35% aukning í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll
Ímyndaðu þér að þú sért að koma frá útlöndum, farir í gegnum vegabréfaeftirlit og sért komin heim til þín eftir á að giska 20 mínútur. Óraunhæft?
Alls ekki. Þannig er þetta hér á Akureyri eftir að komið var á reglubundnu flugi milli bæjarins og Evrópu yfir vetrartímann með stuðningi ýmissa aðila þar sem munar þó líklega mestu um stuðning Isavia Innanlandsflugvalla og framlög úr Flugþróunarsjóði.
Nýtt flughlað hefur verið tekið í notkun og sömuleiðis stærri og betri flugstöð. Þessar endurbætur á flugvellinum og greiðslur úr Flugþróunarsjóði hafa orðið til þess að millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur tekið heljarstökk fram á við.
Árið 2024 fóru um 33.000 farþegar í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll en um 44.500 árið 2025, sem er um 35% aukning. Með sama framhaldi má gera ráð fyrir að farþegar í millilandaflugi um völlinn nálgist 150.000 árið 2030 og það munar um minna!
Þau flugfélög sem nú hafa áætlunarflug til Akureyrar yfir vetrartímann munu vonandi festa sig enn frekar í sessi á komandi misserum og hefja beint flug allan ársins hring. Það tekur hins vegar sinn tíma að vinna markaðinn svo flugið verði algjörlega sjálfbært. Áframhaldandi og helst aukinn stuðningur úr Flugþróunarsjóði er afar mikilvægur til þess að svo megi verða. Ánægjulegt var að sjá að framlög í sjóðinn verða aukin um 100 milljónir á þessu ári en betur má ef duga skal. Tryggja þarf framlög ríkisins í sjóðinn á komandi árum og að þau verði ekki skorin niður að geðþótta með skömmum fyrirvara.
Millilandaflugið um Akureyrarflugvöll er að verða lykilatriði í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu, á öllu Norður- og Austurlandi. Fjárfestar horfa til þess með velþóknun að beinar samgöngur séu tryggðar við önnur Evrópulönd og önnur gátt inn í landið gerir okkur kleift að jafna álagið á helstu ferðamannastaði. Þannig fær ferðaþjónustan byr undir báða vængi.
Því má heldur ekki gleyma að Akureyrarflugvöllur er annar helsti varaflugvöllur landsins og styrking hans er gríðarlega mikilvæg fyrir landshlutann. Tryggjum framlög í Flugþróunarsjóð til framtíðar, bætum aðgengi ferðafólks að landshlutanum og treystum stöðu svæðisborgarinnar Akureyrar.
Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri
Staða eldri borgara á Íslandi í árslok 2025
Dásamlegur aðalfundur — Látum verkin tala!
Listin að vera ósammála
Flugþróunarsjóður efldur