Fara í efni
Umræðan

Akureyrarflugvöllur - Brú milli Norðurlands og umheimsins

Ný samgönguáætlun hefur nú verið kynnt og ljóst er að með tilkomu varaflugvallargjalds, sem þingmenn Norðausturkjördæmis börðust meðal annars ötullega fyrir, verður hægt að ráðast í brýnar stærri fjárfestingar í öryggisátt á þeim flugvöllum landsins sem eru í umsjón Isavia Innanlandsflugvalla. Áætlunin bíður nú umræðna og samþykkis á Alþingi áður en hægt verður að fara af stað með verkefni á alþjóðaflugvöllunum þremur á Akureyri og Egilsstöðum og í Reykjavík.

Undanfarin misseri hefur Isavia Innanlandsflugvellir unnið að breytingum á deiliskipulagi og hönnun með það að markmiði að setja upp ný aðflugsljós sem munu bæta öryggi fyrir Akureyrarflugvöll, með ljósalínu út í Pollinn. Fyrirhugað var áður að setja ljós á vinnsluhús ÚA og vöruhús Eimskips, en áhættumat sýndi að þær lausnir væru ekki nægjanlegar. Niðurstaðan varð að setja 420 metra ljósalínu norður frá enda flugbrautarinnar.

Þetta verkefni kallar á umtalsverða landfyllingu. Þegar Vegagerðin lagði göngustíg við Leiruveginn var gerð lítil fylling norðan vegarins og ídráttarrör lagt undir veginn, sem verður framlengt út í landfyllinguna. Þannig verður röskun á stígum í lágmarki vegna ljósaframkvæmdanna. Árið 2026 er markmiðið að halda áfram með jarðvinnuhluta verkefnsins.

Komið er að útgáfu nýs aðflugferils úr suðri svokallaðs RNP -AR og hann hefur verið samþykktur af Samgöngustofu. Icelandair er í samþykktarferli vegna sama verkefnis hjá SGS og munu hefja þjálfun á sínum Airbus flugvélum núna á næstu mánuðum, en eitthvað lengra verður í að Boeing Max vélar og Dashvélar í innanlandsflugi muni geta nýtt sér þessa ferla.

Mynd: Hörður Geirsson

Í flugstöðinni sjálfri er annað stórt verkefni í undirbúningi: nýtt innritunarkerfi, svokallað Entry Exit System, sem er rafrænt kerfi fyrir ferðamenn inn á Schengensvæðið. Skjástandar fyrir það kerfi taka mikið pláss í nýrri viðbyggingu, en tilgangurinn er að hraða afgreiðslu á landamærum, auka öryggi og tryggja skráningu um komu og brottför ferðamanna. Það hjálpar til við að koma í veg fyrir ólöglega dvöl. Kerfið er fyrir ríkisborgara utan Schengen og Evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal Sviss og Bretland. Innleiðingin hefur gengið vel á Keflavíkurflugvelli og vonast er til að það sama gildi á Akureyri, þó búast megi við einhverjum töfum á meðan samræma þarf ferla við landamæraeftirlit.

Bættar almenningssamgöngur til og frá flugvellinum eru einnig á döfinni. Í byrjun nýs árs verður leiðakerfi landsbyggðarinnar endurskoðað og strætó frá Húsavík, Egilsstöðum og Siglufirði mun stoppa við flugvöllinn í tengslum við áætlunarflug. Þetta mun hafa jákvæð áhrif fyrir íbúa á svæðinu og verður spennandi að sjá hvort erlendir ferðamenn muni einnig nýta sér þetta.

Norðurland fær góð meðmæli sem áfangastaður í landamærakönnun sem Rannsóknarmiðstöð ferðamála gerði nýverið á Akureyrarflugvelli. Ferðamenn sem komu með beinu flugi voru mjög ánægðir með áfangastaðinn – norðurljósin, náttúruna og gestrisni heimamanna. Könnunin var lögð fyrir farþega sem komu með beinu flugi frá Zurich, Amsterdam, Manchester og London. Það vegur þungt hjá ferðamönnum frá London og Manchester að geta flogið beint til Akureyrar. Yfir 40% þeirra sögðu að þeir hefðu ekki komið nema fyrir beint flug.

Einnig er vert að nefna niðurstöður könnunar sem easyJet gerði meðal farþega sinna, þar sem Akureyrarflugvöllur lenti í fjórða sæti með 83% ánægjueinkunn hvað varðar aðbúnað og þjónustu. easyJet hóf flug áður en breytingum á flugvellinum lauk og hefur séð aukna ánægju gesta, en starfsfólkið fær mikið hrós fyrir gestrisni og þjónustulund. Aukinn árangur í sölu Íslandsferða vekur áhuga annarra flugfélaga og þessi góða reynsla er kynnt fyrir öðrum flugrekendum. Beinn stuðningur bæði Isavia Innanlandsflugvalla og Flugþróunarsjóðs við flugfélög, að uppfylltum skilyrðum, er mjög mikilvægur og ánægjulegt var að sjá að framlög í Flugþróunarsjóð munu verða aukin í ár.

Lykilatriði er að fjölgun ferðamanna og lengri dvöl haldist í hendur við uppbyggingu innviða, eins og gistirýmis og afþreyingu, svo Norðurland geti vaxið sem spennandi áfangastaður fyrir gesti allt árið um kring.

Sigrún Björk Jakobsdóttir er framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla

Staða eldri borgara á Íslandi í árslok 2025

Björn Snæbjörnsson skrifar
29. desember 2025 | kl. 09:30

Dásamlegur aðalfundur — Látum verkin tala!

Katrín Oddsdóttir skrifar
22. desember 2025 | kl. 12:00

Listin að vera ósammála

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir skrifar
22. desember 2025 | kl. 10:00

Flugþróunarsjóður efldur

Ingvar Þóroddson skrifar
21. desember 2025 | kl. 11:00

Makríllinn vannýttur

Sigurjón Þórðarson skrifar
19. desember 2025 | kl. 06:00

Opið bréf til samgönguráðherra

Sigrún Gísladóttir skrifar
16. desember 2025 | kl. 21:00