Fara í efni
Umræðan

Ný líkamsræktarstöð í Glerárgötuna

Ásýnd hússins úr Glerárgötunni eftir áformaðar breytingar á hluta jarðhæðar í tengslum við nýja líkamsræktarstöð. Myndin er skjáskot úr umsókn vegna stöðvarinnar til skipulagsráðs.

Áform eru uppi um að breyta jarðhæð Glerárgötu 28 í líkamsræktarstöð. Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi fyrir byggingu líkamsræktarstöðvar voru tekin fyrir á fundi skipulagsráðs í liðinni viku. Skipulagsráð gerði ekki athugasemd við byggingaráform og vísaði afgreiðslu málsins til byggingarfulltrúa. Nýja líkamsræktarstöðin tengist Kötlu Fitness, sem rekur nú þegar sjö stöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Prentsmiðjan Ásprent, síðar Ásprent-Stíll, var starfrækt í umræddu húsnæði um árabil og síðan Prentmet-Oddi eftir kaup fyrirtækins á Ásprenti-Stíl við gjaldþrot þess. Á efri hæðum eru skrifstofu- og þjónustufyrirtæki. Nú er í undirbúningi að breyta hluta jarðhæðar húsnæðisins í líkamsræktarstöð með aðkomu bæði úr Glerárgötunni og bakatil úr Hvannavöllum. Prentmet-Oddi verður þó áfram á sínum stað á hluta jarðhæðarinnar, undir turninum eins og sjá má á mynd neðar í fréttinni. 

Ásýnd Glerárgötu 28 séð úr Hvannavöllum, með fyrirhuguðum breytingum vegna byggingar líkamsræktarstöðvar. Myndin er skjáskot úr umsókn til skipulagsráðs.

Einhverjar breytingar verða á ytra útliti hússins og meðal annars sótt um að stækka anddyri, glerja suðurenda að Glerárgötu og hafa aðstöðu við innkomu í stöðina. Þá munu gufu og tæknirými bætast við austurgafl hússins, einnig millipallar fyrir sturtur og sali. Jarðhæðin er rúmir 1.507 fermetrar, en stækkar um rúma 68 fermetra gangi áformin eftir samkvæmt innsendum teikningum.

Úr Glerárgötunni verður hægt að ganga inn um anddyri þar sem verður veitingaaðstaða, sjálfsalar og fleira. Þar verður inngangshlið inn á æfingasvæðið með augnskanna. Innkoma með augnskanna fyrir viðskiptavini verður einnig Hvannavallamegin. Æfingasvæðið verður með tveimur lokuðum æfingasölum, tækjasal og lyftingasal, ásamt búningsklefum og sturtum. Þá er útisvæði tengt búningsklefunum, með heitum og köldum pottum ásamt gufubaði. 

Miðað er við að stöðin rúmi að hámarki 130 gesti og að starfsmenn verði 6-8. 

Glerárgata 28 þar sem Ásprent, síðar Ásprent-Stíll og voru með starfsemi á jarðhæð og nú Prentmet-Oddi. Nú er í undirbúningi að breyta hluta jarðhæðarinnar í líkamræktarstöð, en Prentmet-Oddi verður áfram á sínum stað, undir turninum.

Katla Fitness að baki stöðinni?

Eins og lesendur muna ef til vill voru uppi hugmyndir um að opna mathöll í þessu húsnæði í Glerárgötunni. Akureyri.net fjallaði stuttlega um þau áform í janúar 2022, en eigandi húsnæðisins, Vilhelm Patrick Bernhöft, sagði þá að málið væri á algjöru frumstigi. Hann hafði þá fengið fyrirspurn frá aðila sem hafði áhuga á að opna þar mathöll. 

Félag að nafni Katla Fitnesss Akureyri ehf. er skráð með lögheimili í Glerárgötu 28. Félagið hét áður Prentsmiðjan mathöll ehf. samkvæmt gögnum í fyrirtækjaskrá Ríkisskattsjóra 2022 og 2023. Eigandi þess er skráður Kristján Kristjánsson. Guðmundur Ágúst Pétursson er skráður stjórnarformaður.

Katla Fitness rekur nú þegar sjö líkamsræktarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Sú fyrsta var opnuð 2011 og segir á vef fyrirtækisins að það hafi komið inn með nýjung í áskriftarmódeli miðað við það sem tíðkaðist á markaðnum og stuðlað að verðlækkun á aðgangi að líkamsrækt.

Mikilvægara en veiðigjöldin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 15:00

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Jón Stefán Jónsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 08:50

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 14:00

Verulegt rými til framfara

Árni Guðmundsson skrifar
02. júlí 2025 | kl. 11:00

Látið hjarta Akureyrar í friði

Guðjón Heiðar Pálsson skrifar
01. júlí 2025 | kl. 06:00

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Eyjólfur Ármannsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 09:45