Fara í efni
Umræðan

Upplýsingaóreiðan í matarboðinu

„Nei það er ekki rétt ég var búinn að lesa... man nú ekki alveg hvar en það var alveg sláandi“

Jæja nú byrjar hún enn og aftur upplýsingaóreiðan í matarboðinu. Einn ástsælasti samkvæmisleikur þjóðarinnar þar sem öll fjölskyldan keppist heila kvöldstund að skiptast á sláandi staðreyndum, slúðri og sögusögnum án þess að þurfa nokkurn tímann að geta heimilda.

Upplýsingaóreiðan í matarboðinu! Nýtt borðspil fyrir alla fjölskylduna.

Allir geta tekið þátt og enginn undirbúningur nauðsynlegur. Sigurvegarinn er sá sem hefur hæst, kemur með ótrúlegustu söguna og er duglegastur að þagga niður í öðrum við borðið með sínum eigin sannleik. Dálítið eins og á samfélagsmiðlum...

„Hvar var það... sá ég þetta kannski bara á TikTok? Æi skiptir ekki máli það eru allir að tala um þetta!“

Jú það skiptir máli. „Allir“ þá hverjir? Allir vinir þínir á samfélagsmiðlum, allir í heita pottinum, allir á kaffistofunni í vinnunni eða í síðasta boði sem þú fórst í þar sem leikurinn upplýsingaóreiðan í matarboðinu var spilaður allt kvöldið?

Lítum aðeins á rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir í nóvember 2022:

  • Helmingur þátttakenda sagðist halda sér upplýstum án þess að fylgjast með fréttum.
  • Helmingur sagðist alltaf kanna sannleiksgildi frétta áður en þeim væri deilt með öðrum.
  • Fimmtungur sagðist sjaldan skoða fréttamiðla sem miðla öðru sjónarhorni/gildum en þeim sem þau aðhyllast sjálf.
  • Tveir af hverjum þremur sögðust skoða oft sama umfjöllunarefni á ólíkum fréttamiðlum til að skilja það betur.

Framundan er vertíð jólamatarboða þar sem á boðstólnum verða nægar kræsingar, á borð við grafinn-hálf-sannleik, súrar-hrútskýringar, purusteiktar-ýkjur, nýbakaðan-rógburð, innbakaðan-uppspuna, úldnar-staðalímyndir, marineraða-fordóma og villibráðar-gaslýsingar. Gjarnan með fyrirvörum eins og „ætla ekkert að vera leiðinlegur en...“ eða „með fullri virðingu en...“ samt án allrar virðingar til þess eins að gefa okkur skotleyfi á allt og alla.

„Það má ekkert lengur“, „hvernig á maður að geta skilið þetta“ og „þetta var nú ekki svona þegar að ég var yngri.“

Þá byrja yngri og eldri kynslóðirnar við matarborðið að takast á. Eldri kynslóðin sem sú yngri bar eitt sinn virðingu fyrir en lítur í dag á sem minnisvarða um tíma og viðhorf sem réttast er að gleyma. Yngri kynslóðin sú sem eldri nefnir gjarnan sem vandamálið sem þurfi að laga því allt er að stefna í svo vonda átt. Bara ef þær gætu nú hlustað á hvora aðra og lært af hvorri annarri. Núna er hinsvegar of langt liðið á leikinn og allir hættir að hlusta til að skilja, nú snýst allt um að koma sínum punkti að alveg sama þótt það þurfi þá að grípa stöku sinnum frammí fyrir hinum.

Lítum aðeins aftur á rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir í nóvember 2022:

  • 70% höfðu rekist á upplýsingar á síðustu 12 mánuðum sem þau efuðust um að væru sannar.
  • 60% höfðu séð falsfréttir eða fengið þær sendar á síðustu 12 mánuðum.
  • Um 40% gerðu þó ekkert til að bregðast við þegar að þau rákust á frétt á netinu þar sem þau drógu þá ályktun að um falsfrétt gæti verið að ræða. Næstum helmingi fleiri en árinu á undan.

Var það í viðtali, heimildarmynd, rannsókn, frétt sem okkur rámar í að hafa séð eitthvað sem við, munum ekkert hvar, hvenær eða hver það var? Var það kannski stöðuuppfærsla, athugasemd, reel eða story hjá einhverjum?

Þriðjungur þátttakenda í rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd 2021 sagðist hafa myndað sér ranga skoðun á opinberri persónu vegna villandi upplýsinga um hana í ýmsum miðlum. Ári síðar var þetta hlutfall komið niður í 20%. Ætli það sé vegna þess að við séum að verða betur upplýst eða síður viljug til þess að viðurkenna að það geti komið fyrir að við höfum rangt fyrir okkur?

Þurfum við að skilja til að umbera? Þurfum við alltaf að hafa rétt fyrir okkur og aðrir rangt fyrir sér? Má ekki vera sammála um að vera ósammála?

Eftir því sem hiti færist í leikinn dregur hluti matargesta sig úr umræðunni til þess að allt endi nú ekki með hávaða rifrildi. Keppnisskapið hefur tekið yfir og við finnum að það skiptir engu máli hvað við segjum því það er enginn að hlusta. Þá er betra að baktala bara hvort annað í bílnum á leiðinni heim...

Eins og á samfélagsmiðlum stýrist nú umræðan af þeim sem eru háværastir á meðan ákveðinn hópur fólks hefur þagnað og breyst í áhorfendur, eða eru farin inn í eldhús eða stofu til að eiga samtal í minni hópum.

Í rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlaefnd höfðu ögranir og háð neikvæð áhrif á þátttöku 43% þátttakenda sem urðu varkárari í að lýsa skoðunum sínum, leituðu frekar í umræður í lokuðum hópum eða hættu að taka þátt.

Matarborðið er ekki lengur opinn umræðuvettvangur þar sem allir eru velkomnir. Upplýsingaóreiðan hefur tekið yfir og þeir háværu sem eru enn að spila hafa jafnvel náð nokkrum í lið með sér. Sigurinn í þessum leik ræðst ekki af því að allir gangi sáttir og sælir frá borði í jólaboðinu. Sigurinn fer til þess sem á síðasta orðið þegar að allir hafa fengið nóg...

Skúli Bragi Geirdal er verkefnastjóri miðlæsis há Fjölmiðlanefnd.

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00