Fara í efni
Umræðan

Fimm prósent af alþingismanni

Fámennasti þingflokkurinn á Alþingi eins og staðan er í dag, Miðflokkurinn, telur einungis tvo þingmenn af 63 eða sem nemur rétt rúmlega 3% af heildarfjöldanum. Vitanlega er það ekki ávísun á mikil áhrif þó vissulega megi segja að flokkurinn eigi „sæti við borðið“ eins og það er kallað. Hins vegar er vægi Miðflokksins margfalt á við það vægi sem Ísland hefði allajafna innan Evrópusambandsins kæmi til inngöngu landsins í það.

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins við ákvarðanatöku á vettvangi þess tekur þannig í langflestum tilfellum mið af íbúafjölda þeirra. Til að mynda yrði vægi Íslands í ráðherraráði sambandsins þannig einungis um 0,08% eða á við 5% hlutdeild í þingmanni á Alþingi. Á þingi sambandsins yrði staðan eilítið skárri. Þar hefði landið sex þingmenn af 720 eins og staðan er í dag. Hliðstætt við að hafa hálfan þingmann á Alþingi.

Hvað varðar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eiga ríki þess í raun ekki fulltrúa í henni. Þeir sem þar sitja eru fyrst og síðast embættismenn sambandsins enda óheimilt að draga taum heimalanda sinna. Hliðstætt á til að mynda við um forseta þings Evrópusambandsins. Einstaklingurinn sem vermir það sæti hverju sinni er ekki fulltrúi heimalands síns heldur einungis þingflokksins sem hann tilheyrir innan þingsins.

Danir þurftu að refsa Færeyingum

Mörg dæmi eru um það að margfalt fjölmennari ríki en Ísland hafi orðið undir í ráðherraráði Evrópusambandsins þegar miklir hagsmunir þeirra hafa verið í húfi. Líkt og þegar Írar urðu um árið að sætta sig við makrílsamning við Færeyinga þvert á eigin hagsmuni eða þegar Danir urðu að taka þátt í refsiaðgerðum sambandsins gegn Færeyjum, hluta af danska konungdæminu, vegna síldveiða Færeyinga í eigin lögsögu.

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrðum við Íslendingar eftirleiðis einfaldlega að vona að þær ákvarðanir sem teknar yrðu á vettvangi þess væru okkur hagfelldar enda ljóst að þær yrðu seint teknar með íslenzka hagsmuni og aðstæður í huga og að við yrðum ekki lengur við stjórnvölinn í þeim efnum. Þó einhverjar þeirra gætu mögulega hentað sæmilega skipti vitanlega mestu þegar sú yrði ekki raunin.

Málflutningur talsmanna þess að Ísland gangi í Evrópusambandið breyttist ekki að ástæðulausu fyrir 15-20 árum síðan úr því að landið þyrfti að ganga þar inn til þess að hafa áhrif yfir í tal um áðurnefnt „sæti við borðið“. Það er jú engin trygging fyrir því að hlustað yrði á þann sem þar sæti. Sérstaklega ekki þegar hægt væri að taka nánast hvaða ákvörðun sem er án þess að viðkomandi einstaklingur gæti haft áhrif á það.

Lokaskrefið evrópskt sambandsríki

Milliríkja- og alþjóðasamstarf miðast allajafna við það að ríki sitji við sama borð þegar teknar eru ákvarðanir. Eitt ríki, eitt atkvæði. Áherzla Evrópusambandsins á íbúafjölda þegar vægi ríkja þess er annars vegar er hins vegar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan sambandsins í átt að einu ríki. Fjöldi þingmanna hvers ríkis Bandaríkjanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings miðast til dæmis við íbúafjölda þeirra.

Fram kom þannig í Schuman-ávarpinu 1950, sem markaði upphaf samrunans innan Evrópusambandsins og forvera þess, að fyrsta skrefið væri að koma kola- og stálframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokaskrefið evrópskt sambandsríki. Síðan þá hafa jafnt og þétt verið tekin fleiri skref á þeirri vegferð. Nú síðast var til dæmis lögð áherzla á áframhaldandi þróun í þá átt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands.

Hver þróunin hefur verið innan Evrópusambandsins og hvert hún stefnir er eðli málsins samkvæmt lykilatriði þegar rætt er um sambandið og hvort rétt væri fyrir Ísland að verða hluti þess. Þá er ekki síður mikilvægt hver staða landsins yrði innan Evrópusambandsins þegar kæmi að því að hafa áhrif á ákvarðanir. Fyrir utan annað er vitanlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er einu sinni setið við sama borð.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)

Hverfist allt um lokamarkmiðið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
10. september 2024 | kl. 13:30

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00