Fara í efni
Umræðan

Megum við lifa mannsæmandi lífi?

Það getur verið næðingssamt á toppnum þegar náhvelin svamla allt um kring og hælbítarnir flæða á eftir þér sem fimir maurar í ætisleit. Þetta er gjaldið fyrir þá upphefð að vera Íslendingur; bestur og fremstur á nánast öllum sviðum. Þjóð sem á stórt og gullfallegt land, ótrúleg auðæfi í heitu og köldu vatni, ám og vötnum, vindi og gjöfulum fiskimiðum, hreinu andrúmslofti, sauðkindinni og einstakri sögu tungu og menningar. Þjóð sem er ávallt hársbreidd frá því, eins og ég hef áður minnst á, að vinna Júróvisjón og hvers konar Evrópu- og heimsmeistaramót í íþróttum, fegurð, hreysti og gáfum. Ísland er nánast greypt í gull.

Eigum við kannski að róa okkur aðeins? Við erum dálítið eins og nýríki Nonni, fengum skyndilega fullt af peningum eftir stríð og fórum að haga okkur líkt og sykurfíknir krakkar í sælgætisbúð. Það er ekki nema tæplega mannsaldur síðan. Við erum mörg hver enn á unglingastiginu og höldum að við lifum að eilífu og lífsgæðin séu óþrjótandi. Að það skuli skyndilega vanta rafmagn hér, heitt vatn þar, fisk í árnar, heilbrigt sauðfé, húsnæði, vegi, virðingu fyrir íslenskri tungu og ferskara andrúmsloft hlýtur að vera sem hrollköld vatnsgusa framan í útblásinn Íslending.

Nú ætlum við að leggja landið og þetta örsamfélag og veikburða innviði undir gígantískan leiðtogafund. Skiljanlega. Við erum jú leiðandi afl í heiminum, verðandi flotastöð fyrir kjarnorkukafbáta, höfuðmiðstöð norðurslóða, helsta gátt Kínverja og Rússa til unaðssemda Evrópulanda og yfirhöfuð ákaflega gildandi þjóð á alþjóðamælikvarða. Leiðtogafundur upp á einhverja milljarða og allnokkra áhættu er náttúrlega bara pís of keik. En þetta er kannski bara hið besta mál.

Ísland hefur löngum verið draumaland hinna svokölluðu athafnamanna sem geta fengið lán fyrir alls konar rekstri, keyrt hann í þrot og fríað sig ábyrgð og skuldum og byrjað aftur með nýja kennitölu. Þá hafa skattsvik löngum verið þjóðaríþrótt enda erum við í grunninn öfgafullt einstaklingshyggjufólk. Við erum sömuleiðis meistarar í því að flytja inn alls konar óþarfa eins og orkudrykki og nikótínpúða í gríðarlegu magni með blússandi auglýsingum og fjölmiðlaumfjöllun og sumir græða á tá og fingri með því að búa til nýja fíkla (viðskiptavini). Ofan á þetta bætast hinar margvíslegu vefverslanir sem selja okkur snákaolíu á degi hverjum á uppsprengdu verði og gjaldeyririnn streymir úr landi sem stórfljót.

Tásur á Tene? Nej, for helvede. Herra seðlabankastjóri, það er varla verðbólguhvetjandi að safna sér fyrir utanlandsferð eftir höft og heimóttarskap í kóvíði. Það hlýtur að vera önnur ástæða fyrir því að mánaðarleg afborgun mín af húsnæðisláninu hefur hækkað um 143 þúsund á rúmu ári. Ætlarðu svo að hækka vextina aftur um eitt prósent núna í maí? Hvers eigum við skuldarar að gjalda? Og hvaða eiga grey bankarnir að gera við allan þennan gróða? Jú, sennilega best að selja bankana til einstakra vildarvina sem fá þá að njóta auðæfanna og þurfa ekki að hafa áhyggjur af ævikvöldinu. Hæ, pabbi. Viltu einn milljarð eða tvo?

Skítt með mig. Ég er gamalt skar með meðaltekjur og hef upp að vissu marki efni á því að borga bankanum okurleigu fyrir að hafa fengið peninga að láni. Ég hef meiri áhyggjur af unga fólkinu. Bæði því sem er á leigumarkaði, er að leita að leiguíbúð og stofna fjölskyldu eða að reyna að kaupa íbúð. Dæmið gengur bara ekki upp. Hvers vegna ekki? Jú, vextirnir eru orðnir svo háir, fólk stendur ekki undir afborgunum í greiðslumati, mörg okkar eru dæmd til þess að húka heima eða í allt of lítilli íbúð miðað við barnafjölda. Önnur sleppa í gegnum nálaraugað en eru þá dæmd til að taka verðtryggð lán sem éta eignarhlutinn á fáeinum árum.

Mér finnst líka með ólíkindum að það skuli vera fjárhættuspil að taka íbúðalán. Þjónustufulltrúar bankanna mega ekkert segja, benda bara á reiknivélar. Óverðtryggt, verðtryggt, blandað, jafngreiðslulán eða jafnar afborgarnir, breytilegir eða bundnir vextir. Svo er verðbólgan sett inn og lukkuhjólinu snúið. Ég tapaði fyrir tæpum þremur árum á því að veðja á óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum en mér finnst bara óskiljanlegt að þetta skuli þurfa að vera svona. Hvers vegna er ekki bara til eitthvað sem heitir íbúðalán og er með ákveðna vexti í lægri kantinum og jafnvel eitthvert þak? Hvers vegna er fólk látið gambla með ævisparnaðinn?

Ég skil að einhverju leyti þá sem gjalda varhug við innstreymi flóttafólks og erlends vinnuafls til þess að standa undir grunnatvinnuvegunum því allt þetta fólk þarf húsnæði og því er einhvern veginn reddað meðan börnin okkar grípa í tómt – eins og dæmið er stundum sett upp. Þetta er viðkvæmt umræðuefni en tengist vissulega húsnæðismálum á breiðum grundvelli. Öllum ætti hins vegar að vera ljóst að við höfum ekki innlent vinnuafl til að þjónusta ferðamenn eða sinna fjölmörgum öðrum störfum og verðum því annað hvort að draga saman seglin eða treysta enn frekar á erlent vinnuafl.

Ég fæ bara engan botn í það – fyrirgefið hvað ég er einfaldur – af hverju þessi ríka og ofursnjalla þjóð getur ekki séð þegnum sínum fyrir mannsæmandi húsnæði. Hvað er málið? Má byggja eða má ekki byggja? Má lána eða ekki lána? Hvað segir verðbólguvaktin? Mega nýríki Nonni og félög hans sölsa undir sig meginþorra þess húsnæðis sem byggt er og leigja það út á okurkjörum? Eru engin mörk? Hvers vegna getur unga fólkið ekki fengið húsnæði gegn viðráðanlegu mánaðargjaldi? Þetta má heita leiga, kaupleiga, kaup, búseturéttur eða hvað sem er, bara að mánaðargjaldið fari ekki yfir þolmörk fjölskyldunnar sem í hlut á. Við verðum jú að fá að lifa í þessu allsnægtaþjóðfélagi.

Oft sé ég eitthvað gáfulegt á Kringvarp Föroya en það getur varla verið að þessi smáþjóð, örþjóð, eyjaskeggjar, slái okkur við í klárheitum. Samt minnir mig að ég hafi lesið eitthvað um leiðbeinandi reglur um farsímanotkun í skólum þar og takmarkanir á túrisma svo ekki þurfi að fórna landi undir ágang eða flytja inn fleira starfsfólk til að sinna ferðamönnunum. Mér fannst einhvern veginn eins og frændur okkar væru þarna að leita jafnvægis og reyna að setja ákveðin mörk á meðan Íslendingar vilja hafa allt opið, frjálst og helst reglugerðalaust. Villta vestrið, gjörið svo vel. Rímar vel við agaleysið sem ég ræddi í síðasta pistli.

Ég er hársbreidd frá því að flytja lögheimili mitt til Færeyja. Já, já, farið hefur fé betra. Auk þess er fé í Færeyjum með mislanga fætur af því að standa í stöðugum halla. Það er önnur saga. Nei, mér er einfaldlega fyrirmunað að skilja hvers vegna við getum ekki haldið áfram að lifa mannsæmandi lífi á fiskveiðum, ferðaþjónustu og hinum margvíslegu atvinnugreinum án þess að rústa velferðarþjóðfélaginu. Af hverju erum við svona vond við unga fólkið okkar, lágtekjufólk, barnafjölskyldur, meðaltekjufólk, skuldara, öryrkja og lífeyrisþega? Er þetta mannvonska eða einhvers konar kerfisnauð? Nei, við erum ekki ill en það er eitthvað rotið í kerfinu og myglan víðar en í vatnssósa skólum.

Stefán Þór Sæmundsson er kennari og rithöfundur

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00