Fara í efni
Umræðan

Sóley og kisurnar

Ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar um bann við lausagöngu katta hefur vakið athygli og umtal. Sumir undrast hitann í umræðunni og talað er hæðnislega um „stóra kattamálið“.

Hitinn er þó að nokkru leyti skiljanlegur. Gæludýr geta verið fólki mikils virði. Á mörgum heimilum eru þau hluti af fjölskyldunni. Sumar manneskjur eiga enga vini betri en seppa sinn eða kisu sína.

Dýr hafa ólíkt eðli og misjafnar þarfir. Þegar hugað er að velferð þeirra verður að taka tillit til þess. Ekki er hægt að hugsa um hundinn sinn með sama hætti og skrautfiskinn. Kettir eru heldur ekki hundar. Á það er minnt í ályktun Dýralæknafélags Íslands sem félagið sendi frá sér í tilefni hinnar umdeildu ákvörðunar bæjaryfirvalda á Akureyri. Þar er bent á að séu kettir lokaðir inni geti það leitt til vanlíðunar hjá dýrunum og hegðunarvandamála. Sumir eigendur katta gætu komist í þá stöðu að þurfa að velja á milli þess að „láta aflífa gæludýrið sitt eða koma því inn á nýtt heimili utan bæjarins“ eins og segir í ályktun dýralæknanna.

Nýlega sá ég mynd af elskulegri vinkonu minni, Sóleyju Halldórsdóttur. Hún er öldruð kona sem býr ein í íbúðinni sinni niðri á Eyri. Sóley man tímana tvenna og hún hefur þurft að fara margar og brattar brekkur á lífsgöngu sinni. Einu sinni átti hún heima í torfbæ. Ung missti hún manninn sinn og hafði ekki aðra en sig sjálfa að stóla á þegar hún kom upp börnunum sínum. Tvö þeirra létust af slysförum þegar þau voru komin á fullorðinsár.

Á myndinn er Sóley með kisanum sínum. Hann hét Sokkur en lenti undir bíl og dó nú í haust. Nú syrgja þau Sokk saman Sóley og hinn kisinn hennar, Ljúfur.

Sóley leyfði mér góðfúslega að nota þessa mynd og segja söguna á bak við hana. Þessi merkiskona er eitt dæmi um okkur sem hafa blessast af vináttu við kisurnar.

Myndin af Sóley og Sokk er full af hlýju og vinaþokka. Hún minnir okkur á að fegurð bæja er fólgin í fleiru en snyrtilegum görðum.

Svavar Alfreð Jónsson er sóknarprestur í Akureyrarkirkju kattareigandi.

Sóley Halldórsdóttir og Sokkur.

Duftker Sokks.

Rætur Verkmenntaskólans á Akureyri

Bernharð Haraldsson skrifar
24. september 2023 | kl. 22:00

Vanþekking

Eymundur Eymundsson skrifar
22. september 2023 | kl. 09:30

Stofnun kjarahóps eldri borgara á Akureyri

Björn Snæbjörnsson skrifar
21. september 2023 | kl. 13:00

Sveltur til sameiningar?

Hálfdán Örnólfsson skrifar
21. september 2023 | kl. 12:45

Skóli og Samfélag – Stormasamir dagar í danska bænum

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
19. september 2023 | kl. 15:55

Að upphefja raddir sjúklinga

Málfríður Þórðardóttir skrifar
17. september 2023 | kl. 06:00