Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Sundlaug Akureyrar

Hús dagsins. Sundlaug Akureyrar (Þingvallastræti 21)

Sundlaug Akureyrar skipar ekki bara stóran sess í hugum Akureyringa heldur flestra sem bæinn hafa heimsótt. Rétt er þó að geta þess, að laugin er ekki sú eina á Akureyri því norðan Glerár er einnig Glerárlaug og þá eru vitaskuld sundlaugar í Hrísey og Grímsey. Sundlaugin og sundlaugarhúsið frá miðri síðustu öld, eftir Guðjón Samúelsson og Bárð Ísleifsson, stendur efst í Grófargilinu, andspænis húsum nr. 10-18 við Þingvallastræti. Telst laugarsvæðið standa við Þingvallastræti 21, liggur það einnig að Þórunnarstræti að vestan, en aðkoma og bílastæði er af Skólastíg. Sundlaugarhúsið var formlega tekið í notkun 1956, eftir margra ára byggingarframkvæmdir, en þá þegar var orðin löng hefð fyrir sundiðkun á þessum stað. Saga sundaðstöðu í einhverri mynd á þessum stað spannar liðlega 120 ár.

Sjálfsagt er óvitlaust, að miða formlegt upphaf hugmynda að sundaðstöðu í Grófargili, við fund Bæjarstjórnar Akureyrar þann 28. maí 1895, að Eggert Laxdal bæjarfulltrúi bar upp þá tillögu, að veitt yrði fé, 20-30 krónur til sundkennslu eða komið yrði upp sundpolli. Í kjölfarið var kosin þriggja manna nefnd til að sinna þessum málum og samanstóð hún af áðurnefndum Eggert, Fr. Kristjánssyni og J.V. Havsteen. Ári síðar, eða 13. maí 1896 ákveður bæjarstjórnin að verja 75 krónum til þess að koma upp sundpolli í Grófargili, með von um svipaðan styrk úr landssjóði, og í framkvæmdanefnd völdust þeir E. Laxdal, J.V. Havsteen og Páll Jónsson. Þetta eru alltént með elstu heimildunum, þar sem nefndur er sundpollur í Grófargili. Aðstaða þessi fékkst einfaldlega með því að stífla lækinn sem rann um Grófagilið. Þessar framkvæmdir fóru líklega fram snemma vors 1897, en 4. maí það ár nefnir Eggert það á bæjarstjórnarfundi að sundpollur hafi runnið fram og grunar hann, að stíflugarður hafi verið „sprengdur af mannavöldum“ Var í kjölfarið lagt lögbann á töku uppfyllingarefnis úr stíflugarðinum.

Sundpollur þessi, sem auðvitað var aðeins uppistöðulón af lindar- og leysingarvatninu var, eins og gefur að skilja, bæði óhreinn og kaldur en Tryggvi Þorsteinsson lýsir sundpollinum mjög gaumgæfilega í bókinni Varðeldasögum: [...] hlaðinn var mikill torfgarður þvert fyrir Grófargilið, þar sem sundlaugarlækurinn rennur. Neðst í stíflugarðinum var tréstokkur og þegar honum var lokað myndaðist dálítil tjörn ofan við garðinn. Hún lagaði sig alveg eftir landslaginu, svo þarna mátti sjá nes og voga, og langt til vesturs lá hlykkjóttur fjörður upp lækjarfarveginn og nefndist það „hafsvæði“ Skottið. Þar náði vatnið okkur í ökkla og drullan eða leirinn í botninum náði líka í ökkla svo samanlagt náði þessi vaðall okkur í miðja kálfa. Annars var mesta dýpið austast við stíflugarðinn og upp eftir miðri tjörninni. Vatnið var eins og súkkulaði á litinn, en það var ekki neitt súkkulaðibragð af því og það vissum við vel, því æði oft fengum við okkur sopa, - svona óvart. Sérstaklega þeir sem ekki þorðu að stinga sér, því vatnið var oftast 11-15 gráðu heit og margir supu hveljur þegar þeir óðu út í þetta. (Tryggvi Þorsteinsson 1973: 22-23).

Þetta mun hafa verið um 1920. Á þessum tíma var eina byggingin við pollinn lítill skúr, sem lýst er í Fasteignamati 1918 sem sundskáli, en hann var úr timbri með hallandi þaki, 3,1x3,1m ein hæð ósundurþiljuð og metinn á 100 kr. Það má nefna til samanburðar, að í sama fasteignamati er ekki óalgengt, að meðalstór einbýlishús séu metin á 5-7000kr. En árið 1922 voru kantar steyptir í laugina og heyrðu þá nesin og vogarnir (sbr. frásögn Tryggva) væntanlega sögunni til, en það var hins vegar ekki fyrr en 1936 að botn var steyptur, þ.a. líklega hefur súkkulaðiliturinn haldist að mestu í vatninu fram að því. En árið 1933 varð mikil bylting í sundaðstöðu bæjarbúa. Þá var nefnilega leitt heitt vatn eftir leiðslum úr heitum laugum í Glerárgili. Þeirri miklu framkvæmd, lagningu veitustokks um 3 km leið ofan úr Glerárdal stýrði Höskuldur Baldvinsson verkfræðingur. Eftir þessar endurbætur varð laugin að jafnaði 25-26 gráðu heit, sem þykir enn í dag nokkuð ákjósanlegt fyrir keppnislaugar en er ívið of kalt fyrir þá sem aðeins vilja liggja og slaka á við bakkann.

Hér má sjá ansi hreint áhugavert myndband, sem sýnir fólk í Sundlaug Akureyrar sumarið 1939 (sem var annálað fyrir hlýindi) og sýnir það nokkuð glögglega aðstöðuna. Auk þess má sjá, að á þessum tíma var sundlaugin við efri mörk þéttbýlis. Myndbandið er á Youtube-rás Gylfa Gylfasonar, sem kallast einfaldlega Akureyri.

Það var síðan á fimmta áratug 20. aldar (jafnvel fyrr) sem farið var að huga að byggingu sundhallar og hófust framkvæmdir við hana 1948. Á baksíðu Íslendings þann 16.ágúst 1950 er að finna útlitsteikningu af fyrirhugaðri sundhöll - sjá hér - og kemur þar fram að búið sé að steypa kjallara og fyrstu hæð, og jafnframt að hönnuður sé Bárður Ísleifsson. En byggingin var teiknuð á teiknistofu Húsameistara ríkisins, þ.e. Guðjóns Samúelssonar. Ekki gat höfundur fundið neinar bókanir hjá Bygginganefnd um Sundhöllina. Hins vegar er nokkuð um það, að fjallað sé um byggingu Sundhallar í dagblöðum Akureyrar á fyrri hluta 6. áratugar 20. aldar og er þar oftast talað um seinagang við byggingu og erfiðleika við fjármögnun. Í Degi þann 25. febrúar 1953 segir t.d. að sundhöllin hafi verið í smíðum í mörg en þokist lítið nær lokatakmarkinu Það var því aldeilis ekki hlaupið að byggingu sundhallarinnar en það var loks í júlí 1956 að húsið var tekið í notkun við hátíðlega athöfn - sjá hér

Sundlaugarhúsið frá 1956 er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og smærri álmu að norðvestanverðu. Sú álma skagar nokkra metra til vesturs og var sú ráðstöfum væntanlega hugsuð sem e.k. varðturn þar sem þar er stór gluggi sem vísar að lauginni, þar sem afgreiðsla var staðsett allt til 1999 að nýbygging var tekinn í notkun. Gluggasetning byggingarinnar er nokkuð regluleg, en á fram- og bakhlið eru raðir af gluggum, 12 að tölu á hvorri hæð. Þá eru kringlóttir gluggar, á norðurgafli og undir þakskyggni að sunnanverðu. Á norðausturhorni er inngangur og dyraskýli og þar fyrir ofan þrír smáir ferhyrningslaga gluggar. Þessar dyr voru aðalinngangur sundlaugarinnar í rúm 40 ár en er nú starfsmannainngangur.

Árin 1998-2000 var ráðist í miklar byggingarframkvæmdir og var byggt við húsið til suðurs. Var það Arkitektastofan Form sem átti veg og vanda að hönnun þeirrar byggingar. Sú bygging er einlyft steinsteypubygging með flötu malarþaki en áfastur henni er glerskáli mikill sem hýsir yfirbyggðan heitan pott, sambyggðan lauginni. Þar er hægt að setjast niður og synda út í laug í gegnum dyr á glerbyggingunni. Í nýbyggingu eru búningsklefar kvenna, afgreiðsla og kaffitería auk áðurnefnds potts undir glerhvelfingunni. Í eldri byggingunni eru búningsklefar karla á neðri hæð en þar hafa þeir verið frá upphafi. Þar var allt endurnýjað um aldamótin þegar viðbygging var byggð. Á efri hæð, þar sem áður voru kvennaklefarnir, er nú m.a. aðstaða starfsfólks og saunabað. Í kjallara er innilaug og er sú mun sú aðstaða að mestu óbreytt frá upphafi. Þá eru ótalin mikil lagna- og tækjarými undir laug og laugarhúsi. Aðrar byggingar á svæðinu eru varðturn miðsvæðis, eimbað skammt vestur undir sundlaugarbyggingunni og útiklefar, þ.e. þaklausir búningsklefar suðvestanvert á svæðinu.

Á sundlaugarsvæðinu eru tvær stórar laugar, önnur keppnislaug sunnar og ofar en laug nær byggingu er frekar nýtt fyrir almenning og leik barna. Þá eru þarna þrír heitir pottar, þar af einn stór vestur undir glerskálanum og vaðlaug næst byggingu.

Rennibrautir eru alls þrjár, og nefnast þær Flækja, Trekt og Foss og leystu þær af hólmi eldri rennibraut frá 1994. Sú var, eftir því sem höfundur kemst næst, nafnlaus. Höfundur hefur ekki séð, að Sundhöllin hafi verið metin til varðveislu í nokkurri Húsakönnun en varðveislugildi Sundhallarinnar frá miðri 20. öld hlýtur að vera nokkurt. Bæði er byggingin mjög stílhrein og glæsileg og stendur á áberandi stað, auk þess sem húsið er verk Húsameistara ríkisins. Nýbyggingin er einnig vel heppnuð, sem og tenging hennar við eldri byggingu, sem fær algjörlega að njóta sín óháð þeirri nýju og njóta báðar byggingar sín til fullnustu. Þá spannar saga Sundlaugarinnar sem sundstaðar yfir 120 ár. Myndin sem sýnir sundlaugarbygginguna að framanverðu er tekin 8. apríl 2018. Yfirlitsmynd af Sundlaugarsvæðinu er tekin 19. júní 2015 en myndin af rennibrautinni er tekin 13. maí 2018.

Það er að sjálfsögðu ekki annað hægt en að mæla með heimsókn í Sundlaug Akureyrar, hvort sem ætlunin er að synda, busla í vaðlauginni, hafa það náðugt í gufubaðinu, slaka á í pottinum og ræða landsins gagn og nauðsynjar við náungann svo sem þar tíðkast. Eða taka „salibunu“ í nýjum rennibrautum. Flækjan mun vera lengsta rennibrautin á landinu þegar þetta er ritað, 86 metrar (m.ö.o. lengri en gatan Krabbastígur!) Höfundur sækir laugina nokkuð oft en viðurkennir fúslega, að meiri tíma er varið í pottunum en lauginni sjálfri.

Arnór Bliki Hallmundsson er kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri - og grúskari.

_ _ _

Heimildir:

Bæjarstjórn Akureyrar. Gjörðabók 7.febr 1879 – 29. júní 1900. Fundir þ. 28. maí 1895, 13. maí 1896 og 4. maí 1897. Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Fasteignamat á Akureyri 1918.

Hermann Sigtryggsson og Eiríkur Björn Björgvinsson. 2000. Íþróttamannvirki á Akureyri. Íþrótta- og tómstundaráð Akureyrar. Pdf aðgengilegt á https://www.akureyri.is/static/files/ithrottamal/ithrottamannvirki-a-akureyri-arid-2000.pdf

Pétur H. Ármannsson. 2020. Guðjón Samúelsson húsameistari. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Tryggvi Þorsteinsson. 1973. Varðeldasögur. Akureyri: Skjaldborg.

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00

Gervigreind: Ekki lengur vísindaskáldskapur

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Áhugi minn á gervigreind: Frá slökkviliði til Oxford

Magnús Smári Smárason skrifar
11. júní 2024 | kl. 17:00

Frystigeymslan

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. júní 2024 | kl. 11:30