Fara í efni
Umræðan

Hæpin er hagfræði Landsvirkjunar

Meira af raforkuverði, græn eða ekki græn orka.

Ég skrifaði hér grein þann 9. janúar um þá ákvörðun Landsvirkjunar að frá áramótum muni græn upprunavottorð ekki fylgja lengur með þegar rafmagn er keypt af Landsvirkjun og að vottanirnar verði þess í stað seldar á evrópskum markaði, sjá hér

Í dag 10/1 svaraði Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun, þessari grein minni í grein undir fyrirsögninni «Raforkuverð áfram lágt og stöðugt», sjá hér

Í svargrein hans kemur m.a. fram sem svör við minni grein:

  • Að það sé fásinna að halda því fram að raforkuverð hækki hér þó upprunaábyrgðirnar séu seldar til Evrópu
  • Að það gangi ekki gegn hagsmunum okkar sem þjóðar að selja upprunaábyrgðirnar, því fyrirtækið hafi sífellt meiri tekjur af þeirri sölu
  • Engin skylda sé að kaupa upprunavottorð, kaupendur raforku hér ráði því hvort þeir kaupi vottunina og greiða þá fyrir það sérstaklega

Staðreyndin er hinsvegar þessi. Hér á landi hafa íslensk fyrirtæki og heimili verið að kaupa græna orku sem er upprunavottuð, en um áramótin á að selja upprunavottorðin annað og mynda þannig nýjan tekjustofn sem Landsvirkjun áætlar að geti vaxið í allt að 15 milljarða.

«Landsvirkjun mun ekki láta það viðgangast að verðmætum sem felast í upprunaábyrgðum sé kastað á glæ» segir Valur í svargrein sinni. Gott og vel segi ég, en málið er kannski ekki alveg svona einfalt því íslenskir notendur, bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa verið að borga fyrir raforkuna sem vistvæna/græna upprunavottaða orku hingað til og eiga frá áramótum að borga áfram sama verð þó svo upprunavottorðin fylgi ekki lengur með og orkan hætti að vera græn.

Fyrir mér er þetta ósköp svipað og byggingavöruverslun sem hefði verið að selja klaufhamra á 7.000 til 9.000 kr stykkið myndu ákveða að selja þá á sama verði frá áramótum, en bara með þeim annmarka að skaftið fylgdi ekki lengur með. Skaftið myndi kosta 1.300 kr og mönnum væri alveg frjálst að kaupa það eða ekki.

Verðhlutföllin með klaufhamrana hér eru þau sömu eins og raforkunnar sem seld er á 7 til 9 krónur pr kílówattstund til neytenda og upprunavottun síðan bætt við á 1,30 kr. eða sem svara 14,4 til 18,6% verðhækkun á klaufhamrinum með skafti. Fyrirtæki sem keyptu marga klaufhamra höfðu síðan betri kjör hjá byggingavöruversluninni og hafa þannig greitt 5-6 þús fyrir klaufhamarinn og hækkunin þá með skafti orðin um 25%, allt tölur sem lesendur kannast við úr fyrri grein minni um hækkun á raforkunni.

Það að upprunavottorð fylgi raforkunni til innlendrar notkunar er einfaldlega mjög mikilvægt því orkan okkar græna er ríkur þáttur í því að framleiðslan okkar, hvort heldur það er iðnaðarframleiðsla eða landbúnaðar- og matvælaframleiðsla, sé umhverfisvæn og þannig samkeppnishæf á markaði.

Eða er ég eitthvað að misskilja þetta kerfi, verður orkan okkar kannski áfram græn þó svo við höfum skipt á henni á pappírum fyrir raforku niður í Evrópu sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti? Nei þannig er það ekki eins og áður hefur reyndar komið fram í umfjöllun um þessi mál og fór hátt á þeim tíma sem íslenskir raforkukaupendur fóru að sjá á reikningum sínum að bara hluti raforkunnar væri grænn og hluti framleiddur með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku. Nokkuð sem Landsvirkjun bakkaði síðan með eftir umfjöllun um málið.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur opinberlega sagt að sala upprunaábyrgða grafi undan samkeppnisforskoti Íslands, m.a. í grein sem hann birti þann 20. febrúar 2020. Þar kemur einnig fram að Samtök Iðnaðarins vilji að Ísland vindi ofan af og dragi sig útúr þessu kerfi þar sem það skaði starfsemi íslenskra fyrirtækja. Grein Sigurðar má sjá hér

«Að kasta ekki fjármunum á glæ» um það get ég verið hjartanlega sammála Landsvirkjun að við eigum ekki að gera, en þá skulum við líka hafa það ljóst hvað fjármunum við erum ekki að kasta á glæ. Ef við rýrum ímynd og virði íslenskrar iðnaðar- og matvælaframleiðslu með því að taka af henni græna stimpilinn á raforkunni þá tel ég líklegt að 15 milljarðar Landsvirkjunar í auknum þjóðartekjum af vottorðasölu hrökkvi ósköp skammt til að bæta það tjón.

Þannig að, JÁ, það mun gangi gegn hagsmunum okkar sem þjóðar að selja upprunaábyrgðirnar til Evrópu af raforkunni.

En að lokum get ég tekið undir með Val að mikilvægt er að reka orkufyrirtæki þjóðarinnar með sóma.

Orkan er í dag að mínu mati okkar verðmætasta auðlind sem mikilvægt er að nýtt sé með langtímasjónarmið og heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Nýtt til að styrkja samkeppnisstöðu á okkar framleiðsluvörum og þjónustugreinum, nýtt til að ná frekari árangri í innlendum orkuskiptum og nýtt til að byggja undir okkar góðu ímynd á samfélagi sem lætur sér raunverulega annt um náttúruna og íbúa landsins.

Hólmgeir Karlsson er framkvæmdastjóri á Akureyri

Jöfn tæki­færi til menntunar

Ingibjörg Isaksen skrifar
08. október 2024 | kl. 22:30

Góð leiksvæði eru gulls ígildi

Hilda Jana Gísladóttir skrifar
08. október 2024 | kl. 09:30

Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. október 2024 | kl. 06:00

Heil­brigðis­stofnun Norður­lands 10 ára í dag

Jón Helgi Björnsson skrifar
01. október 2024 | kl. 12:20

Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
28. september 2024 | kl. 12:00

Hvað segir það um málstaðinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. september 2024 | kl. 06:00