Fara í efni
Umræðan

Örugg skref um allt land

Heilbrigðiskerfið okkar er hjartað í því velferðarsamfélagi sem tekist hefur að byggja upp á Íslandi. Á yfir 40 fundum sem Samfylkingin bauð til um allt land til að ræða heilbrigðis- og öldrunarmál var ljóst að sinnuleysi og fyrirhyggjuskortur undanfarinna ríkisstjórna er að hola innan öryggistilfinningu fólks. Ekki síst í okkar kjördæmi þar sem vegalengdir eru langar, veður viðsjál og langt til Reykjavíkur. Að heilsugæslan neyðist til að reiða sig á íhlaupalækna til að bjarga vandanum tímabundið stoðar lítt. Það byggir ekki upp það traust og samfellu sem þarf til að fólk njóti þess margháttaða ávinnings sem rannsóknir hafa sýnt að fylgi því að hafa fastan heimilislækni. Enda settum við það sem okkar fyrsta heit í nýju framkvæmdaplani heilbrigðismála til tveggja kjörtímabila. Við erum tilbúin.

Við höfum heyrt frá heilbrigðisstarfsfólki að útspil annarra flokka hafi valdið því vonbrigðum. Vandinn er víðtækari en svo að hann verði leystur með skattalegum ívilnunum einum sér eða ómarkvissum sporslum. Hvað þá að læknirinn sé bara á skjánum. Við viljum nálgast vandann með því að auðvelda læknum í héraði að sinna sjúklingum sínum, með sameiginlegu átaki og seiglu.

Við munum einhenda okkur í að gera héraðslækningar að veruleika, að sérfræðingar í heimilislækningum finni sig enn betur undirbúna til að mæta sjúklingum sínum fjarri hinni sérhæfðu þjónustu sjúkrahúsanna. Læknar hafa kallað eftir þessu námi og við ætlum að hlusta. Eins og við gerðum á fundunum okkar fjörutíu ætlum við að hlusta - og framkvæma.

Landsbyggðir Íslands eiga það skilið. Landsbyggðarfólk á skilið lækna sem þekkja það og þykir vænt um samfélögin sem þeir þjóna. Við viljum fjölga heimilislæknum og styðja við metnaðarfullt sérnám Félags íslenskra heimilislækna en við verðum líka að auðvelda þeim læknum valið sem vilja verða héraðslæknar en hafa saknað þess að kerfið ryðji brautina. Þá vegferð vill Samfylkingin hefja - á Öruggum skrefum.

Logi Einarsson og þingflokksformaður Samfylkingarinnar og oddviti listans í Norðausturkjördæmi

Mikilvægara en veiðigjöldin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 15:00

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Jón Stefán Jónsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 08:50

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 14:00

Verulegt rými til framfara

Árni Guðmundsson skrifar
02. júlí 2025 | kl. 11:00

Látið hjarta Akureyrar í friði

Guðjón Heiðar Pálsson skrifar
01. júlí 2025 | kl. 06:00

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Eyjólfur Ármannsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 09:45