum nema hvetja hann til að halda endilega áfram að skrifa því hann hlýtur að vera góður rithöfundur.

Í upphafi sagðist ég hlynntur listamannalaunum/styrkjum á öllum sviðum listarinnar því listin gefur okkur svo mikið, miklu meira en við gerum okkur grein fyrir, að ég hygg. Ég er sáttur við að styrkja eða greiða laun, listafólki sem er að koma sér af stað, listafólki sem er að skapa sér nafn hvort sem um ræðir einstaklinga eða hópa. Þegar viðkomandi er kominn með grundvöll til að lifa á list sinni þá færi hann/hún/þau af listanum og þannig gefst svigrúm til að aðstoða fleira upprennandi listafólk, sem getur þá reynt fyrir sér án þess að hafa áhyggjur af fjármálum á meðan. Þetta mega vera einstaklingar, dúó, tríó, kvartettar, kvintettar, sextettar og svo framvegis.

Ég er örugglega að fara út á hálan ís með þessari skoðun minni en á skautum var ég alltaf góður. Ég fór yfir listann sem birtur hefur verið fyrir árið 2022. Þar eru nokkur nöfn sem ég kann engin deili á en önnur kunnuleg og hafa verið á þessum lista í all mörg ár. Þarna eru nöfn sem eru mjög þekkt, sumt er metsölulistafólk, oft ár eftir ár, og ætti að geta séð sér farborða með listsköpun sinni. Ef þetta fólk getur það ekki er ljóst að það er ekki hægt að lifa af list á Íslandi. Af þessum nöfnum eru sum þeirra meira að segja orðin heimsfræg og verk þeirra gefin út í mörgum löndum. Ef það dugir ekki til að eiga fyrir brauði og votu þá þarf ég ekki að skrifa meira um hvort að úthlutun listamannalauna/styrkja sé á réttri braut eður ei.

Í lokin langar mig til að velta því upp út frá því sem ég las í fréttinni, og var ástæða þessara skrifa, að sá sem hefur skrifað fjórar skáldsögur sem flestar ef ekki allar hafa fengið góðar viðtökur, segist hafa reiknað með því að fá ritlaun til að geta séð fyrir sér og sínum. Ég er ekkert að setja út á það að hann reiknaði með þessu og skildi kannski engan undra. Ef maður fer yfir listann þá get ég alveg skilið hvers vegna hann reiknaði með að nafn hans yrði þar.

Ég velti því líka fyrir mér hvort ég gæti sótt um listamannalaun og átt von á að fá þau.

Hvers vegna? Vegna þess að í gegnum tíðina hef ég samið lög og texta sem hafa verið gefin út á kassettu og nokkrum geisladiskum.

Einnig samdi ég lög og texta fyrir sjónvarpsþætti sem sýndir voru á RUV. Eru þetta í heildina um 80 verk, annað hvort lag eða texti, stundum hvort tveggja. Ég hef líka skrifað fjórar smásögur sem á eftir að gefa út (hef bara ekki haft efni á því). Einnig hef ég skrifað leikþætti, bæði grín og drama sem komið hafa fyrir augu og eyru fólks. Ég hef líka komið fram og leikið og sungið þessi lög og ég hef farið með gamanmál og líka leikið í leikritum. Ég hef líka hannað umslög og auglýsingar.

Ef ég setti í umsóknina að ég sé búinn að gera svo og svo mikið get ég þá ekki reiknað með því að fá listamannalaun á næsta ári? Allar þessar útgáfur voru til styrktar góðum málefnum og veit ég að ágætis aur kom inn fyrir þau málefni en það er annað mál. Gæti ég sótt um í mörgum flokkum t.d. í flokki tónlistarflytjenda, tónskálda, hönnuða, rithöfunda og í flokki sviðslista. Ég hef nú að vísu aldrei kallað mig listamann en einn frændi minn gerir það alltaf.

Hvað segið þið, er von fyrir mig?

Valdimar L. Júlíusson er Akureyringur í húð og hár. Hann flutti úr bænum fyrir margt löngu – en er alltaf Akureyringur í hjarta.

Almenningssamgöngur við flugvelli

Þóroddur Bjarnason skrifar
20. júní 2024 | kl. 20:00

Hjúkrunarheimili á Akureyri: Óþolandi staða

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
20. júní 2024 | kl. 13:50

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 08:58

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00