Fara í efni
Umræðan

Ég vil uppbyggingu á Oddeyrinni

Ég vil uppbyggingu á Oddeyrinni

Nú er hafin kosning um skipulag á reit á Oddeyrinni sem ég ætla að kalla Vélsmiðjureitinn. Ég hvet þig lesandi góður að taka þátt. Það eykur líkur á að íbúar Akureyrar verði oftar spurðir um álíka mál.

Í rammaskipulagi fyrir Oddeyri kemur fram að á svæðinu þar sem reiturinn er skuli nýjar byggingar verða almennt 3 - 4 hæðir. Þetta orðalag gefur kost á byggingum sem eru bæði lægri eða hærri en 3 - 4 hæðir en látum það liggja milli hluta. Kosið er um þrjá kosti. Í fyrsta lagi óbreytt skipulag (almennt 3 - 4 hæðir). Í öðru lagi að hæð bygginga megi vera allt að 22 metrar yfir sjávarmáli sem þýðir væntanlega 6 hæðir og síðan í þriðja lagi að hæð bygginga megi vera allt að 25 metrar yfir sjávarmáli sem þýðir væntanlega 7 hæðir.

Skoðum aðeins Oddeyrina í heild sinni. Oddeyrin er sérstök. Hún er hverfið sem stendur á rennisléttu landi þétt upp að miðbænum. Þétt upp að Glerártorgi líka en með sjóinn á hina höndina. Á Oddeyri er besta veðrið að sögn og þar nýtur sólar lengst á kvöldin. Oddeyrin er því líklega besta og verðmætasta byggingarland á Akureyri. Þar ætti fasteignaverð að vera hæst af öllum hverfum.

Ég er þeirrar skoðunar að Oddeyrin ætti að vera borgarlegasta hverfið á Akureyri. Þar ætti þéttleikinn að vera mestur, hjólamenningin að vera mest, hlutfallslega minnsta bílaeignin á Akureyri, ýmiskonar atvinnustarfsemi á jarðhæð þar sem því verður við komið og íbúðir fyrir ofan. Með þéttleikanum kæmi síðan gróskan í mannlífinu, Eyrin ætti að vera gróskumesta hverfið á Akureyri og þannig styðja við miðbæinn.

En hvernig er staðan? Eyrin hefur lengi haft þann stimpil að vera mest niðurnídda hverfið með mestu félagslegu vandamálin. Alls ekki eftirsóttasta hverfið á Akureyri þrátt fyrir mikla sál sem felst í mörgum elstu og fallegustu húsum bæjarins sem reyndar sum hver þurfa andlitslyftingu og uppfærslu til fyrri glæsileika. Austan Hjalteyrargötu er staðan enn sorglegri. Þar er verðmætasta byggingarland Akureyrar víða notað undir hauga af ónýtu og ryðguðu drasli auk gáma og gamalla skúra. Á næstu mynd er horft eftir einni götunni á austanverðri Oddeyri.

Oddeyrin þarf að fara í gegnum endurnýjun. Umbreytingu sem hefur átt sér stað í mörgum hverfum í mörgum borgum. Þar liggur stórt tækifæri fyrir Akureyri. Ég er sannfærður um að slík umbreyting mun eiga sér stað og Oddeyrin muni verða dýrasta og eftirsóttasta hverfið á Akureyri einn daginn. En þessi umbreyting þarf að fara af stað því að þegar hún er farin af stað þá mun hún vinda upp á sig eins og rúllandi snjóbolti. Umbreytingin þarf að verða með byggingu nýrra húsa þar sem pláss er fyrir þau, uppgerð og andlitslyftingu gamalla húsa og jafnvel með niðurrifi einhverra lítilfjöllegra húsa sem ekki hafa verndargildi.

Og þá erum við aftur komin á Vélsmiðjureitinn. Þar væri góður startpunktur fyrir umbreytingu og endurnýjun Oddeyrarinnar. Væri ekki þess virði að teygja sig aðeins lengra til að snjóboltinn færi þar af stað? Á næstu mynd sést þessi reitur, um fjórðungur hans er notaður undir drasl. Í kring er ástandið ekki skárra.

Ég sé lítið neikvætt við að byggja hærra en 3 - 4 hæðir á þessum reit. Framhliðin á honum er og verður gamla Vélsmiðjan (nú Bryggjan), byggingar fyrir aftan hana breyta því götumynd Strandgötunnar lítið. Með meiri hæð fæst meiri þéttleiki, betri nýting á verðmætu landi. Örlítið fleiri munu eiga heima á Akureyri, örlítið fleiri börn verða í Oddeyrarskóla (sem er vannýttur), örlítið betri grundvöllur verður fyrir starfsemi í miðbænum. Stóran hluta sumarsins munu skemmtiferðaskip verða bundin við bryggjuna, flest hærri en byggingarnar á Vélsmiðjureitnum.

Útlit húsa er síðan annað mál. Ég hef sterkar skoðanir á því. Helst vildi ég útlit sem tæki mið af gömlu húsunum. Arkitektar tryllast hins vegar þegar slíkt er nefnt. Ég hef verið hrópandi í eyðimörkinni með þessa skoðun mína og fordæmdur af sérfræðingum en vonandi má ræða það ef veglegar byggingar rísa á Eyrinni. Það er hægt á Selfossi.

Ég ætla því að kjósa 6 eða 7 hæðir, er ekki alveg búinn að ákveða hvort. Vona að þú lesandi góður gerir það líka í þeirri von að hægt sé að rjúfa kyrrstöðuna á Oddeyri og auka veg Akureyrar í heild sem fallegrar smáborgar með öflugum miðbæ.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er hagfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00