Fara í efni
Umræðan

Halli á lýðræðisvog okkar

Ég hef lengi beðið eftir því að neytendur og notendur N4 tjái sig um þá skerðingu á skemmti- og fréttaefni sem brotthvarf og gjaldþrot þess góða fjölmiðils N4 hafði í för með sér fyrir okkur landsmenn. Ef til vill og vonandi hafa margir hugsað það sama og eru að bíða eftir öðrum að ríða á vaðið.

Við fárumst yfir atlögum hjá mörgum þjóðum, sem gerðar eru að frelsi fjölmiðla og ræðum með miklum alvöruþunga um skerðingu á tjáningarfrelsinu. En þurfum við ekki að líta okkur nær? Ég hefi með mikilli velþóknun og ánægju fylgst með N4 í gegnum árin og forverum þeirrar stöðvar allt frá 1986. En það voru þeir heiðursmenn Þórarinn Ágústson eigandi og starfsmaður Samvers og Hermann Sveinbjörnsson heitinn, þá ritstjóri blaðsins Dagur, sem hrundu í framkvæmd stofnun Samvers árið 1984 og með dótturfyrirtæki þess Eyfirska sjónvarpsfélaginu var hafist handa með útsendingar sjálfstæðrar sjónvarpsstöðvar 2 árum síðar.

Ég gerði mér strax ljóst hve mikil lyftistöng stöðin varð norðlensku lista- og menningarlífi, það sem kom mér þó mest á óvart hvað margir norðanmenn burtfluttir til Reykjavíkur voru áhugasamir áhorfendur. Síðar sannaðist með bæjarsjónvarpsstöðinni Aksjón í eign og stjórn Gísla Gunnlaugssonar hve mikilvægu og árangarríku hlutverki slíkur miðill gegnir fyrir okkar svæði.

Ekki dróg úr ánægjunni þegar N4 sjónvarpsstöð hóf merkið hærra á loft með fjölbreyttari dagskrárgerð og með öflun fræðslu- og skemmtiefnis víða af landinu. Þarna trúði ég einlæglega að nú væri sjónvarpsskútan endanlega komin fyrir horn á lygnan sjó. Skipstjórinn í brúnni María Björk Ingvadóttir þjóðþekkt sjónvarpskona og þaulreyndur athafnamaður. Það kom mér fyrir eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar í ljós kom að fyrirtækið hékk á bláþræði, sem brast, vegna þess sem ég segi dapurlegra vinnubragða Alþingis.

Hvar er nú allt talið um að frjáls fjölmiðlun sé undirstaða lýðræðis og hana beri að styðja. Mér fannst ótrúlegt fálæti vera í kringum brotthvarf N4 sjónvarpsstöðvarinnar. Það olli mér ekki síst vonbrigðum að forsvarsfólk og stjórnendur míns kæra bæjar, Akureyrar, skyldu ekki finna fjölina sína í stuðningi við N4 sjónvarpsstöðina okkar. Það á ekki af okkur að ganga því fjölmörg tækifæri í baráttu okkar fyrir auknu frelsi og lýðræði hér á Norðurlandi hafa gengið okkur úr greipum. Ekki færri en fimm vikublöð hafa horfið af sjónarsviðinu hér á Akureyri. Svo hvarf svæðisútvarpið RÚVAK af heyrnarsviðinu. N4 sjónvarpsstöðin farin. Undir skert lýðræði tel ég líka fall Fréttablaðsins. Við teljum að sjálfsögðu tækifæri til ferða vera hluta lýðréttinda okkar. Mér fannst því stöðvun á flugi NICE-air vera reiðarslag. Mér finnast allar þessar skerðingar á mínum tækifærum til aukinna tengsla við umheiminn þyngri en tárum taki. Ég vonast til að fleirum en mér sé eins innanbrjósts og mér. Við eigum þann kost einan að láta í okkur heyra og vakna til baráttu um að rétta af halla á okkar lýðræðisvog.

Jón Hlöðver Áskelsson er tónskáld

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15