Fara í efni
Pistlar

Tækifæri til hæglætis?

Í upphafi nýs árs skrifaði kollegi minn, Sigurður Kristinsson, á þessum vettvangi afar góðan pistil þar sem hann hvatti okkur öll til að leyfa okkur að vera löt á nýju ári. Það er mjög þörf áminning og nú í kjölfar Covid-19 er tilvalið að velta fyrir sér hvort vert sé að endurhugsa lífsstíl okkar. Hvernig má það vera að hversdagurinn sé orðin svona annasamur í þessu fámenna landi. Hér á landi er líf margra mjög hratt og sum hafa notað myndlíkinguna um að vera eins og hamstur á hjóli í daglegu lífi. Kórónuveirufaraldurinn hefur sett allt á hliðina hér á landi líkt og annars staðar í heiminum og brotið upp daglegt líf margra. Kannski er kjörið tækifæri núna til að endurhugsa forgangsröðun og ekki síst hraða lífsins.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á sjónvarpsþátt um ævintýri íbúa á Djúpavogi eftir að bærinn gerðist hæglætisbær þegar sú umræða stóð sem hæst hér á Akureyri. Hólmkell Amtstjóri og fleiri voru óþreytandi við að tala fyrir hugmyndinni um að Akureyri gerðist hæglætisbær og þar með aðili að alþjóðsamtökunum Cittaslow. Á árunum fyrir hrun fékk hugmyndin ekki mikinn hljómgrunn enda landinn nær allur á fullri útrásar- og uppgangskeyrslu. Nú er spurning hvort ekki sé tækifæri til að dusta rykið af hugmyndinni, hægja á tempóinu og breyta forgangsröðinni.

Hæglætisbæir byggja á hugmyndum um sjálfbærni, aukin lífsgæði fyrir íbúa sína, meiri ánægju þeirra, minni hraða og áherslu á sérstöðu, verndun náttúru og menningarminja og félagslega samheldni. Á tímum aukinnar kulnunnar og streitutengdra veikinda hljómar þetta sem tónlist í mín eyru. Stærð Akureyrar er fullkomin til að vera hæglætisbær. Þegar er lögð áhersla á ansi margt hér í bæ sem hugmyndafræðin byggir á. Það sem þarf að bæta er allt leið að auknum lífsgæðum fyrir íbúa og gesti bæjarins. Annað eyjahverfi Akureyrar, Hrísey, skoðar nú að verða hæglætishverfi – látum ekki þar við sitja heldur skoðum fyrir alvöru að öll Akureyri tileinki sér hæglæti og aukin lífsgæði. Hægjum á Akureyri.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir er félagsfræðingur (og gullsmiður) og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Sjálfbær lífsstíll og sálfræðilegir þröskuldar

Auður H. Ingólfsdóttir skrifar
24. mars 2023 | kl. 15:00

Keðjuverkanir

Sigurður Ingólfsson skrifar
23. mars 2023 | kl. 06:00

Hús dagsins: Fróðasund 10

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
22. mars 2023 | kl. 09:00

Elsku vinur minn, Arnar

Jón Óðinn Waage skrifar
21. mars 2023 | kl. 11:00

Hvað er svona merkilegt við greni?

Sigurður Arnarson skrifar
21. mars 2023 | kl. 10:15

Ráðgátan um vatnsflutninga

Sigurður Arnarson skrifar
15. mars 2023 | kl. 10:10