Fara í efni
Umræðan

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Góð spurning! Þarf að laga eitthvað? Já ⎼ við getum í það minnsta bætt okkur í því hvernig við stundum og tölum um sveitarstjórnarpólitík. Þessi umbótaþörf birtist okkur kannski skýrast í þeirri staðreynd að endurnýjun í sveitarstjórnum hefur verið hröð síðustu ár. Of margir, hver sem ástæðan er, gefa ekki kost á sér aftur eftir að hafa setið eitt kjörtímabil.

Þetta er því sameiginlegt verkefni, á landsvísu, en ég ætla hins vegar að einblína á það sem ég þekki best: Mína heimabyggð.

Umræðan

Ég vil byrja á atriði þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Það er: Við verðum að hætta að láta eins og allir kjörnir fulltrúar, alltaf, séu hálfvitar. Það er bæði ósennilegt að aldrei veljist neinn í bæjarstjórn sem ekki er hálfviti ⎼ og þó svo væri, þá er þetta ekki uppbyggileg nálgun. Í bæjarstjórn situr einfaldlega fólkið sem gaf kost á sér og var kosið af samborgurum sínum. Ertu ósammála ákvörðunum? Láttu í þér heyra! Geturðu gert betur? Bjóddu þig fram! Það er alveg ábyggilegt að fleiri þurfa að bjóða fram krafta sína, svo við fáum tækifæri til að velja besta fólkið hverju sinni.

Samræður

Ég get ekki fullyrt neitt um aðrar sveitarstjórnir, en ég get fullyrt þetta um mína eigin sveitarstjórn: Við þurfum að ræða meira saman. Það sitja jú ellefu fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar, öll með sama umboð, til þess að tryggja að ólík sjónarmið komi fram og hafi áhrif á ákvarðanatöku og ákvarðanaferlið. Ég fullyrði að þetta er vannýtt auðlind í dag, og það á margvíslegan hátt. Rótin er hins vegar í öllum tilvikum skortur á samræðum. Næsta bæjarstjórn verður að gera betur.

Öflugri stjórnmál

Ég er orðinn þeirrar skoðunar að það sé tímabært að gera þá kröfu til í það minnsta leiðtoganna innan bæjarstjórnar, að þeir sinni þeim verkefnum sem við viljum að sé sinnt í fullu starfi. Leiðtogarnir þurfa að hafa tíma til að fylgja verkefnum eftir og sinna stefnumótun, eftirliti og aðhaldi. Þetta er held ég erfitt að gera, svo vel sé, meðfram annarri vinnu. Á sama tíma er ljóst að við getum tæplega fylgt fordæmi Reykjavíkurborgar, þar sem allir borgarfulltrúar sinna sínum verkefnum í fullu starfi. Til þess er sveitarfélagið ekki nógu stórt. Við þurfum því að finna okkur eigin leiðir, til að tryggja að öflug stjórnsýsla fái nægjanlegan stuðning og nægjanlegt aðhald frá öflugum kjörnum fulltrúum.

Sameinuð

Hér er ég kominn inn á hála braut, og kannski út fyrir efnið, en ætla samt að láta vaða. Sameinaður Eyjafjörður væri sveitarfélag með tæplega 30.000 íbúa. Sveitarfélag sem býr yfir háskóla, alþjóðaflugvelli, þremur stórum höfnum, spennandi iðnaðarsvæðum ⎼ auk minni hafna, öflugra framhaldsskóla, og svo framvegis, o.s.frv. Sameinaður Eyjafjörður væri fjórða stærsta sveitarfélag landsins, með aukin vaxtartækifæri, og sem slíkt með áhrifamátt og slagkraft sem ekkert sveitarfélag utan höfuðborgarsvæðisins hefur í dag. Sameinað sveitarfélag getur unnið með markvissari hætti að því að sækja hingað tækifæri til atvinnuuppbyggingar, laust undan hreppamörkum sem hafa litla merkingu í augum fjárfesta. Sameinað sveitarfélag hefur sömuleiðis sterkari rödd gagnvart stjórnvöldum. Ég held að flestir kjörnir fulltrúar í Eyjafirði sjái tækifærin í slíkri mynd, og auðvitað vankantana líka. Við verðum að fara að ræða þessi mál af alvöru, bæði kosti og galla.

Þetta voru aurarnir mínir tveir, eins og Kaninn segir.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. ágúst 2025 | kl. 14:15

Brautin rudd fyrir nýtingu glatvarma

Ottó Elíasson og Ásthildur Sturludóttir skrifa
25. ágúst 2025 | kl. 10:10

Meira fyrir minna

Sigurjón Þórðarson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 14:00

Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Rúnar Sigþórsson skrifar
07. ágúst 2025 | kl. 11:00

Væri ekki hlaupið út aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. ágúst 2025 | kl. 19:00

Aðflugsljós við Leiruveg

Víðir Gíslason skrifar
30. júlí 2025 | kl. 15:30