Fara í efni
Pistlar

Tækifæri fyrir tekjuháa

Það er óþægilega margt líkt með Covid og CO2. Tvö ósýnileg fyrirbæri sem við þurfum að glíma við af fullum þunga á sama tíma. Lausnirnar eru líka óþægilega keimlíkar: Fræðsla, íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda, fjarfundir og fjarkennsla.

Við höfum brugðist mjög hratt og af miklum þunga við Covid í þeim tilgangi að verja heilsu og líf íbúa landsins. Munurinn liggur kannski helst í því að það eru ekki sömu hóparnir í samfélaginu sem verða fyrir mestum áhrifum. Covid leggst þyngst á elstu og veikustu einstaklingana í samfélaginu á meðan loftslagsbreytingarnar munu koma verst niður á yngsta fólkinu og þeim verst stöddu.

Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, sem heitir Climate change: Global 'elite' will need to slash high-carbon lifestyles er fjallað um nýlega greiningu frá UNEP (Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna). Þar kemur fram að tekjuhæstu 10% launþega á heimsvísu nota um 45% af allri orku sem notuð er til landflutninga og um 75% af allri orku í flugsamgöngur, samanborið við aðeins 10% og 5% fyrir fátækustu 50% heimilanna.

Það þarf svo sem ekki miklar greiningar til að sjá að þeir sem eiga mest menga mest; mengunin liggur í dótinu og ferðalögunum. En þeir sem hafa mest hafa líka bestu og auðveldustu tækifærin til að breyta rétt og hafa engar afsakanir þegar kemur að því að draga úr neyslu (væntanlega nóg til), stuðla að orkuskiptum í samgöngum eða að taka aðrar umhverfisvænar ákvarðanir. Fyrir orkuskiptin er nóg til af glæsikerrum sem ganga á 100% rafmagni og komast 1.000 km með örstuttu stoppi á hraðhleðslustöð (vonandi er enginn of ríkur til að stoppa í 20 mínútur í Staðarskála fyrir loftslagið og unga fólkið). Síðan er komið mikið úrval af umhverfisvottuðum neysluvörum í flestum verslunum og nánast öll flugfélög bjóða upp á kolefnisjöfnun í dag, hún kostar örfáar krónur. Síðan er auðvitað hægt að taka þátt í fjölmörgum loftslagsverkefnum eins og hverju öðru góðgerðarstarfi. Kolviður og Votlendissjóður bjóða upp á kolefnisbindingu. Og fyrir þá sem eiga allra mest er hægt að fjárfesta beint í loftslagsverkefnum eins og framleiðslu á innlendu eldsneyti eða í rannsóknum og þróun á verkefnum sem eru líkleg til að draga úr losun á CO2.

Gefum kolefnisbindingu í jólagjöf og lofum að standa okkur vel á nýju ári bæði í sóttvarnar- og loftslagsaðgerðum.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Frétt BBC sem nefnd er að ofan má lesa hér

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00