Fara í efni
Umræðan

PISA „ríður húsum“

PISA-fárið ríður húsum landsmanna þessa dagana. Slök og versnandi staða í samanburði - snertir mismunandi hópa með ólíkum hætti - þannig er beint fingri að fagfólki í skólum alveg sérstaklega og þeim kennt um að lesskilningi og læsi hafi merkjanlega farið hrakandi. Sannarlega bera skólastjórar og kennarar ríka ábyrgð á framkvæmd skólastarfs og þar með þeim árangri (eða árangursleysi) sem börn upplifa, en hitt verður um leið að viðurkenna að félagslegur veruleiki og umgjörð uppeldis og rekstrarleg skilyrði skólastarfs eru að verulegu leyti mótuð af tækni, kröftum og ákvörðunum sem skólafólkið hefur of lítil áhrif á og getur ekki breytt; - þarf hins vegar að vinna starf sitt innan þess veruleika.

Á þessu stigi má alveg setja verulega fyrirvara um marktækni og áreiðanleika þeirra mælinga og samanburðar sem PISA byggir á og benda mönnum á að t.d. Singapúr og S-Kórea og fleiri SA Asíuríki reka allt öðruvísi uppeldisstefnu og skóla - með sérgreiningu og samkeppnisvali – jafnvel í hálfgerðum þrælabúðum - þar sem umtalsverð prósenta úr hverjum árgangi er auk þess utan við raunveruleika skólakerfis og nýtur takmarkaðrar kennslu og kemur hvergi fram í þessum samanburði. Sum nágrannaríki leggja PISA prófin ekki fyrir alla nemendur í einstökum árgöngum og hérlendis hefur því miður komið fram að íslenskun og aðlögun prófþátta hefur verið afar umdeilanleg eða beinlínis illa gerð. Í einstaka skólum láta kennarar og skólastjórar í veðri vaka við nemendur að PISA prófin skipti svo sem ekki máli - þannig að metnaður barna í svörum skilar sér ekki til árangurs. Allt þetta dregur úr alhæfingagildi PISA og ætti að hvetja okkur til að fara varlega í yfirlýsingum og forðast sleggjudóma.

PISA samanburður á svörun 15 ára unglinga - - er þannig mæling tekin við lok grunnskóla – og áður en unglingar hefja nám sitt í framhaldsskóla og áður en formlegri foreldraábyrgð á uppeldi þeirra lýkur.

Hvað segir PISA okkur?

  • Lesskilningi fer hrakandi - bæði á Íslandi og í nágrannalöndum.
  • Staða í raungreinum/náttúrfræði er slök í samanburði og þar vekur etv. athygli að kynjamunur er ekki sams konar og víðast í nágrannalöndum (Stúlkur á Íslandi skora hærra/drengir á Íslandi skora lægra). (Ísland sker sig úr meðal vestrænna ríkja að hér er ekki virk kennsla í umhverfismennt og sjálfbærni í gegn um allan grunnskóla - virðist meira háð tilviljunum ef einstaka umsjónarkennari hefur slík áhugasvið.)
  • Það kemur fram aukinn munur á árangri barna eftir stéttarstöðu - efnahag og fjölskyldugerð – umfram það sem er almennt í nágrannalöndum. Sama munstur sést að þessu leyti í Svíþjóð.
  • Almennt skora Íslensk börn undir meðallagi OECD . . og okkur finnst að þar með séum við kannski „að falla úr Evrópukeppninni“ árið 2023.
  • Íslenskum börnum líður samt bara nokkuð vel í skólanum og þau sýna persónulega styrkleika sem eru meira en á pari við nágrannalönd. (Þetta hefur nú ekki fengið sérlega mikið vægi í fjölmiðlaumfjöllun.)

Hvað hefur hins vegar verið að breytast á síðustu 25 árum hér á landi.

  1. Rekstrarábyrgð grunnskólakerfisins var flutt til sveitarfélaga frá og með árinu 1996. Þeim flutningi átti ekki að fylgja nein meginbreyting á umgjörð náms og kennslu eða þjónustu við börn, en því miður var ekki jafnhliða framkvæmd nein ítarleg greining á því hvað áhrif þessi rekstrartilfærsla kynni að hafa á tækifæri nemenda til árangurs og vinnuskilyrði fagfólks á vettvangi. Því miður fylgdu heldur ekki markaðir tekjustofnar þannig að óljós og fremur ómálefnaleg fjármögnunarleið - í bland við önnur lögbundin verkefni eins og skolpveitur og snjómokstur og „furðuflæði peninga“ í gegn um svokallaðan „Jöfnunarsjóð sveitarfélaga“ – gerir fjármögnun grunnskólastarfsins býsna ógagnsæja.
  2. Frá 1998 hefur verið gerð margvísleg breyting á gildandi námsskrám og hrært í markmiðssetningu. Reynt hefur verið að troða inn allskonar námsgreinum - - a. er búið að troða inn ensku í 1. bekk ofan í ólæsa nemendur og suma lítt talandi á íslensku. Frá því að ákveðið var – án góðrar ígrundunar - að stytta námsleiðir framhaldsskóla í 3 ár hefur auk þess verið gengið miklu lengra í að „þrýsta námsefni“ framhaldsskóla – niður í grunnskóla – heldur en þekkt þroskaviðmið mæla með. Þar má benda á aukna algebru og einhvers konar margfaldaða ensku-dýrkun með því að dönsku hefur verið skákað lengra út á jaðarinn í skólakerfinu – þrátt fyrir að enn séu fjölmennustu hópar íslendinga sem sækja sér nám, þroska og vinnu til Danmerkur og Noregs (af öllum útlöndum) þar sem tungumálið skiptir grundvallarmáli.
  3. Tilraunir seljenda tæknivöru til að koma tölvum og ýmsum hugbúnaði inn í skólstarf hafa borið verulegan árangur - oft að því er virðist meira á forsendum framleiðenda og seljenda heldur að það hafi gerst á forsendum nemenda og réttar þeirra til náms og þroska. Nýlegur úrskurður Persónuverndar í „skýjamálinu“ staðfestir einmitt að hagsmunir og réttindi nemenda kunna að hafa verið fyrir borð borin.
  4. Mjög mikið og vaxandi áreiti og ónæði hefur orðið í skólastarfi af kröfum utanaðkomandi um að skólinn verði vettvangur fyrir fræðslu af ólíkum toga - - hvort sem það er „fjármálalæsi“ eða geðvernd - eða ofbeldi - og í hvert skipti sem neikvæðar fréttir flytjast af unglingum eða óhamingju ungs fólks hrópar einhver „skólarnir hafa brugðist!“.
  5. Niðurskurður fjárveitinga hefur í einstökum (og líklega mörgum) tilfellum leitt til þess að skólar segja upp sérmenntuðum starfsmönnum en þess í stað eru ráðnir ófaglærðir starfsmenn sem „stuðningsfulltrúar“ - sérkennarar starfa t.d. ekki 1.-7. bekk í fjölmennum skólum – jafnvel á Akureyri.
  6. Af langstæðum niðurskurðarkröfum rekstraraðila fylgir að skólar hafa ekki getu til að standa undir metnaðarfullum vettvangsferðum til náttúruupplifunar eða til rannsókna og heimsókna á söfn og menningarviðburði. Af slíku leiðir einnig að félagsleg styrking og aðlögun nýbúa og nýrra nemenda að félagsheildinni verður miklu veikari en æskilegt er.
  7. Sveitarfélög hafa kosið að staðsetja nær allan stuðning við íþrótta og menningaruppeldi barna utan við vettvang grunnskólans – og sama er að segja með svokallaðar „félagsmiðstöðvar“ sem eru víða lausar frá ábyrgðarvaldi skólanna. Íþróttafélög fá víða ríflegar fjárveitingar og gríðarlegur kostnaður fellur til við rekstur á umgjörð íþróttastarfsins (líka meistarflokkanna) - sem beinlínis dregur fé frá öllum hinum sem ekki sækja í slíkt starf. Dregið hefur verið úr rétti nemenda til þess að fá t.d. sundkennslu á vettvangi skólans þannig að í einstökum sveitarfélögum fá börnin ekki nærri því sem nemur einni kennslustund á viku frá 1.-10. bekk. Menningaruppeldi grunnskólabarna á vettvangi sveitarfélaganna er víða nær alveg einangrað við tónlistarskóla og greiða þarf umtalsvert gjald til að nýta slíka þjónustu sem ýkir um leið stéttamuninn. Þarna hafa svokölluð „frístundakort“ verið notuð sem einhvers konar réttlæting á þeirri aðgreiningu hópa sem fyrirkomulagið í raun felur í sér.
  8. Stafrænt ofbeldi og tæknistutt einelti verður meira og meira áberandi eftir því sem snjalltækjavæðingin gengur lengra og verður altækari og veður yfir skólastarfið.
  9. Áreiti og ónæði - og beinlínis hótanir - hafa í vaxandi mæli beinst að kennurum og einstökum starfsmönnum skóla. Þar eru hin beinu samskipti spjallhópa á samskiptamiðlum og skeytasendingar búin að gera einstaklinga óvarða gagnvart áreitinu – og skipulag og ábyrgðarröðun frá hendi skólastjóra hefur sums staðar mögulega leitt til þess að „foreldrar fái veiðileyfi“ beint á kennara og það gersamlega strax og nú - um leið og mögulega hefur komið til ágreinings, eða þess að kennari hafi sett ofan í við nemanda, stöðvað hann frá því að beita aðra ofbeldi nú eða gert til viðkomandi eðlilegar kröfur um að viðkomandi nemandi skilaði sínu á réttum tíma. Þannig hefur undirritaður staðfestar upplýsingar um að fleiri en einn reynslumikill kennari hefur upplifað á síðustu 2-3 árum - í fyrsta skipti á langri starfsævi - að verða fyrir beinum og óbeinum árásum og jafnvel hótunum af hálfu nemenda og foreldra - án þess að stjórnendur skóla stigi þar beint inn á milli og taki ábyrgð með starfsmönnum sínum.
  10. Illa rökstutt eða beinlínis órökstutt skráningarfargan hefur lagst á umsjónarkennara – vegna þjónkunar við tæknilausnir - og hugbúnað sem smíðaður hefur verið af aðilum sem eru með litla eða enga skólaþekkingu - - og sveitarfélögin og stjórnendur þeirra hafa tekið ákvarðanir um að kaupa og krefjast innleiðingar á. Sumt af þeirri skráningu orkar meira en tvímælis - og umgengni og varðveislu gagna virðist ábótavant.
  11. Í kennaramenntun hafa verið innleiddar gersamlega tengslalausar áherslur gamaldags latínuskólaviðhorfa þar sem prófessorar og lektorar sem sjálfir hafa aldrei kennt börnum né stýrt skólum þvinga nemendur til að sinna lokaverkefni sem eru fremur einhvers konar „akademískar rannsóknaræfingar“ - í stað þess að kennaranemar fái leiðsögn og stuðning reynslumikilla kennar innan skóla og þá til að þróa og leggja fram kennsluplön og lausnir sem þeir geta síðan sjálfir unnið með inn í skólunum að loknu námi. Akademíseringin virðist hafa farið vaxandi með lengingu kennaranáms í 5 ár.
  12. Gersamlega ógrunduð breyting var gerð gagnvart leyfisbréfi kennara sem nú er ekki lengur sérgreint eftir skólastigum. Það beinlínis býður upp á að kennarar sem sjálfir hafa lítinn eða bókstaflegan engan faglegan undirbúning undir kennslu yngri barna séu settir í það hlutverk að kenna t.d. lestur - nú eða að leikskólakennarar sem undirbjuggu sig til uppeldisstarfs 12 mánaða til 6 ára séu skyndilega í hlutverki náttúrufræðikennara/umsjónarkennara í 7. bekk.
  13. Yfirgengilegt virðingarleysi af hálfu (of stórs) hóps foreldra gagnvart námsþörfum og rétti barna sinna – skortur á því að foreldrar gangist við uppeldisábyrgð sinni – sem kemur ma. fram í því að foreldrar ákveða sjálfir að sinna sínum eigingjörnu löngunum og „fara í ræktina eða á veitingahús með félögunum“ frekar en að sinna heimalestri barnanna. Eða jafnvel fara frekar með krakkana á fótboltaæfingu heldur en að hlusta með athygli á þau lesa í rólegheitum heima. Svo er hitt vaxandi vanrækslumál - að foreldrar hika ekki við að taka börn sín úr skóla - 1-3 vikur í senn - jafnvel oftar en einu sinni á ári - til að fara sjálf í utanlandsferðir. Þessir foreldrar heimta kannski líka að umsjónarkennarinn setji upp eitthvert sérsniðið námsefni sem krakkarnir geta þá dundað sér við - - - þótt slíkt sé bókstaflega og alls ekki í verkahring kennarans - en sinni hann því ekki er það hiklaust notað gegn honum. Í Sviss og Danmörku til að mynda er slík framkoma foreldra beinlínis refsiverð og skoðast sem brot gegn börnum viðkomandi sem eiga ófrávíkjanlegan rétt til skólagöngunnar.
  14. Vaxandi fátækt foreldrahópa - einkum einstæðra foreldra og fatlaðra - er raunveruleg. Sá amk. þriðjungur barna sem býr við lakari kjör fer á mis við öryggi í uppeldi - og flest þeirra eru að mestu utan við reglulega þáttöku í íþróttastarfinu (elítustarfi) og alveg útilokuð frá því að geta sótt t.d. tónlistarnám á vegum sveitarfélaganna vegna skólagjalda. Svo er sama hópi kannski refsað fyrir fátækt sína með því að börnin útilokast frá skólamáltíðum vegna vanskila foreldranna meðan innheimtufyrirtækin eru nk. áskrifendur að tekjum í rukkunarhlutverki sveitarfélaga.
  15. Námsefnisgerð hefur að talsverðu leyti verið markaðsvædd og færð úr farvegi miðlægrar þróunar. þar sem opinber námsgagnastofnun áður þróaði námsefni í virku samstarfi við reynslumikla kennara og efnið var prófað jafnóðum á vettvangi. Framboð efnis hefur minnkað og alls ekki haldið í við aukna fjölbreytni í áherslum námskrár og að mörgu leyti alls ekki svarað breyttum kröfum.
  16. Stóraukinn fjöldi nýbúa - frá mismundandi málsvæðum - hafa ekki fengið virka þjónustu á grunni námsefnis eða þjálfunar og leiðsagnar sem umsjónarkennara hafa þá haft aðgang að. Sums staðar var/er beinlínis reynt að einangra innflytjendabörn í einstökum grunnskólum - með því var/er þeim beinlínis bægt frá því að laga sig að samfélagsmunstri og byggja sig upp sem hluti félagseiningar jafningja. Það þekkist hins vegar varla (eða ekki) að innflytjendur fái nokkra þjónustu á eigin móðurmáli – innan Íslenska skólakerfisins.

Valdsækni og vond pólitík

Frá því að sveitarfélög tóku yfir rekstur grunnskóla hefur að mati undirritaðs borið óþægilega mikið á tilburðum pólitíkusa til að seilast eftir valdi og yfirráðum yfir ákvörðunum sem snerta skipulag og markmiðssetningu skólastarfs. Það er gert bæði með íhlutun um mannaráðningar - þar sem fagleg uppeldis- og skólaþekking og sérþekking á stjórnsýslu skóla víkur fyrir gamaldags spillingu og hins vegar með skilgreiningum á fjárveitingum og „skipulagsbreytingum“ – sem oftar en ekki hafa það að duldu markmiði að fjármagn ákveði hvað „má gera“ þannig að fagfólkið á vettvangi geti ekki gert kröfur um að þarfir og réttur barnanna ákveði það sem „þarf að gera“. Þess vegna m.a. skapast ósættanleg spenna milli foreldra og skóla ef fyrirliggjandi greining á sérþörfum eða námsvandamáli liggur fyrir en skólinn hefur ekki bjargir til að veita þá þjónustu sem viðkomandi einstaklingur þarfnast og „á rétt á“ Óánægja foreldra og vonbrigði beinist því of oft að umsjónarkennaranum sem enga sök á í málinu - og hefur ekki tök á að ákveða að gera það sem er „faglega rétt“ - (eða jafnvel lagalega skylt) – af því að fjárveitingar eru ekki til staðar og ekki hefur verið ráðinn sérmenntaður starfsmaður til að sinna t.d. talkennslunni.

Kennarar upplifa persónuleg vonbrigði og telja sig jafnvel hafa brugðist skyldum sínum - - og missa niður starfsánægju og lenda í því að brenna upp - - og kjósa svo að hverfa til annarra starfa (þótt þeir sjái kannski eftir því alla ævi síðar - - að fórna fagmenntun sinni og starfslöngun vegna kerfisgalla og vondrar pólitíkur.) Umtalsveður fjöldi fagmenntaðra kennara hefur því miður horfið ótímabært til annarra starfa eða dottið út af vinnumarkaði vegna óviðunandi starfsaðstæðna og viðvarandi skortur á fagmenntun er þess vegna staðreynd.

Hvað er til ráða?

Uppeldi barna í samfélagsgerð 21. aldar er verkefni samfélags miklu fremur en prívatverkefni einstakra foreldra og þannig hefur það auðvitað verið um aldir. Gamall orðskviður frá Afríku; „að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn“ er þannig í fullu gildi.

Börnin okkar eiga kröfu á að foreldrar þeirra virði skyldur sínar og sinni uppeldi þeirra. Börnin og foreldrarnir eiga á sama hátt sameiginlega kröfu á samfélagið og kerfi þess um að þeim séu skapaðar aðstæður og veitt þjónusta til að geta sinnt þessu hlutverki. Til þess höfum við skólann og til þess höfum við líka önnur hliðarkerfi til að virkja forvitni og áhuga barna og þarfir til að glíma við viðtsmunalegar og listrænar - og líkamlegar þrautir.

Sem fagmenntaður skólastjóri og með þónokkra reynslu á því sviði met ég það svo að eitt mikilvægasta verkefni skólastjóra á vettvangi sé að hvetja og styðja foreldra til að sinna hlutverki sínu sem „foreldra skólabarna“ og gera um leið skýrar kröfur til foreldranna fyrir hönd samfélagskerfanna um að þeir undirgangist slíkar skyldur og setji þarfir barnanna í algeran forgang. Mikilvægustu samstarfsaðilar skólastjórnenda og foreldra í slíku verkefni eru umsjónarkennarar barnanna á hverjum tíma. Starfaðstæður þeirra og sú virðing sem starfi umsjónarkennara er sýnd getur skipt sköpum fyrir góðan árangur heilla nemendahópa - jafnvel heilla árganga í einum skóla. Burðugir fagmenn - karlar og konur eða kvár - í hópi umsjónarkennara eru raunverulega burðarásar í uppeldi og menntun. Þess vegna er mikilvægasta verkefni foreldra og stjórnmálanna framundan að kalla faghópana til þeirrar ábyrgðar sem máli skiptir - - en gefa um leið rými fyrir skólastjóra til að veita metnaðarfulla forystu á vettvangi um leið og umsjónarkennarar fá virka símenntun og leiðsögn og bætt kjör - og nýliðar á þeim vettvangi fá stuðning í starfsþjálfun undir verndarvæng reynsluboltanna.

Í fyrsta kjarasamningi KÍ og Sambands Sveitarfélaga 2002 var gerð tilraun til að ná samstöðu um tiltekna áherslubreytingu í þá átt sem hér er verið að tala fyrir. Umsjónarkennarar fengu örlitlar kjarabætur og skólastjórar fengu svigrúm til að ráðstafa launauppbótum til þeirra sem tóku um leið meiri ábyrgð í skólastarfinu. Því miður börðust faggreinakennarar gegn áframhaldi slíkrar uppfærslu á umsjónarkennarahlutverkinu og fjöldi skólastjóra kausa að víkja sér undan ábyrgðinni á því að verða farvegur til slíkra breytinga - (og sumir þeirra eru nú etv. ósýnilegir á skrifstofum sínum eða kannski bara alveg hættir.)

Og nú er spurt; kostar þetta ekki einhver ósköp í peningum? Jú – auðvitað en stutta svarið er samt nei; mesti kostnaðurinn liggur hins vegar í að gera þetta ekki - - og sitja uppi með það tjón sem árangursleysi of margra veldur - sem og langvarandi óhamingja uppflosnaðra kennara.

Það er fullt af peningum í kerfinu;

  • Miðlægar skrifstofur Sambands Ísl. sveitarfélaga að því er varðar Grunnskóla hafa þanist út - en þær ætti að leggja niður eins og þær starfa. Ísl.Svf. hefur ekkert stjórnsýsluhlutverk og er bastarður í öllu skipulaginu. Samband Ísl.Sveitarfélaga hefur engu að síður tekið til sín vald og áhrif sem leiða fremur til kostnaðar en til árangurs nemenda að mati undirritaðs.
  • Stærri sveitarfélög hafa byggt upp kostnaðarsama miðstýringu - sem ætti að umbreyta og hluta niður og færa fjármunina beint út í einstaka skóla. Jafnframt virðast einstakir skólar hafa byggt upp óskilvirkt kerfi stjórnenda þar sem skólastjórinn hefur verið losaður við áreiti af daglegum vettvangi skólastarfsins þannig að starfsmenn og nemendur líta fremur á hlutverkið sem kerfislægt þvingunarvald heldur en að því fylgi samábyrgð og mannlegt andlit og væntumþykja. Endurteknar rannsóknir staðfesta því miður að íslenskir skólastjórar eru óþægilega langt frá hversdagslegum veruleika kennara og barnanna í skólastofunni – og hafa þar með ekki nægileg jákvæð áhrif til gæða og árangurs í skólastarfinu.
  • Kjarasamningur kennara virðir afar lítið það ábyrgðarhlutverk sem umsjónarkennarinn hefur undirgengist - enda ekki kannski skrítið þar sem ekkert sérstakt kjara- eða kröfugerðarfélag kemur fram fyrir hönd umsjónarkennara. (það er hins vegar fullt af kröfugerðarfélögum faggreinakennara - sem stundum hafa hátt - og hafa ráðið furðumiklu - og stundum náð að rífa niður kollega sína á kjaravettvanginum). Bæði þarf umsjónarkennari aukið svigrúm í tíma – með minni bindingu í kennslustundum - og óhjákvæmilegt að launa hlutverkið þannig að það verði beinlínis eftirsóknarvert verkefni á vettvangi hvers einstaks skóla. Með því verður það raunsæ tilhögun að byrjendur í kennslu fái virka leiðsögn sem starfsnemendur hjá öflugustu umsjónarkennurum skólanna á hverjum tíma. Jákvæðar lausnir og metnaðarfull viðhorf smitast þannig milli kynslóða kennaranna og verða að inngrónum kúltúr góðra skóla.
  • Til hliðar þurfum við sem samfélag að ákveða að mæta rétti fatlaðra nemenda og nemenda með skilgreind og þekkt námsvandamál - með sértækum aðferðum og efni við hæfi - oft með sérkennslu í hópi eða einstaklingslega. Já; þetta kostar, en það er meiri kostnaður fólginn sóun á möguleikum og tækifærum hinna fötluðu og eyðileggingu á lífshamingju.
  • Samfélagið þarf líka að ákveða að taka á móti nýbúum á grundvelli mannréttinda þeirra og okkar allra - þannig að þeir fái þjónustu sem mætir þeim frá sínum móðurmáli og helst á sínu máli - - og leiðir þá inn í Íslenskan málheim og þá alveg endilega án þess að fara gegn um undirmáls-ensku leikjatölvu og snjalltækjanna. Já; - þetta kostar - en meira kostar sú sóun og það mannréttindabrot að gera þetta ekki.
  • Samfélagið hefði gott af því að ákveða – beint og óbeint - að taka snjallsíma og áreitisúrin af öllum foreldrum og flestum öfum og ömmum - og útiloka slík tæki með öllu úr grunnskólum. Jafnvel mætti beinlínis hvetja lækna til að skrifa „samskipta-seðla“ þar sem fjölskyldur mundu tala saman, leika sér eða lesa tiltekinn og mældan lágmarkstíma á hverjum virkum degi. Jafnvel þyrfti barnabótakerfið og vinnumarkaðurinn að taka tillit til slíkra þarfa. Þetta kostar kannski ekki eina einustu krónu beint, - en er líklega erfiðasta viðfangsefnið sem snýr að uppeldismálum þjóðfélagsins.
  • Fráleitt fyrirkomulag á rekstri skólahúsnæðis með „reiknaðri leigu“ fyrir afnotin í stað gjaldfærslu á byggingarkostnaði áður - hefur leitt til þess að heildarkostnaður virðist hafa blásið út og talað er um „dýrasta skólakerfi í heimi“ - samanburður kostnaðar milli landa verður beinlínis villandi. Vissulega þarf að byggja nokkuð vandaðar en á meginlandi Evrópum er látið duga - en rakaskemmdir í skólum eru landlægt vandamál börnum og starfsfólki til alvarlegs tjóns.
  • Umbætur þurfa ekki allar að kosta nýja peninga - en þær kosta viðhorfsbreytingar, áherslubreytingar og tilfærslu á peningum. Það er líklega skynsamlegt að ætla sér að auka fjárfestingar í menntun og með auknum framlögum - en það má líka minna á að í gegn um Covid fengu grunnskólar landsmanna ekki eina einustu krónu til að geta lagað starfið að þeim áskorunum og bætt starfsmönnum fyrir alls konar lausnir sem beitt var - á meðan t.d. mokað var peningum í ferðaþjónustufyrirtæki í einkaeigna – sem voru fyrst og fremst að loka og segja upp fólki(foreldrum skólabarna).

Ef við vinnum að umbótum í þá áttina sem hér er ýjað að og verðum nokkuð samtaka um slíkt þá munum við fljótt fjölga öflugum og metnaðarfullum skólastjórum, framleiða fleiri góða kennara og hreinlega sjá betri skóla. Um leið og við sýnum fram á þetta munum við auðvelda mörgum foreldrum hlutverk sitt og betri árangur í uppeldisstarfi verður raunveruleiki fleiri barna. Við munum fækka þeim sem lenda í alvarlegum hremmingum eða altjóni á grunni misheppnaðrar skólagöngu í grunnskóla.

Samanlagður árangur skólakerfisins nálgast með því viðsættanleg markmið - - óháð því hvernig aðrir nemendahópar skora á meingölluðum PISA prófum. Samfélagið verður þannig allt betra með fjölgandi tækifærum ungmenna.

Hamingjan flytur inn í fleiri hús til að búa þar varanlega.

Benedikt Sigurðarson er gamall og löngu-hættur skólastjóri á Akureyri

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Njál Trausta áfram sem þingmann okkar í Norðausturkjördæmi

Inga Stella Pétursdóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Ólöf Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Eiðsson, Arngrímur B. Jóhannsson og Guðmundur Bjarnason skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 21:30

Sögulegt tækifæri

Logi Einarsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Sindri S. Kristjánsson skrifa
28. nóvember 2024 | kl. 13:30

Ágæti kjósandi – Það er komið að þér

Sigurjón Þórðarson skrifar
28. nóvember 2024 | kl. 13:15