Fara í efni
Umræðan

Þjóðhátíðardagur Akureyringa - Öskudagurinn

Þjóðhátíðardagur Akureyringa - Öskudagurinn

Í dag er „þjóðhátíðardagur“ okkar Akureyringa – Öskudagur. Börn á Akureyri hafa haldið þennan dag hátíðlegan hálfa aðra öld, upphaflega að danskri fyrirmynd, enda Akureyri upphaflega danskur bær þar sem töluð var danska á sunnudögum. Jón Hjaltason sagnfræðingur skrifar um öskudaginn og bolludaginn víða í Sögu Akureyrar og segir frá því, að elsta áreiðanlega dæmið um að slá köttinn úr tunnunni (sem að vísu oftast var dauður hrafn) sé frá árinu 1867, en framan af hafi sá siður verið bundinn mánudegi í byrjun föstu. Lengi framan af var fátítt að halda öskudaginn hátíðlegan annars staðar á landinu, en nú hefur siðurinn verið tekinn upp víða um land. Með öskudegi hefst langafasta eða sjö vikna fasta í kaþólskum sið. Öskudagur er ávallt á miðvikudegi sjö vikum fyrir páska og heitir á dönsku og norsku askeonsdag, á ensku Ash Wednesday og á þýsku Aschermittwoch

Nafn dagsins er dregið af því, að í kaþólskum löndum hefur dauðleika mannsins og hverfulleika lífsins verið minnst með því að gera kross úr ösku á enni kirkjugesta í upphafi lönguföstu sem er tími iðrunar og yfirbóta. Askan var upphaflega gerð úr pálmablöðum pálmasunnudags ársins á undan og blönduð vígðri olíu eða vígðu vatni og þegar krossinn var gerður á enni hinna trúuðu, voru höfð yfir orð Fyrstu Mósebókar: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.”

Auk þess sem askan er tákn hins forgengilega var hún talin búa yfir hreinsandi krafti. Enn eldri siður en að gera krossmark úr ösku á enni fólks, er sá siður að strá ösku yfir fólk, sem brotið hafði af sér. Var það fært í larfa eða poka – eða sekk til þess að refsa því fyrir drýgðar syndir, sbr. orðtakið að klæðast sekk og ösku. Átti þetta að minna fólk á forgengileika mannskepnunnar og hreinsa hana um leið af syndum. Frá þessu er talinn runninn siðurinn að hengja öskupoka á fólk.

Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld, en líklegt er að orðið sé enn eldra. Í handritinu má sjá að öskudagurinn gegndi á miðöldum sama hlutverki og dagur iðrunar í kaþólsku á Íslandi og í öðrum kaþólskum löndum, en langafasta er tími íhugunar og góðrar breytni. Til eru nokkur orðtök í íslensku, tengd iðrun og ösku, s.s. iðrast í dufti og ösku, færa sig í sekk og ösku, klæðast sekk og ösku og leggjast í sekk og ösku.

Gleðilega þjóðhátíð.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00
Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15
Jón Sveinsson - Nonni

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30
Matthías Jochumsson

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09
Íslenska, nútími og lestur

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10
Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00