Fara í efni
Pistlar

Við og hinir

Ég stend á Ráðhústorgi ásamt á þriðja hundruð akureyrskum samborgurum. Saman hlustum við á fólk búsett á Akureyri, en með rætur í Úkraínu, segja frá hörmungum sem þar geysa. Átökin fá á sig persónulegan blæ þegar ræðumaður segir frá ömmu sem nú situr í sprengjubyrgi.

Stríð í Evrópu. Ekki einhvers staðar hinumegin á hnettinum, heldur einungis handan hafsins sem skilur að Ísland og meginland Evrópu. Samt líka eitthvað svo fjarlægt rólegheitunum á Akureyri.

Stríðsátök eiga sjaldan rætur sínar að rekja til fjandsemi almennra borgara í garð annarra hópa eða íbúa annarra ríkja. Oftast er um að ræða valdagráðuga leiðtoga sem misnota stöðu sína. Kynda undir ófriði milli fólks, magna hann upp, og ná einhvern vegin smátt og smátt að sannfæra sjálfa sig og aðra um að ofbeldi og beiting hervalds sé eina lausnin. Þetta á við þegar borgarastyrjöld brýst út milli þjóðernishópa innan ríkja og einnig þegar um er að ræða átök milli sjálfstæðra ríkja.

Ég man eftir frásögnum frá Rúanda þar sem börn, sem vissu ekki einu sinni hvaða þjóðflokki þau tilheyrðu, urðu allt í einu skotspónn ofbeldis vegna þess að þau voru Tútsar. Nágrannar og fyrrum vinir urðu skyndilega óvinir. Ríkisstjórnin hélt uppi stanslausum áróðri sem skilaði sér í hatri milli fólks sem áður hafði verið vinsamlegt hvort öðru. Ég hef heyrt svipaðar sögur frá fólki sem bjó í Júgóslavíu fyrir átökin þar. Ég man t.d. eftir skólasystur í Bandaríkjunum frá Króatíu. Hún sagðist aldrei hafa spáð í hvaða þjóðflokki eða trúarbrögðum hún eða nágrannar hennar tilheyrðu fyrr en hún var neydd til að taka afstöðu vegna stríðsátakanna.

Ég man líka eftir því sem ég sá á fjarlægri eyju, þegar ég var friðargæsluliði í Sri Lanka. Óttinn og ofeldismenningin sem skapaðist í skugga langvarandi borgarastyrjaldar. Áhrifin sem það hefur að horfa upp á sundurtætt lík saklaus fólks.

Eitt af því sem er mér ofarlega í huga núna er hversu mikilvægt það er að við leyfum ekki spilltum leiðtogum að skipta okkur upp í fylkingarnar: Við og hinir. Að við gleymum því aldrei að við erum öll manneskjur.

Hjartað grætur þegar ég les frásagnir af afleiðingum ofbeldis í Úkraínu. En ég finn líka til með þeim Rússum sem eru uppfullir af angist yfir því hvernig þeirra eigin leiðtogar haga sér. Friðelskandi fólki sem verður líka fyrir miklum áhrifum, þá annars konar séu.

Munum að rússneskir leiðtogar eru ekki endilega rússneska þjóðin. Munum líka að Rússar eru ekki þeir einu sem eru ábyrgir. Vestrænir leiðtogar hafa tekið þátt í að skapa þann jarðveg sem þessi átök spretta upp úr. Þeir þurfa að sýna ábyrgð með því að finna leiðir til að leysa úr málum og lægja öldur fremur en að magna upp átök. Setja skýr mörk, koma á viðskiptaþvingunum þegar það á við, en alltaf að halda öllum samskiptalínum opnum. Markmiðið er ekki að sigra í stríði. Markmiðið er að koma á friði.

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Minningabrot í hringformi

Rakel Hinriksdóttir skrifar
22. september 2023 | kl. 12:00

Að eldast með reisn

Sigurður Arnarson skrifar
20. september 2023 | kl. 12:12

Hús dagsins: Litli-Hvammur

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. september 2023 | kl. 08:25

Litla gula hænan

Sigurður Ingólfsson skrifar
17. september 2023 | kl. 12:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Hvað vitum við fyrir víst um hrafnþyrni?

Sigurður Arnarson skrifar
14. september 2023 | kl. 10:45