Fara í efni
Pistlar

Hvíta rýmið

Hvort veitir þér meiri gleði, nýtt dót eða nærandi upplifun? Eitthvað sem jafnvel kostar ekki neitt? Eins og t.d. göngutúr í náttúrunni, samvera með kærum vini, eða kyrrðarstund með fyrsta kaffibolla dagsins.

Rannsóknir sýna að bætt lífskjör geta aukið hamingju upp að ákveðnu marki, eða þar til helstu grunnþörfum hefur verið mætt. Meiri efnahagsleg gæði, umfram það sem við þurfum til að búa við sæmilegt öryggi varðandi mat, húsnæði og helstu nauðsynjar, skila sér hins vegar ekki endilega í meiri hamingju eða innihaldsríkara lífi. Þar eru aðrir þættir sem spila stærra hlutverk: ást, nánd, félagslegt net, heilsa, andleg næring og að upplifa að það sem við séum að fást við frá degi til dags hafi tilgang.

Með þetta í huga þá verður eitthvað svo augljóst að sífellt meiri hagvöxtur er ekki það sama og sífellt meiri lífsgæði. Hærri laun, stærra hús og betri bíll er ekki það sem fyllir okkur djúpstæðri hamingjutilfinningu. Og allra síst ef leiðin að þessum efnislegu gæðum er að vinna myrkranna milli í vinnu sem okkur finnst ekki einu sinni endilega sérstaklega gefandi og skemmtileg.

Ég hef sjálf tekið nokkrar ákvarðanir á undanförnum árum sem hafa falið í sér að hægja á mér, vinna minna og um leið draga saman í útgjöldum. Einfalda lífið. Eiga fleiri rólegar stundir þar sem ég næ að tengjast kjarnanum og hlusta á það hvað raunverulega nærir mig. Þessar breytingar hafa augljóslega kallað á hófsamari lífsstíl. Eitthvað sem hefur þau jákvæðu hliðaráhrif að minn eigin lífsstíl hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið, en samt án þess að ég upplifi að ég sé að fórna einhverju í lífsgæðum. Það sem ég fæ í staðinn veitir mér meiri lífsfyllingu en þegar ég hljóp sem hraðast á hamsturshjólinu til að standa mig sem best í lífsgæðakapphlaupinu.

Eitt af því mikilvægasta sem ég hef uppgötvað í þeirri vegferð er það sem ég kalla „hvíta rýmið“ (e. white space). Hvíta rýmið er tákn fyrir auða stund í dagskrá dagsins, stundum jafnvel heill dagur þar sem ekkert er á dagskrá, annað en að vera í flæði. Leyfa deginum að taka þig þangað sem hann ber þig. Ég er ekki að tala um að taka sér hvíldardag þegar þú ert örmagna. Þvert á móti, þá er hvíta rýmið gjöfulast þegar við leyfum okkur að vera í rólegu flæði þegar við erum úthvíld og hugurinn vökull og frjór. Tengjumst inn á við, hlustum og tökum eftir umhverfi okkar. Erum til staðar og með kveikt á öllum skilningarvitum í samskiptum við aðra. Opnum hugann fyrir nýjum hugmyndum og virkjum sköpunarkraftinn.

Ert þú að taka frá tíma fyrir þig?

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00