Fara í efni
Umræðan

Hin söluvænlega enska

Í gær sendi Nói Siríus frá sér yfirlýsingu vegna athugasemdar Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emeritus, við heitið Bíó kropp – Butter & salt. Í yfirlýsingunni segir að hugmyndin hafi verið að „tengja vöruna við þá stemmningu (sic) sem hún á að skapa, sem er bíó, popp og auðvitað bragðið á vörunni.“ Sem sagt, ef maður vill huggulega stemningu þá notar maður ensku. Því miður er þetta hvorki einsdæmi né alveg nýtt að enskan sé talin söluvænni en íslenskan. Fyrir nokkrum árum, þegar styttast fór í opnun H&M á Íslandi birtist risastórt skilti í miðbæ Reykjavíkur þar sem stóð: Grand opening. See you at Smáralind. August 26. Nú þykir mér ólíklegt að erlendir ferðamenn hafi verið markhópurinn enda flest dýrara á Íslandi en í heimalöndum þeirra og auk þess keyptu Íslendingar þá þegar meira af fötum í H&M búðum erlendis en í nokkurri búð á Íslandi svo það má gera ráð fyrir að Íslendingar yrðu helsti viðskiptahópurinn. En samt var þessi risastóra auglýsing á ensku. Af hverju? Taldi fyrirtækið líklegra að Íslendingar myndu mæta ef auglýsingin væri á ensku? Var verið að færa útlönd nær Íslandi? Af og til eru auglýsingar birtar á ensku þótt þær séu ætlaðar íslenskum neytendum. Ég man eftir auglýsingu frá alíslenskri kvenfataverslun sem fyrir nokkrum misserum auglýsti Mid season sale í dagblaði. (Og farið í Smáralind á útsölutíma; meira en helmingur verslana þar auglýsir Sale! í gluggum.) Ég man líka þessa frá bílasalanum sem keypti heilsíðuauglýsingu með fyrirsögninni Break out from the everyday. Og svo voru það tónleikarnir til heiðurs Johnny Cash. Þeir kölluðust Tribute concert þótt þá væri löngu farið að tala um heiðurstónleika. Svo var það matvöruverslunin sem auglýsti Happy Thanksgiving þótt íslenska orðið þakkargjörðarhátíð sé alveg ágætt og að allur sá hópur Íslendinga sem búið hefur vestra sé sennilega stærri en hópur hingaðfluttra Ameríkana.

Eins og Eiríkur hefur bent á oftar en einu sinni í pistlum sínum eru það ekki einstaka enskuslettur sem setja íslenskuna í hættu heldur þetta viðhorf margra að enskan sé á einhvern hátt meira aðlaðandi, gagnlegri og/eða svalari en íslenska; íslenska sé jafnvel hallærisleg og leiðinleg. Þetta er það sem maður sér frá sumum framleiðendum og söluaðilum sem virðast telja það söluvænna að nota ensku en íslensku þótt viðskiptahópurinn sé Íslendingar. Þarf að minnast á Air Iceland Connect?

Ekki síður stafar hætta af því viðhorfi að Íslendingar kunni allir meira og minna ensku og því sé í lagi að grípa til enskunnar ef íslenska orðið stendur á sér. Látum vera að fólk grípi til ensks orðs ef ekkert íslenskt er til en í langflestum tilfellum eru til ágætis íslensk orð sem einhverra vegna eru hreinlega ekki notuð. Í vikunni heyrði ég t.d. viðmælanda í sjónvarpsþætti nota orðið topic þótt íslenska orðið umræðuefni sé að sjálfsögðu algjörlega fullnægjandi. Ekki er heldur langt síðan sérfræðingar í öðrum sjónvarpsþætti töluðu um singer í stað söngvara. Og það er einfaldlega ekki í lagi. Í fyrsta lagi vegna þess að það er óvirðing við íslenskuna og í öðru lagi vegna þess að það kunna einfaldlega ekki allir Íslendingar ensku. Elsta kynslóðin okkar fékk t.d. enga eða mjög takmarkaða enskukennslu og fjölmargir sem gengu í skóla þegar enskukennsla hófst við tólf ára aldur og skólaskyldu lauk við þáverandi áttunda bekk fengu kannski þriggja ára nám í ensku. Og takið eftir að á þessum tíma horfði fólk ekki á enskumælandi efni daginn út og inn enda sjónvarpsdagskrá mjög takmörkuð.

Ég get ekki lokið þessum pistli án þess að nefna metnaðarleysi ýmissa fjölmiðlamanna sem virðast telja í lagi að hráþýða ensk orðtök yfir á íslensku. Á undanförum árum hafa íþróttafréttamenn t.d. talað um að íþróttamenn séu á eldi (e. be on fire = vera í stuði, standa sig frábærlega), kasti inn handklæðinu (e. throw in the towel = hætta, leggja skóna á hilluna) eða kasti mögulega einhverjum undir rútuna (e. throw him under the bus = fórna honum). Ég hef líka nokkrum sinnum heyrt lýsendur tala um að hinn og þessi hafi stigið upp (e. step up). Ég hef reglulega spurt nemendur mína í háskóla hvort þeir skilji þessar setningar og yfirleitt eru það aðallega þeir sem fylgjast vel með erlendum íþróttafréttum sem það gera. Hinir standa á gati þótt þeir séu jafnvel að öðru leyti ágætir í ensku. Þegar kemur að orðtökum er merking heildarinnar nefnilega engan veginn sameiginleg merking hlutanna. En kannski fer með þessi orðtök eins og margar slettur að þau verði að lokum hluti af íslenskri tungu. En þar sem það hlýtur að vera metnaðar fjölmiðlafólks að skiljast hlýtur að vera gáfulegra að nota tungumál sem allir skilja en ekki bara sumir.

Ég veit ekki alveg af hverju þetta daður við enskuna stafar. Það er vissulega mikilvægt að vera góður í ensku en það má ekki vera á kostnað íslenskunnar. Það er alla vega ljóst að þótt enska sé notuð mun víðar en íslenskan er hún á engan hátt æðra tungumál. Og hví er það þá að svo margir telja notkun enskrar tungu auka á söluvænleika vöru? Eða að það auki á trúverðugleika sérfræðinga að sletta ensku? Ég tel að þessi hugsun sé miklu hættulegri íslensku málsamfélagi en það hvort við segjum mér langar eða mig langar. Þágufallshneigðin er nefnilega íslenska þótt hún sé ekki í samræmi við ákveðna staðla — en þjónkun við enskuna er það ekki.

Kristín M. Jóhannsdóttir er háskólakennari og kennir bæði íslensku og ensku.

Fyrsti þjónustusamningur Akureyrarbæjar við Grófina geðrækt!

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 15:45

Sammála en þó á móti

Jón Hjaltason skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 17:40

Áhugaverð hugmynd að nýtingu Tjaldsvæðisreitsins

Benedikt Sigurðarson skrifar
18. nóvember 2023 | kl. 15:00

Vakning um ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Eiður Stefánsson skrifar
17. nóvember 2023 | kl. 12:35

Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna

Hólmgeir Karlsson skrifar
15. nóvember 2023 | kl. 10:00

Sex gjaldfrjálsir klukkutímar og tekjutenging

Hulda Elma Eysteinsdóttir skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 17:25