Fara í efni
Pistlar

Lof letinnar

Þegar ég var ungur kynntist ég manni sem sagðist hafa það markmið í lífinu að þurfa sem minnst að vinna. Hann vildi að lágmarki tryggja að hann þyrfti ekki að standa í slíku fram yfir fimmtugt. Hann hafði gaman af að leika sér og stóð í ýmsu bralli auk þess að vera í doktorsnámi, sem hann sagðist hafa skráð sig í vegna þess að honum fannst „töff að vera doktor“. Þetta var eitt af þessum samtölum sem gleymast aldrei, viðhorf hans kom svo flatt upp á mig. Ég hafði verið samdauna hugarfari vinnusemi og dugnaðar, en allt í einu sá ég að það var ekki sjálfgefið.

Andúð á vinnusemi syndir gegn sterkum straumi menningarinnar sem hefur mótað okkur. Þetta kemur fram í orðatiltækjum eins og „vinnan göfgar manninn“ og „á morgun segir sá lati“. Þegar flett er upp orðinu „leti“ í íslenskri orðabók Árnastofnunar sjást notkunardæmin að „liggja í leti“ og „vera að drepast úr leti“ auk þess sem „skyldar færslur“ eru taldar vera: hyskni, ómennska, gauf, slugs, slen, dauflyndi, deyfð, slóðaháttur, slóðaskapur og sljóleiki. Boðskapur Litlu gulu hænunnar var settur fram í gamalli vísu: „Latur maður lá í skut. / Latur var hann þegar hann sat. / Latur fékk oft lítinn hlut. / En latur gat þó étið mat.“ Hér er önnur: „Lati Geir á lækjarbakka / lá þar til hann dó. / Ekki vild‘ann vatnið smakka / var hann þyrstur þó.“ Sem sagt, leti er dæmd sem löstur.

Sem betur fer hafa þó alltaf einhverjir þorað að synda á móti straumnum. Þorlákur Þórarinsson prófastur (1711-1773) orti kvæðið Lof letinnar. Franski heimspekingurinn Charles Fourier (1772-1837) vildi endurskipuleggja þjóðfélagið þannig að enginn þyrfti að pína sig áfram í vinnu. Breski heimspekingurinn Bertrand Russell (1872-1970) lagði til í frábærri grein árið 1932 að þorri fólks ætti að vinna fjóra tíma á dag en verja lífinu að öðru leyti í það sem veitir hverjum og einum ánægju. Þetta taldi hann mögulegt í ljósi þeirra tækniframfara sem þá þegar höfðu litið dagsins ljós. Bandaríski rithöfundurinn Bob Black (1951-) gekk enn lengra og sagði að enginn ætti nokkurn tímann að vinna. Grein hans frá 1985 heitir Afnám vinnunnar og lýkur á orðunum: „Verkafólk allra landa … slakið á!“

Þessir höfundar færa góð rök fyrir máli sínu. Þeir benda á að vinnan svipti okkur frelsi. Hún neyði okkur til að verja stórum hluta ævinnar við einhæfa iðju í þágu annarra. Þetta geri okkur sjálf einhæf og leiðinleg. Vinnusemin bitni á tengslum við vini og samborgara. Hún gefi okkur samviskubit yfir að gera hluti ánægjunnar vegna. Hún geri okkur áhugalaus og taki frá okkur lífsgleðina, heilsuna og stundum lífið sjálft. Frítíminn fari í að jafna sig eftir vinnuna og safna kröftum fyrir næstu törn. Við vinnum í stað þess að lifa. Ný tækni ræni fólk lífsviðurværi í stað þess að tækifærið sé notað til að minnka vinnuálagið heilt yfir. Letin á það skilið að við hefjum hana til vegs og virðingar því hún er lykillinn að góðu lífi.

Nú um áramótin var tekið mikilvægt skref í styttingu vinnuvikunnar hér á landi. Sem betur fer virðist vera að slakna á þeim menningarstraumum sem hingað til hafa haldið okkur föstum í spennutreyju dugnaðarins. Ég segi því: Letingjar allra landa … sameinist!“

Sigurður Kristinsson er heimspekingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Leiruviður og leiruviðaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
23. febrúar 2024 | kl. 11:00

Dúandi brjóst og dillandi bossar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
22. febrúar 2024 | kl. 11:00

Hansahillur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
19. febrúar 2024 | kl. 11:30

Roskin hjón á Syðri Brekkunni

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
16. febrúar 2024 | kl. 06:00

Ráðleggingar um mataræði

Janus Guðlaugsson skrifar
15. febrúar 2024 | kl. 08:00

Hin mörgu heiti ýs

Sigurður Arnarson skrifar
14. febrúar 2024 | kl. 12:12