Fara í efni
Umræðan

Hvernig varð forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri til?

Fyrir rúmlega ári síðan samþykkti bæjarstjórn samhljóða að vinna samkvæmt forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Forgangsröðunin varð til í starfi starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja og skilað hópurinn af sér skýrslu. Það er eitt að forgangsraða, það er annað á hvaða forsendum forgangsröðunin er gerð.

Þegar ég las skýrslu hópsins vöknuðu spurningar sem ég hef sent formanni frístundaráðs sem sendi þær til sviðstjóra málaflokksins. Nú eru um 45 dagar liðnir og ekki sjáanlegt að fyrirspurninni eigi að svara. Því spyr ég á þessum vettvangi formann frístundaráðs, Evu Hrund Einarsdóttur sömu spurninga:

Í erindisbréfi starfshóps um mat á kostnaði og sviðsmyndum varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri (2019) segir að hópurinn eigi að setja upp nokkrar sviðmyndir um röð uppbygginga. Í stað þess að gera eins og fyrir var lagt ákveður hópurinn að leggja fram eina sviðsmynd og leggja hana sem stefnu um forgangsröðun. Þannig fer starfshópurinn út fyrir umboðið sem bréfið veitir honum. Fyrir því hljóta að hafa legið ríkar áherslur. Hverjar voru þær og hvers vegna var þetta gert?

Í lokaorðum segir að fjölmörg verkefni hafi borist inn á borð starfshópsins sem ekki eru nefnd, getur þú nefnt þau og hvernig þau voru unnin?

Í lokaorðum segir líka að hlutverk hópsins hafi verið að forgangsraða út frá forsendum sem eru tíundaðar í skýrslunni. Ég spyr, hvar segir að hlutverk hópsins hafi verið að forgangsraða út frá forsendunum sem tíundaðar eru í skýrslunni og hvaða forsendur er um að ræða?

Í skýrslunni segir að grundvöllur forgangaröðunar við gerð forgangslistans hafi verið stigagjöf sem grundvallaðist á mikilvægi hvers þáttar fyrir bæjarfélagið í heild. Get ég fengið afrit af niðurstöðu stigagjafarinnar, hvað hver þáttur í hverju verkefni fékk mörg stig?

Einnig óska ég eftir afritum af fundargerðum starfshópsins, líka fundargerðum vegna formlegra viðtala sem hópurinn tók við formenn félaga.

Færsla á knattspyrnuvelli KA af Eyrinni upp á Brekku er eitt brýnasta málið í uppbyggingu íþróttamannvirkja s.k. skýrslunni. Í rökstuðningi segir að mikil viðhaldsþörf sé komin á Akureyrarvöll. Starfshópurinn hlýtur að hafa einhverjar skjalfestar upplýsingar um þá viðhaldsþörf, getur þú upplýst mig um hana?

Í rökstuðningi segir einni að gríðarleg fjölgun hafi orðið hjá KA undanfarin ár, samt skv. tölulegum upplýsingum í skýrslunni þá er meðlimatala milli KA og Þórs rétt um hundrað einstaklingar en það hlutfall hefur verið lengi á milli félaganna. Hver er þessi gríðarlega fjölgun, nefndin hlýtur að hafa haft aðgang að tölfræðilegum gögnum þessari fullyrðingu til grundvallar?

Sú staðreynd að uppbygging á gervigrasvelli sem er bæði upphitaður og flóðlýstur á félagssvæði KA skuli ekki valda aukningu á framboði á æfinga og keppnistíma í knattspyrnu á Akureyri, hvað segir það um þann ávinning fyrir bæjarbúa sem sú framkvæmd verður? Var sá þáttur ekki sá sem þyngst vó í mati á mikilvægi framkvæmda?

Birt í ítrekaðri von um svar.

Geir Hólmarsson er áhugamaður um íþróttastarf.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15