Fara í efni
Umræðan

Kveðja úr aftursætinu

Nú þegar formannskjör KSÍ stendur fyrir dyrum er fólki heitt í hamsi. Þó það sé réttur hvers og eins að setja fram sína skoðun á mönnum og málefnum væri það til mikilla bóta að stuðst væri við staðreyndir.

Höfundur að skoðunarpistlinum „Vill knattspyrnuhreyfingin fá Jón Rúnar sem aftursætisbílstjóra?” sem birtist á fotbolti.net [og Akureyri.net] fer hörðum orðum um störf og tilgang ÍTF, en því miður er í greininni að finna staðlausa stafi og rangfærslur.

Mér er því skylt að leiðrétta ýmislegt sem rangt er farið með.

Í stjórn ÍTF sitja sex karlar og ein kona sem öll vilja veg íslenskrar knattspyrnu sem mestan. Það hafa þau öll sýnt með sjálfboðaliðastarfi sínu í þágu hreyfingarinnar um árabil, bæði hjá sínum félögum og í starfi ÍTF.

ÍTF hefur ekki, þar til nú, haft neinar aðrar tekjur en félagsgjöld og framlag KSÍ til rekstrar skrifstofu samtakanna og engir fjármunir runnið til félaganna, hvorki til karla- né kvennaliða. Það má hins vegar við þetta bæta að nú þegar ÍTF hefur tekið við sölu réttinda, gerist það í fyrsta skipti að ágóði af sölunni rennur til kvennaliða. Eitt er þó víst að ekki hafa áður verið gerðir viðlíka samningar innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi og það ber að þakka ekki lasta.

Formaður ÍTF á sæti í stjórn KSÍ samkvæmt lögum KSÍ. Formaður ÍTF vék sæti þegar stjórn KSÍ fór frá í aðdraganda aukaþings KSÍ sl. haust. Formaður ÍTF gekk svo inn í stjórn KSÍ sem nú situr, sem og gerðu 3 aðrir stjórnarmenn þá fráfarandi stjórnar.

Greinarhöfundur fer mikinn er hann lýsir miður góðum mannkostum þeirra sem starfa innan ÍTF og er nær ómögulegt að átta sig á því við hverja hann á. Ég vil þó skilja greinarhöfund á þann veg að hann eigi við einhverja ákveðna einstaklinga.

Mér er það hulin ráðgáta á hvern hátt greinarhöfundur finnur til fyrirsögn á pistil sinn en þar segir, „Vill knattspyrnuhreyfingin fá Jón Rúnar sem aftursætisbílstjóra?“ Ég geng að því sem vísu að sá Jón Rúnar sem greinarhöfundur á við, sé undirritaður. Greinarhöfundur verður að hafa það sem honum sýnist best en ekki veit ég til þess að við greinarhöfundur þekkjumst sérstaklega.

Fæst erum við gallalaus en það er hins vegar þekkt að þeir sem manninn minnst þekkja hafa hvað mestar skoðanir á honum og þá oftast neikvæðar. Byggja það raunar oftast á því sem þeir hafa heyrt frá öðrum, sem þá heldur ekki þekkja þennan sama mann.

Eitt er þó hvað verst í þessu. Greinarhöfundur getur varla á heilum sér tekið er hann lýsir mannvonsku þeirra aðila er fara fyrir þessum 28 liðum sem mynda ÍTF. Þar lýsir hann aðför þessara ómenna gegn stjórnarmönnum KSÍ, að þessir sömu aðilar hafi í raun og sann eyðilagt mannorð þeirra sem skipuðu stjórn KSÍ og það jafnvel úr þeirra eigin félögum.

Það er jú oft erfiðara að koma auga á bjálkann en flísina.

Ég skil hugrenningar greinarhöfundar þannig að pistillinn sé ætlaður til stuðnings öðrum frambjóðandanum til formanns KSÍ. Ég er þeirrar skoðunar að árangursríkara hefði verið að lýsa mannkostum frambjóðandans enda trúi ég því að nær öll innan knattspyrnuhreyfingarinnar fyrirlíti áróður sem þennan.

Það er þakkarvert að tveir mætir einstaklingar hafi gefið kost á sér til að gegna starfi formanns KSÍ. Ég óska þeim góðs gengis í komandi kosningum.

Kveðja frá meintum aftursætisbílstjóra.

Jón Rúnar Halldórsson er stjórnarmaður í ÍTF, hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum.

Göngugatan – af hverju er þetta svona erfitt?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. maí 2023 | kl. 20:00

Leitin að fullkomnun

Skúli Bragi Geirdal skrifar
30. maí 2023 | kl. 14:00

Ungir iðkendur íþróttafélaga mæta afgangi hjá bæjarstjórn Akureyrar

Guðmundur Oddsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 08:00

Erindi í messu á degi eldri borgara

Jóhannes Geir Sigurgeirsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 06:00

Essin stóru í uppstigningardagsviku

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 16:00

Meira um brjóst og rassa

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 14:14