Fara í efni
Umræðan

Breyta þarf umgengni til framtíðar

Rætt var um nýsamþykkta umhverfis- og loftlagsstefnu Akureyrarbæjar og umgengni á lóðum í bæjarlandinu á fundi bæjarstjórnar í dag, að ósk bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins, Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur. Hún flutti þar eftirfarandi ræðu og gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta.

_ _ _

Forseti, ágætu bæjarfulltrúar!

Ný og metnaðarfull umhverfis- og loftlagsstefna Akureyrarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn 12. maí síðastliðinn en þar er ekkert kveðið á um umgengni og þrifnað utanhúss nema örstutt málsgrein sem segir: ,,Til að bæta nærumhverfi íbúa er mikilvægt að reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum”.

Ástandið í bænum er þess eðlis að tala um reglulegt hreinsunarátak er ófullnægjandi. Það er ástæða þess að ég óskaði eftir því að taka þetta mál upp hér í dag. Við þurfum að breyta umgengninni til framtíðar og koma upp verkferlum til þess. Ég lagði til á vinnufundi bæjarstjórnar og umhverfis- og mannvirkjasviðs um stefnuna að bætt yrði við sjötta kaflanum er tæki á umgengni og þrifnaði utanhús en því miður fékk það ekki hljómgrunn.

Það ætti að vera markmið okkar að gámar með útrunnin stöðuleyfi, númeralausir bílar út um allan bæ, atvinnutækjum lagt á almenningssvæðum og iðnaðar- og atvinnulóðir fullar af drasli og dóti sem ætti frekar heima innandyra eða í förgun heyri sögunni til.

Í 4. grein lögum númer 7 frá 1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem Heilbrigðiseftirlitið starfar eftir segir að fara eigi eftir samþykktum sem ráðherra setur um umgengni og þrifnað utanhús. Sú samþykkt eða reglugerð sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra starfar eftir er nokkuð skýr. Í 6. grein segir: ,,Heilbrigðisnefnd er heimilt að fjarlægja skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, kerrur, vinnuvélar, báta og aðra lausamuni og drasl á kostnað og ábyrgð eiganda”

Ég tel mikilvægt að við leggjum áherslu á að heilbrigðiseftirlitið starfi eftir þessari reglugerð og þá verðum við sem sveitarfélag að leggja áherslu á þessa þætti í umhverfis- og loftslagsstefnu okkar. Ef ekki þar, þá hvar?

Sem dæmi segir í stefnunni að það línulega hagkerfi sem við höfum búið við í marga áratugi byggist á munstrinu framleiðsla – notkun – förgun. Það á alls ekki við þann úrgang sem fyrirfinnst um bæinn með tilheyrandi mengunarhættu og ætti því einmitt heima í viðeigandi förgun úrgangs.

Einnig segir í stefnunni: ,,Loftslagshluti stefnunnar inniheldur einnig í meginatriðum þá þætti sem falla undir beinar skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu; innlenda olíunotkun, meðhöndlun úrgangs og landbúnað.” Með því að taka ekki á umgengni og rusli í bænum erum við þá ekki að fara á svig við þetta samkomulag um meðhöndlun úrgangs og því enn frekari ástæða til að taka fyrrgreinda þætti inn í stefnuna.

Umhverfis- og mannvirkjaráð tók fyrir fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra þann 11. febrúar síðastliðinn. Þá bókaði ráðið að upplýsinga yrði aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins. Enn hefur ekkert sést af þeirri vinnu og spurning hvort eitthvað gerist fyrr en verkefnið rati í starfsáætlun viðeigandi ráða.

Mig langar einnig að benda á að við þessa vinnu er hægt að virkja 8. grein í samstarfssamningi sveitarfélaga um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem segir að sveitarstjórn geti óskað eftir fundi með heilbrigðisnefnd til að ræða rekstur og starfsemi heilbrigðiseftirlitsins. Það gæti verið gott tækifæri til að taka umræðu um þessi mál í heild sinni með fulltrúum úr öðrum sveitarfélögum.

Til að draga þetta saman þá er það tvennt sé sem ég legg til í tillögu:

Umhverfis og mannvirkjasviði yrði falið að bæta sjötta kaflanum um umgengni og þrifnað utanhúss við umhverfis- og loftlagsstefnu Akureyrarbæjar og leggja hana svo að nýju fyrir bæjarstjórn. Í framhaldi af þeirri vinnu yrði tekið á vandanum við gerð aðgerðaáætlunar stefnunnar.

Bókun frá umhverfis- og mannvirkjaráði frá 11. febrúar þar sem ráðið óskar eftir því að upplýsinga sé aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins verði tekin fyrir í nýju umhverfis- og mannvirkjaráði og nýju skipulagsráði og vinnan kláruð í framhaldinu eða sett í forgang í nýrri starfsáætlun.

Þetta tvennt helst í hendur, fyrst þurfum við að setja okkur markmið í umhverfis- og loftlagsstefnunni og til að geta framfylgt aðgerðaáætlun og í framhaldinu þarf að kortleggja hvar ábyrgðin liggur og hvaða aðgerðum við getum beitt.

Það mun að sjálfsögðu kosta eitthvað að vinda ofan af ástandinu. Það þarf að breyta menningunni í eitt skiptið fyrir öll svo það þurfi ekki að setja mikla fjármuni í reglulegt hreinsunarátak í framtíðinni. Snemmtæk íhlutun á við í þessu sem og öðru. Gætum við t.d. sett einhverjar kvaðir í úthlutun lóða? Bara sem dæmi um aðgerð í snemmtækri íhlutun.

Sýnum metnað til að hreinsa bæinn okkar og til þess þarf að fara í ítarlega vinnu og leita fjölbreyttra lausna.
_ _ _

Eftir stutt fundarhlé í kjölfar ræðu Sunnu Hlínar var lögð fram eftirfarandi bókun allra bæjarfulltrúa sem samþykkt var samhljóða:

„Bæjarstjórn felur Umhverfis og mannvirkjasviði að bæta við kafla/áherslum um umgengni og þrifnað utanhúss í umhverfis- og loftlagsstefnu Akureyrarbæjar og leggja hana að nýju fyrir bæjarstjórn. Í framhaldi verði verkefninu komið fyrir í aðgerðaáætlun stefnunnar. Bæjarstjórn áréttar bókun frá umhverfis- og mannvirkjaráði frá 11. febrúar síðastliðnum þar sem ráðið óskaði eftir því að upplýsinga væri aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins og felur nýju umhverfis -og mannvirkjaráð sem og nýju skipulagsráði að fylgja málinu eftir.“

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15