Öruggur sigur SA – aftur hreint mark
Kvennalið SA í íshokkí vann öruggan sigur á liði SR, 5-0, þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Það sama var uppi á teningnum hjá kvennaliði SR og karlaliðinu, fremur fámennur hópur mættur norður. SA hafði góð tök á leiknum og sótti mun meira, eins og fjöldi skota á mark sýnir, 46 skot á móti 18. Shawlee Gaudreault hélt markinu hreinu annan leikinn í röð. Fimm mörk SA, fimm markaskorarar.
Eyrún Garðarsdóttir náði forystunni fyrir SA í fyrstu lotunni, fékk þá pökkinn á miðju eftir að SR-ingar höfðu hreinsað út úr varnarsvæði sínu, fór framhjá varnarmanni SR og skoraði stuttu eftir að hún kom inn í varnarsvæði SR. SA með eins marks forystu eftir fyrstu lotuna. Heiðrún Helga Rúnarsdóttir bætti við öðru marki með laglegum hætti um miðja aðra lotuna. Arndís Sigurðardóttir sendi þá pökkinn á Heiðrúnu Helgu sem sneri baki í markið og fleytti pökknum áfram í markið, framhjá markverði SR.
Snemma í þriðju lotunni munaði litlu að Shawlee Gaudreault í marki SA skoraði sjálfsmark. Pökkurinn kom þá inn í varnarsvæðið til hilðar við markið, leikmaður SR á eftir honum, Shawhlee fór út, stöðvaði pökkinn og ætlaði síðan að senda hann aftur fyrirmarkið á samherja hinum megin, en skaut honum í nærstöngina. Samherjar hennar náðu svo pökknum og spiluðu út. Shawlee stóð svo auðvitað vaktina fullkomlega að öðru leyti því hún hélt markinu hreinu.
Anna Sonja Ágústsdóttir skoraði þriðja mark SA í þriðju lotunni. Hún fékk þá pökkinn rétt innan við sóknarlínuna og skoraði með hnitmiðuðu skoti upp í markhornið. Þegar leið á þriðju lotuna fengu tvær úr liði SA refsingu með innan við mínútu millibili, en SR-ingum tókst ekki að nýta sér að vera tveimur fleiri á svellinu, vörnin stóð vaktina og Shawlee varði það sem á markið kom.
Skömmu eftir að aftur var orðið jafnt í liðunum bætti Silvía Rán Björgvinsdóttir við fjórða marki SR þegar hún fékk sendingu inn fyrir vörn SR, skautaði að markinu, lék á markvörð SR og renndi pökknum í markið. Fimmta markið kom svo þegar rúmar sjö sekúndur voru til leiksloka þegar Magdalena Sulova fékk pökkinn hægra megin úti við sóknarlínuna og skoraði með glæsilegu langskoti.
- SA - SR 5-0 (1-0, 1-0, 3-0)
Helstu tölur úr leiknum:
SA
Mörk/stoðsendingar: Anna Sonja Ágústsdóttir 1/1, Magdalena Sulova 1/1, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/1, Eyrún Garðarsdóttir 1/1, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 1/0, Guðrún Ásta Valentine 0/2, Sveindís Mary Sveinsdóttir 0/1, Arndís Sigurðardóttir 0/1, Arna Gunnlaugsdóttir 0/1, Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 18 af 18 (100%).
Refsimínútur: 8.
SR
Varin skot: Julianna Thomson 41 af 46 (89,1%).
Refsimínútur: 0.
Lið SA er á toppi Toppdeildar kvenna með 17 stig. SR er með tíu stig og Fjölnir án stiga.
Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum þar.
Í lokin á upptökunni má sjá öll mörkin saman í endursýningu.
Einmanaleiki
Krúttlegasti knattspyrnuvöllur í heimi
Ástand lands og landlæsi. Seinni hluti: Afneitun
„Brave“