Fara í efni
Umræðan

Sveigjanleg starfslok

Fyrir nokkru kom heilbrigðisráðherra fram með tillögu að frumvarpi um að hækka hámarksaldur opinberra heilbrigðisstarfsmanna í 75 ár. Þessi tillaga er svar heilbrigðisráðherra við langvarandi manneklu í heilbrigðiskerfinu en aðgerðir til að halda fólki í því hingað til hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Tillaga heilbrigðisráðherra hefur hlotið misgóðar undirtektir í samfélaginu og þykir umdeild. Við fyrstu sýn þótti mér þessi tillaga Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra alveg galin þar sem flestir heilbrigðisstarfsmenn eru útkeyrðir löngu áður en til starfsloka kemur. Þegar ég fór að velta hugmyndinni betur og betur fyrir mér þá sá ég að í henni gætu falist tækifæri og hún gæti orðið til góðs og orðið fyrsta skrefið í átt að sveigjanlegri starfslokum fyrir eldra fólk.

Lengi hefur það gilt að opinberir starfsmenn láti af störfum í síðasta lagi um sjötugt sama á hvaða sviði þeir starfa og hvort mannekla er fyrir hendi eða ekki. Ætla má að álíka mönnunnar vandamál muni koma upp í náinni framtíð á fleiri sviðum en í heilbrigðiskerfinu þar sem sífellt færri og færri börn fæðast og fleiri enda á örorku með þeim afleiðingum að færri eru á vinnumarkaði. Við þessum staðreyndum þarf að bregðast. Við í Flokki fólksins fögnum öllum framfara skrefum í átt að réttlæti og styðjum þá hugmynd að eldra fólk fái tækifæri til að ákveða hvenær það fer af vinnumarkaði og geti starfað áfram án skerðinga.

Sveitarfélögum er ekki skylt að fylgja almannatryggingalögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör eldra fólks sem kýs að starfa lengur en til sjötugs. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir þar sem lagðar voru fram ýmsar leiðir að sveigjanlegum starfslokum. Þar kemur m.a. fram að í eldra fólki búi mikill mannauður, þekking og reynsla. Eldra fólk er almennt samviskusamt og er ekki bundið yfir veikum börnum eins og flest barnafólk sem yngra er. Rannsóknir sýna jafnframt að félagsleg þátttaka eldri borgara dregur úr einangrun og viðheldur hreysti þeirra lengur. Eldri borgarar sem hafa til þess getu og vilja ættu því að fá að taka ákvörðun um sín starfslok og gætu þannig með atvinnuþátttöku sinni skilað áfram til samfélagsins eins og áður.

Flokkur fólksins mun leggja það til við bæjarstjórn Akureyrar að skoða það hvort Akureyrarbær geti boðið eldri borgurum tímabundnar ráðningar, hlutastarf eða verktakavinnu við ákveðin verk. Allt sem hentar eldri borgurum og styrkir atvinnulífið. Þótt fólk verði sjötugt þýðir það ekki að heilastarfsemi þess stöðvist. Í dag er fólk um sjötugt við miklu betri heilsu en fyrir áratugum. Fyrir marga eru þvinguð starfslok mjög fyrirkvíðanleg og geta valdið þunglyndi og vanlíðan. Akureyrarbær ætti að vera í fararbroddi og fyrirmynd annarra sveitarfélaga þegar kemur að breytingum til bóta sem lúta að mannréttindum og jafnrétti, enda hefur Akureyrarbær samþykkt að vinna eftir mannréttindastefnu sem byggir meðal annars á grundvelli laga nr. 86/2018 sem segir að stefnan tryggi m.a. jafna meðferð á vinnumarkaði, óháð aldri.

Því má með sanni segja að það séu mörg rök sem styðja það að ávinningur sveigjanlegra starfsloka yrði bæði mikill fyrir eldri borgara sem búa á Akureyri og Akureyrarbæ sem forystu sveitarfélags með velferðarmál í forgrunni.

Málfríður Þórðardóttir er varabæjarfulltrúi fyrir Flokk fólksins á Akureyri

Ungir iðkendur íþróttafélaga mæta afgangi hjá bæjarstjórn Akureyrar

Guðmundur Oddsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 08:00

Erindi í messu á degi eldri borgara

Jóhannes Geir Sigurgeirsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 06:00

Essin stóru í uppstigningardagsviku

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 16:00

Meira um brjóst og rassa

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 14:14

Þegar að lífið fölnar í samanburði ...

Skúli Bragi Geirdal skrifar
09. maí 2023 | kl. 11:24

Megum við lifa mannsæmandi lífi?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
08. maí 2023 | kl. 10:00