Fara í efni
Pistlar

Tæknin er að gera frænku gráhærða

„Tíminn vill ekki tengja sig við mig,“ sagði roskin frænka mín hnuggin en ég held að hún hafi verið að vísa í gamlan frænda minn, Jónas nokkurn Hallgrímsson. Hann passaði ekki alltaf inn í samfélagið og tíðarandann og á ég sjálfur mjög auðvelt að tengja mig þessa setningu eða ljóðlínu enda iðulega utangátta og á skjön við samfélagið. Frænka var hins vegar sérstaklega að vísa til tæknisamfélags nútímans sem hún tekur lítinn þátt í og missir þar með af, tja, lífinu eins og það gengur fyrir sig í dag og rekst iðulega á veggi. Það sem verra er, hún tapar bæði tíma og peningum en hvort tveggja er eitthvað sem tæknin átti að færa henni.

Hitti hana um daginn. Sennilega á fimmtudegi. Að minnsta kosti var Dagskráin komin út og mín frekar auralitla og sparsama frænka var að leita tilboða. Það getur verið snúið fyrir lífeyrisþega að ná endum saman og matarinnkaup oft eini liðurinn sem hægt er að föndra eitthvað með á sama tíma og öll gjöld og kostnaður hækka. Hún er því miður ekki heldur laus við íbúðalán og bankinn hennar var einmitt núna að hækka vexti verðtryggða lánsins meðan öll þjóðin bíður eftir vaxtalækkun. Húrra fyrir þér, Ari Jón! Ekki má bankinn taka á sig eilitla tekjuskerðingu vegna bindiskyldu Seðlabankans, betra að láta lánþega borga aðeins meira.

„Stefán minn, ég sá í Dagskránni alveg prýðilegan afslátt auglýstan í Nettó en þegar ég mætti og ætlaði að kaupa í matinn kom í ljós að afslátturinn hét víst appsláttur og maður þurfti að vera með einhvers konar app í snjallsíma til að geta keypt ódýrara í matinn. Svona er lífið orðið, maður þarf að fá sér snjallsíma og hlaða alls konar öppum inn í hann uns allt fyllist af svona dóti sem tæmir rafhlöðuna og svo þarf maður að helst að nota þetta í öllum búðum og afgreiða sig sjálfur og algjörlega bannað að nota peninga heldur þarf maður alltaf að strauja kort sem kostar svo og svo mikið í hvert skipti. Meira að segja þegar ég heimsótti dóttur mína og barnabörn í Danmörku gat ég ekki lengur fengið danskar krónur eða borgað með peningum og í einni búð þarna úti var ekki einu sinni hægt að nota íslenskt kort, bara eitthvert app!“

Ég hristi hausinn og ætlaði fyrst að hnýta í frænku mína fyrir að vera neikvæð, nöldurgjörn og gamaldags en svo fór ég aðeins að pæla. Tæknin átti að spara tíma og peninga, auðvelda okkur lífið, gera það gangsærra og minnka pappír, plast og hvers kyns umbúðir og óáran. Og auðvitað spara þennan svakalega tíma, auðvelda störf og láta hinn mekaníska guð fá völdin svo við mættum lifa í ró og friði. Sjálfvirkni, sjálfstæði, sjálfsöryggi… jafnvel sjálfumgleði því vélmenni skyldu sjá um skítverkin.

Hinn mekaníski guð reyndist svo kannski ekkert betri en sá gamli og gráskeggjaði. Ekki fyrir eldra fólkið. Samkvæmt frænku minni er hin rómaða tækni útfærð á þann hátt að ekki er hægt að tala saman, ekki hægt að hittast, ekki hægt að borga með peningum, ekki hægt að fara í tryggingarnar og eiga persónuleg viðskipti, ekki hægt að fara í bankann og fá kaffi og spjalla við manneskju, engan veginn hægt að stunda póstþjónustu, ekki lengur í boði að vera maður af holdi og blóði nokkurs staðar, bara maskína – viljalaust tannhjól í tækniverkinu. Og hvað störfin varðar þá fækkar tæknin ekki endilega láglaunastörfunum þannig að Íslendingar, sem vilja frekar sýna sér rassinn, stokkandarvarirnar og húðflúrin eða selja eitthvað á netinu, eftirláta innflytjendum flest slík störf. Fiskvinnsla, ræstingar, byggingavinna, leikskólar, ferðaþjónusta, dekkjaverkstæði…

Vissulega má taka undir margt með frænku og auðvelt að sakna þeirra tíma þegar lífið var einfaldara og manneskjulegra á margan hátt þótt á sama tíma hafi margt breyst til hins betra. Til að sökkva ekki í nostalgíu og þunglyndi er nú samt held ég best að reyna að takast á við samtímann og gera sem best úr öllu, reyna að gera hvern dag eins góðan og maður getur og ekki stóla á að aðrir geri það – allra síst samfélagsmiðlar. Hver er sinnar gæfu smiður, upp að vissu marki.

Svo er það frændi minn, kennarinn. Hann hætti eftir þriggja áratuga starf og fór að vinna í höndunum á litlu verkstæði, mest einn í kompu og líkar vel. Samt var hann farsæll kennari og alls ekki útbrunninn en hvers vegna skyldi hann hafa söðlað um svona seint á starfsævinni?

„Jú, Stefán minn. Þú ert nú sjálfur kennari og ættir að þekkja þetta. Skólastarfið var farið, eins og annað í samfélaginu, að snúast um vörumerki, öpp, þjónkun við fyrirtæki, líkön, sérfræðinga, innra mat, ytra mat, endalausar skráningar í tölvu, kvartanir og skipanir frá foreldrum og alls konar kenningar og tækniatriði. Svo voru kröfurnar sífellt meiri en tíminn til að sinna starfinu sífellt minni og stór hluti nemenda með endalausar greiningar og undanþágur þannig að hefðbundið bekkjarkennsla var fyrir löngu orðin ómöguleg. Ekki má heldur gleyma því að starfið og úrvinnsla þess eltu mann heim á hverjum degi og það er lýjandi til lengdar.“

Líkt og með frænku get ég tekið undir margt hjá frænda. Við kennarar erum gangandi auglýsingar (eða galarar eins og í Love Star eftir Andra Snæ). Einstök forrit, öpp, kennsluumhverfi, ritvinnsla, fjarkennslufídusar, glærusýningar, tímarit, gervigreind… allt heitir þetta einhverjum nöfnum og kennarar tala saman í vörumerkjum og starfið fer að snúast um tækjabúnað, hugbúnað, skráningar og hvers kyns tölvuvinnslu á meðan nemendur hanga áhugalausir í símanum og láta sér fátt um finnast það sem kennarinn leggur á sig á kennsluvefnum. En þá er það okkar að brjótast út úr þessu og finna mannlega þáttinn á ný og rækta hann. Ég vil að minnsta kosti ekki gefast upp og ég hef enn gaman af því uppistandi sem kennslan getur verið – þegar næst samtal og gagnvirkni.

Að lokum má geta þess að frænka og frændi eru skáldaðar persónur eða samsettar úr nokkrum sem ég þekki. Sjálfur er ég líka að einhverju leyti uppspuni. Ég vona samt að það leynist sannleikskorn í þessum skrifum, þau eru sett á koppinn í því skyni að vekja lesendur til umhugsunar. Því þótt tæknin hljóti í heild að vera af hinu góða og til framfara verða manneskjurnar að stjórna ferðinni, rækta mennskuna, draga úr áreiti, efla gagnrýna hugsun, samkennd; henda stundum öllum græjum út í horn og tala saman. Þannig verða kraftaverkin oft til.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er íslenskukennari og rithöfundur

Kartöflur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. apríl 2024 | kl. 11:30

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00