Fara í efni
Umræðan

Lummi og Krummi

Ég hafði ekki hitt hann í tuttugu ár. Svakalega sem hann var grannur og skorinn, stæltur og ljómandi af hreysti. Samt eitthvað svo taugaveiklaður og flóttalegur. Jú, ég mundi eftir að hafa séð hann skokka um götur bæjarins. Alltaf með annað augað á úrinu. Greinilega mjög meðvitaður um það að reyna að bæta tímann. Að minnsta kosti fór hann svo hratt yfir að ég hafði ekki náð tali á honum fyrr.

„Nei, Lummi, blessaður. Gaman að sjá þig. Ég hef örugglega ekki hitt þig í hvað… tuttugu ár.“

Hann hnyklaði brýnnar en svo birti aðeins yfir honum. „Stefán?“

„Jebb, hér og nú, aftur og nýbúinn, ávallt viðbúinn, rúinn og snúinn og búinn að vera,“ grínaðist ég eins og gamla daga.

Augu hans algjörlega tóm.

Hmm, gott og vel. Langt síðan og allt það. „Heyrðu, já, langt síðan síðast, Lummi. Þú lítur vel út. Hvernig líður þér?“

Hann leit á úrið. Greinilega svokallað snjallúr. „Ég er bara góður. Fínn hvíldarpúls. En þú?“

„Bara ágætur. Alltaf í boltanum, eða þannig,“ byrjaði ég en fékk engin viðbrögð. „Og þú bara í fantaformi?“

Hann leit aftur á úrið. „Já, ég er í topp 96 miðað við aldur,“ sagði hann og þuldi upp einhverjar staðreyndir um vegalengdir, tíma, þyngd, súrefnismettun og annað sem ég náði ekki alveg.

„Jahá,“ sagði ég bara og þóttist vera með á nótunum. „Þú hlýtur að sofa vel eftir alla þessa hreyfingu.“

Lummi leit á úrið og tók svo upp símann. „Já, svefninn í nótt var 8 tímar og 10 mínútur, þar af 2 tímar í djúpsvefni, rúmlega 3 í léttum svefni og tæpir 3 í REM. Öndunin frá 11 upp í 14 og hvíldarpúlsinn 51.“

Ég starði forviða á þennan gamla skólabróður.

„Eh, flott. En hvað með konuna, Rannveigu? Hvernig hefur hún það? Enn að vinna í bankanum?“

Nú kom mér það ekki lengur á óvart að Lummi skyldi leita svara í snjalltækjunum. Hann þuldi upp staðsetningu eiginkonu sinnar, hvernig hún hafði sofið og hvar hún stæði í hreysti og líkamlegu atgervi. Þetta voru allt mjög sannfærandi tölur og greinilega fyrirmyndarhjón þarna á ferðinni. Rannveig var reyndar skilgreind í hópi 15% þeirra bestu miðað við kyn, aldur og húðlit en skoraði kannski ekki alveg eins hátt og eiginmaðurinn.

„Nei, hún er löngu hætt í bankanum,“ svaraði hann svo. „Hún er með einkaþjálfun á netinu og YouTube rás og svo erum við saman með hlaðvarp um hreyfingu og mataræði.“

Ég reyndi að láta ekki á neinu bera en ég er víst sekur um dálitla fordóma í garð áhrifavalda, Tik-Tok stjarna og annarra samfélagsmiðla-„stjarna“ þegar viðhorf mín til vinnu eru skoðuð.

„Frábært hjá ykkur, Lummi,“ sagði ég með yfirborðskenndri einlægni. „Og bara æðislegt hvernig þú snerir blaðinu við eftir að þú fórst þarna í meðferðina.“

„Takk,“ sagði hann og leit á úrið. „Sjö ár og 36 dagar í dag án áfengis, 28 kíló farin, BMI úr 31 í 18, súrefnismettun úr 87 í 99…“

Hann malaði eitthvað áfram en ég missti þráðinn enda gjörsamlega áhugalaus um svona vísindi, mælingar og tölur og allt þetta hlaupaæði.

„Annars hef ég ekki verið kallaður Lummi lengi, það eru allir löngu hættir því,“ sagði hann skyndilega og nú var kominn alvörutónn í röddina.

Ég roðnaði og bölvaði sjálfum mér fyrir hugsunarleysið. Þetta uppnefni átti auðvitað ekki lengur við þótt það hefði orðið að gælunafni. Karl hafði verið kallaður Lummi í Gagganum af því hann þótti svo lummó, svona í feitara lagi og barnalegur, oft svitalykt af honum og svo fór hann að drekka eins og svampur og batnaði ekki við það. Einhvern veginn pældi maður ekki í þessu þegar við vorum komnir í Menntaskólann og svo út í lífið, manni fannst Lummi bara vera ágætis gælunafn og gleymdi uppruna þess þótt Karl héldi áfram að vera í yfirþyngd og sérkennilegur í háttum.

„Æ, fyrirgefðu. Ég vissi það ekki. Hvað ertu það kallaður núna? Bara Kalli?“

„Nei, Krummi.“

Hann bretti upp ermarnar og í ljós komu listilega gerð húðflúr af hröfnum. Svo svipti hann upp bolnum og opinberaði mikið hrafnager og það var engu líkara en krummarnir hreyfðust á flugi þegar hann hnyklaði magavöðvana.

Ég starði dolfallinn á flúraðan líkama Lumma, ég meina Krumma. Mér vafðist tunga um tönn.

„Þetta er ástæðan, ef þú varst að velta fyrir þér hvers vegna ég er kallaður Krummi,“ sagði hann með auðheyrilegu stolti.

Nú er það svo að ég er álíka hrifinn af húðflúrum og götum, prjónum, sílíkoni, bótoxi og ámóta inngripum í mannslíkamann en ég muldraði einhver hrósyrði til að þóknast þessum gamla félaga.

Hann hafði greinilega gjörsamlega skipt um lífsstíl eftir að hann hætti að drekka og fór í meðferð. Kannski var þetta hlaupaæði og heilsuræktarbrölt ný fíkn og jafnvel húðflúrin líka. Veit það ekki. Lífið getur verið ansi öfugsnúið. Lummi feiti orðinn grannur og stæltur Krummi, heilsufrömuður og áhrifavaldur. Ég hins vegar, gamla íþróttahetjan, orðinn hálfgerður hjassi og kjaga um með verki og bólgur út um allt og hugga mig með súkkulaði og lakkrís og uppsker bara meiri verki fyrir vikið.

„Já, þú hefur farið í rosalegt átak meðan ég er að verða algjör hjassi,“ tautaði ég og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að losna úr þessum aðstæðum og koma mér heim.

Krummi steig skrefi nær mér. „Þú segir það. Hvernig litist þér þá á að vera kallaður Hjassi? Eða Stebbi hjassi eða Stebbi feiti? Yrðir þú ekki hamingjusamur með það?“

Ég roðnaði og blánaði og gaf frá mér stunu. Þarna hitti hann á ferlega auman punkt. Hvernig átti ég að snúa mig út úr þessu?

Ég leit snöggt á gamla Pierpoint úrið mitt og faldi það svo aftur undir erminni. „Heyrðu, ég víst kominn í blóðsykurfall og sökkið… bara sökkar alveg. Ég verð að þjóta.“

Þar með rauk ég burt með mína skömm og flýtti mér heim og hámaði í mig stórt lakkríssúkkulaðistykki.

Það er ekkert spaug að vera tekinn svona gjörsamlega í bakaríið en þetta fær mann til að hugsa. Kannski ætti ég að fara að hlusta á hlaðvarpið þeirra Rannveigar og Krumma.

Höfundur er íslenskukennari og fyrrum blaðamaður með skáldagrillur

Blöndulína 3, jarðstrengsumræðan og framtíðin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
30. apríl 2024 | kl. 10:10

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30