Fara í efni
Pistlar

Réttarríkið á Akureyri

Á dögunum gekk mikið Verbúðaræði yfir landið. Margir á mínum aldri kepptust við að grafa upp og birta á samfélagsmiðlum myndir af sér frá níunda áratugnum, eða „áttunni“ eins og sumir eru farnir að kalla það tímabil. Ég missti af þeim vagni en get upplýst það hér að ég var með sítt að aftan. Í staðinn langar mig að rifja upp atburð í sögu Akureyrar frá þessum tíma, lítið óhapp eins manns sem varð að stóru happi allra Íslendinga.

Einu sinni var til stofnun sem hét Sakadómur Akureyrar. Þar var Jón Kristinsson sakfelldur fyrir að hafa ekki virt stöðvunarskyldu á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis þegar hann átti leið þar um þriðjudaginn 26. júní 1984. Lögreglan sem stöðvaði hann, rannsakaði málið og kærði meint brot, heyrði undir Sýslumannsembættið. Það gerði Sakadómur Akureyrar einnig. Jón áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og verjandi hans krafðist þess að dómurinn yrði ógiltur þar sem sami aðili hefði bæði rannsakað og dæmt í málinu. Málið kom til kasta Mannréttindanefndar Evrópuráðsins sem taldi meðferðina brjóta gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Greinin gerir skýlausa kröfu um að dómstólar séu sjálfstæðir, óvilhallir og skipaðir samkvæmt lögum.

Lyktir urðu þær að árið 1989 setti Alþingi lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Í stað þess að sakadómur væri á ábyrgð sýslumanns og þannig háður framkvæmdavaldinu var komið á fót átta héraðsdómsembættum víðs vegar um landið, þar á meðal Héraðsdómi Norðurlands eystra. Sú litla þúfa, að Jón var ósammála lögreglu um hvort hann hefði stöðvað bifreið sína umræddan þriðjudag, hafði velt því þunga hlassi sem var gagngerar umbætur á íslensku réttarkerfi.

Á þessum tíma var 28. febrúar 2022 bara einhver dagur í fjarlægri framtíð. Kannski ímynduðum við okkur þá, ýmist með sítt að aftan eða ofvaxna axlapúða, að á þeim degi færi fólk ferða sinna í flugbílum. Kannski vorum við uppteknari af kjarnorkuógn kalda stríðsins og tengdum dagsetninguna martraðarkenndri tilveru í kjölfar gereyðingarstríðs. Hvorugt varð raunin og vonandi eigum við eftir að sleppa við kjarnorkustríð enn sem fyrr. Eitt gerðist þó þennan dag sem Jón Kristinsson lagði í raun grunninn að með mannréttindabaráttu sinni. Við Héraðsdóm Norðurlands eystra féll dómur gegn Lögreglustjóranum á Akureyri í máli manns sem taldi að lögreglan hefði farið út fyrir heimildir laga með því að kalla hann til yfirheyrslu með stöðu sakbornings. Ef gamla fyrirkomulagið, frá Verbúðarárunum, væri enn við lýði, hefði þessi dómur ekki getað fallið því þá var ekkert sjálfstætt dómsvald í héraði.

Þetta er þeim mun mikilvægara sem málið sem hér um ræðir er allt hið einkennilegasta að mínu mati. Blaðamaður, sem afhjúpaði vægast sagt vandræðalegar staðreyndir um stórfyrirtæki á Akureyri, er kallaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni á staðnum, með stöðu sakbornings, á næsta dularfullum forsendum. Að sjálfsögðu á ekki að dylgja um að lögregluembætti í héraði sé undir áhrifavaldi sterkra hagsmunaafla í sama héraði, en ef slíkt gerðist héti það spilling og það er einmitt baráttan gegn spillingu sem kallar á tæki á borð við alþjóðlega mannréttindasáttmála með kröfum um sjálfstæða dómstóla og réttláta málsmeðferð.

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00