Fara í efni
Umræðan

Hvernig má það vera?

Á dögunum var tilkynnt um úrslit í kjöri íþróttamanns eða íþróttamanna ársins á Akureyri. Að undanförnu hefur kjörið verið tvískipt þ.e. karla og kvennaflokkur í stað eins sem áður var. Deila má um hvor aðferðin sé betri, en að mínu mati er það varla í þágu kvenna að taka af þeim möguleikann að sigra karlmann. Eru ekki konur menn og þar með færar til að bera titilinn íþróttamaður?

Annars er þetta kjör virðingarvert og margir íþróttamenn fengið verðuga viðurkenningu fyrir hin ýmsu afrek í gegnum árin.

Einn er þó sá íþróttamaðurinn sem ég hef lengi beðið eftir að fengi sína viðurkenningu og var næsta viss um að yrði fyrir valinu að þessu sinni. Handboltakonan Martha Hermannsdóttir.

Hún á ótrúlegan feril að baki. Lengi framan af skrapaði hún botninn með KA, ýmist í botnbaráttu efstu deildar eða í baráttu um að komast upp úr neðri deildinni. Hún gafst þó aldrei upp og smám saman fór sól hennar að hækka á lofti og hefur aldrei skinið skærar en á síðasta ári.

Þegar hún á gamals aldri var í fyrsta sinn valin í landsliðið, varð hún að láta sér 3. sætið í kjörinu lynda á eftir tveim kraftlyftingamönnum sem greinilega höfðu hitt á réttu fæðubótarefnin. Síðan þá hefur kvennalið KA/Þórs í handbolta unnið allt sem hægt er að vinna og ekkert lát virðist vera á þeirri velgengni þar sem Martha er leiðtogi og lætur ekkert á sjá. Ekki kann ég hennar sögu alla sem ég veit þó að er einstök. Utan handboltans hefur hún stofnað fjölsyldu, eignast börn, fengið sinn skerf af meiðslum, lært tannlækningar, rekur eigin tannlæknastofu og ég veit ekki hvað og hvað.

Ef hún flokkast ekki undir kvenhetju þá veit ég ekki hvað þarf til.

Loks má benda á að undir hennar forystu hefur KA/Þórs liðið sýnt að þessi félög geta unnið saman, merkilegt nokk.

En nei, ekki varð hún fyrir valinu að þessu sinni og ekki svo mikið sem tilnefnd að því er ég best veit. Það er þó gott að vita að Akureyringar eigi slíkt úrvals íþróttafólk að hún komi ekki til greina.

Þorleifur Ananíasson er KA maður og fyrrverandi handboltakappi.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15