Fara í efni
Umræðan

Kemur þú fram við þig eins og þú kemur fram við þá sem þú elskar?

Hvernig kemur þú fram við þig þegar þú gerir mistök? Hvernig talar þú til þín á þeim stundum?

Kemur þú eins fram við fólkið í kringum þig þegar það gerir mistök? Segirðu sömu hlutina við þau og þú gerir við þig?

Hjá okkur lang flestum er munur á því hvernig við mætum okkur sjálfum þegar við gerum mistök og hvernig við mætum fólkinu okkar. Við erum nefnilega líklegri til að draga okkur niður, sýna minni skilning og meiri dómhörku. Með niðurrifi og ósanngjarnri gagnrýni völdum við sjálfum okkur vanlíðan.

Rannsóknir sýna að sjálfsumhyggja getur m.a. bætt heilsu og heilsutengda hegðun, aukið vellíðan og dregið úr einkennum kvíða og þunglyndis.

Eins og orðið gefur til kynna þá snýst sjálfsumhyggja um þá umhyggju sem við sýnum okkur sjálfum. Sjálfsumhyggja snýst um að leyfa sér að vera mannlegum og minna sig á að það er eðlilegt að upplifa allar tilfinningar. Sjálfsumhyggja felur í sér að við sýnum okkur þá umhyggju í verki sem við sýnum fólkinu í kringum okkur þegar það þarf á að halda.

Ein mikilvægasta setningin sem við getum spurt okkur sjálf er: „Hvað þarf ég núna?“

Það er nauðsynlegt að staldra við, taka eftir því hvernig manni líður og gangast við því sem er þá stundina, hvernig sem sú tilfinning lítur út.

Mikilvægur þáttur sjálfsumhyggju er einmitt núvitund. Það að geta verið með hugsunum sínum og tilfinningum án þess að dæma eða skilgreina. Með því að staldra við og hlusta.

Til þess að geta byrjað að sýna sér umhyggju þarf að skapa rými til að heyra í sjálfum sér og skilja þarfir sínar.

Sú manneskja sem við verjum mestum tíma með um ævina erum við sjálf. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum okkur sjálfum góður og uppbyggilegur félagsskapur. Að við tölum fallega til okkar, lyftum okkur upp og hrósum fyrir það sem við gerum vel og klöppum okkur á bakið og tökum utan um okkur sjálf þegar illa gengur.

Sjálfsumhyggja snýst ekki um að finnast við vera frábær alltaf. Hún snýst um að tengjast okkur sjálfum og gangast við okkur með öllum okkar kostum og göllum.

Hvernig liti það út fyrir þér ef þú myndir sýna þér sömu góðvild og þú sýnir fólkinu þínu? Að þú mættir þér með sama skilningi, umhyggju og þolinmæði þegar eitthvað bjátar á.

Að þú værir þinn eigin besti vinur?

Guðrún Arngrímsdóttir og Hrafnhildur Reykjalín eru stofnendur Sjálfsræktar heilsumiðstöðvar á Akureyri. Þær vinna út frá aðferðum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar til þess að auka velfarnað í daglegu lífi.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45