Fara í efni
Umræðan

Orð í belg iðnaðarsögu Akureyrar

Eftirfarandi tilkynning nísti í brjóst mitt og er með þvílíkum ólíkindum að ég sem þáttakandi og hluti iðnaðarsögu bæjarins og með iðnað míns bæjar runninn í merg og bein tók henni sem fjarstæðu:

„Það sem það er nú orðið endanlega ljóst að Iðnaðarsafnið á Akureyri lokar 1. mars n.k, viljum við biðja þá sem eiga muni hér á safninu og eru í láni hjá okkur að hafa samband við okkur.

Það er opið hér á safninu frá kl 10.00 til kl 16.00 alla virka daga.“

Mér hefur lengi fundist einkennileg skilgreining á því hvað borgi sig, eða á hverju sé tap og á hverju sé gróði.

Tap á ríkisútvarpi fyrir mér hljómar líkt og tap sé á Alþingi og að halda uppi málþófi af hálfu okkar virðulegu þingmanna ætti þá að auka tapið samkvæmt þeirri viðmiðun.

Svo ekki sé talað um fjölgun ráðherra til að halda innbyrðis jafnvægi flokka sem mynda stjórnarmeirihluta hverju sinni.

Slíkar reikningskúnstir eru víst ekki teknar gildar í hagfræðinni, mælikvarðinn í excelskjölunum verða að vera hreinar eða „óhreinar“ tölur og niðurstaða mælistiku efnishyggjunnar.

Mér finnst líka áhugaleysi okkar um eigin sögu hafa aukist ískyggilega.

Hluti af því birtist í ákvörðunum um ómetanlegt rannsóknarsafn og safn sögulegra heimilda um höfuðstað okkar, Borgarskjalasafnið, sem skuli nú loka og starfsemin lögð niður.

Höfuðstaður Norðurlands með eina glæsilegustu iðnaðarsögu landsins var svo lánsamur að eiga frumkvöðulinn og menningarfrömuðinn Jón Arnþórsson, sem af ótrúlegri elju og vinnusemi í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar tókst á elleftu stundu að bjarga miklu magni bæði vinnutækja og vinnuvéla, svo og miklu safni muna, fatnaðar og vöru, sem hér var framleitt.

Hjónin Jón Arnþórsson og Gisela Rabe-Stephan ásamt forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, þegar Iðnaðarsafnið var opnað á ný eftir flutning í núverandi húsakynni 1. maí árið 2004. 

Margar hendur ljáðu honum lið, en fyrst og fremst voru það hjónin Jón Arnþórsson og Gisela Rabe-Stephan sem ráku safnið á eigin vegum allt frá stofnun þess 1993 og til 2004, þegar það opnaði í sérhönnuðu húsi inni á Krókeyri, því sem nú á að loka.

Rætt var um safnið í upphafi sem hluta af atvinnuþróunarsögu Akureyrar og vettvangur fyrir fólk að kynnast og fá vitneskju um mikilvægan þátt í því að upplýsa okkur bæjarbúa um grunninn, sem við stöndum á.

Þarma mætti skólabærinn Akureyri gegna mikilvægu hlutverki og að taka þátt í eða annast lifandi kynningar um iðnaðarbæinn Akureyri.

Árið 2005 var Hollvinafélag Iðnaðarsafnsins stofnað og árið 2006 var stofnað Hollvinafélag Húna II um leið og eikarskipið Húni II var keypt og fært safninu til umráða.

Þessi pistill minn á að vera innlegg í skoðun þeirra sem finnst lokun Iðnaðarsafns höggva nærri rétti okkar Akureyringa að halda sögu bæjarins lifandi og geta áfram búið í skóla- og iðnaðarbæ með óræk sannindamerki um þróun hans.

Áður en söfnum er lokað þarf að minnsta kosti að fara fram rannsókn og markaðsgreining á því hvernig þessi söfn, með hugsanlega nýjum áherslum getur bætt bæinn sem íverustað og ferðaáfanga.

Látum niðurlægingu Náttúrugripasafnsins og niðurlögn Norðurslóðasafnsins vera okkur nægileg spellvirki og förum að dæmi bæja, eins og Seyðisfjarðar sem vinna markvisst að uppbyggingu sinnar safnastarfsemi.

Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld.

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00